Þegar atvinnurekandi greiðir starfsmanni laun þá fylgja því launatengd gjöld og orlofslaun. Launatengd gjöld eru um 25% og orlof 10 - 13%, samtals um 35 - 38%.
Greiði atvinnurekandi starfsmanni laun í sóttkví þá fær hann launahlutann endurgreiddan, upp að tilgreindu hámarki, en ekki annan launatengdan kostnað.
Ef mánaðarlaun starfsmanns eru t.a.m. nálægt hámarksviðmiði laganna, kr. 633 þús., þá er kostnaður atvinnurekanda rúml. 100 þús. krónur vegna eins starfsmanns í tveggja vikna sóttkví.
Vegna mikilvægis sóttkvíar til að draga úr fjölgun smita þá hafa SA beint því til atvinnurekenda að greiða starfsmönnum laun í sóttkví og taka þannig þátt í kostnaði samfélagsins af þessu mikilvæga úrræði.
Það eru ekki allir atvinnurekendur í stöðu til að taka á sig fyrrnefndan kostnað, sér í lagi ef margir starfsmenn á vinnustað þurfa að sæta sóttkví, hvað þá ef við bætast foreldrar barna sem sæta sóttkví. Starfsmenn geta þá þurft að sækja um greiðslur beint til Vinnumálastofnunar.
Atvinnurekendur geta dregið úr kostnaði, t.a.m. með því að greiða einungis dagvinnulaun vegna daga í sóttkví eða greiða starfsmanni aðra fjárhæð sem innifelur orlofslaun. Atvinnurekandi hefur það svigrúm þar sem greiðsluskylda hvílir ekki á honum.
Hægt er að reikna kostnað atvinnurekanda í þessu excel-skjali.*
Allir sóttkvíardagar endurgreiddir nema starfsmaður gat unnið í fjarvinnu
Flest fyrirtæki landsins sem sótt hafa um greiðslur til Vinnumálastofnunar vegna launa í sóttkví eiga rétt á leiðréttingu en þau fengu mun lægri greiðslu en þeim bar. Þetta var niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála í fordæmisgefandi máli sem Samtök atvinnulífsins aðstoðuðu félagsmann sinn við en fjöldi fyrirtækja hafði leitað til samtakanna vegna umdeildrar túlkunar Vinnumálastofnunar á lögunum.
Vinnumálastofnun túlkaði lögin með þeim hætti að fyrirtæki fengju einungis endurgreiðslu fyrir þá daga sem starfsmenn áttu að vinna á sóttkvíartímabilinu. Starfsmaður þyrfti því að hafa átt að vera í vinnu alla sóttkvíardaganna til að fá tekjutjón sitt bætt að fullu.
Fyrirtækið sem höfðaði málið fékk einungis endurgreiðslu að fjárhæð 5.668 kr. vegna 14 daga sóttkvíar hjá starfsmanni sem vann aðra hverja helgi og fékk fyrir þá vinnu samtals 85.324 kr. á mánuði. Fyrirtækið borgaði starfsmanninum laun í sóttkvínni að fjárhæð 42.306 kr. og fékk því einungis endurgreiðslu upp á 13,4% og ekki er þá tekið tillit til launatengds kostnaðar.
Kærunefnd velferðarmála var sammála túlkun Samtaka atvinnulífsins sem er að finna hér á vinnumarkaðsvefnum og Vinnumálastofnun var gert að endurgreiða fyrirtækinu þannig að það fengi alla þá daga greidda sem starfsmaðurinn var í sóttkví eins og skýrt er kveðið á um í athugasemdum með lögunum.