Strangari kröfur gilda um vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga en nægjanlegt er að vinnslan uppfylli eitt af eftirfarandi skilyrðum:
Samþykki
Sömu reglur gilda um samþykki í tilviki viðkvæmra og almennra persónuupplýsinga með þeim fyrirvara að samþykki getur ekki verið sjálfstæður grundvöllur vinnslu þegar: (i) vinnslan samræmist ekki laga eða fagskyldum, (ii) vinnslan er í eðli sínu sérstaklega viðkvæm, (iii) veittar eru upplýsingar um aðra einstaklinga.
Vinnslan er nauðsynleg svo sá sem upplýsingarnar varðar geti staðið við skuldbindingar sínar og nýtt sér félagsleg réttindi
Hér undir falla skyldur sem hvíla á vinnuveitanda samkvæmt ráðningarsamningi, vinnustaðasamningi eða kjarasamningi. Meðal skyldna vinnuveitanda er að standa skil á samningsbundnum stéttarfélagsgjöldum og greiðslum í lífeyrissjóð.
Vinnslan er nauðsynleg til að verja verulega hagsmuni einstaklings sem er ekki bær um að gefa samþykki sitt
Heimildin er túlkuð þröngt og á einungis við ef viðkomandi einstaklingur er ófær um að gefa samþykki sitt vegna andlegs ástands og lífspursmál er að vinnslan eigi sér stað.
Vinnslan er framkvæmd af stéttarfélögum og félögum sem starfa ekki í hagnaðarskyni
Vinnslan verður að vera liður í lögmætri starfsemi og nauðsynleg fyrir starfsemi félagsins. Slíkt var t.d. ekki fyrir hendi að mati Persónuverndar þegar stéttarfélag aflaði sundurliðara upplýsinga um heildarlaun einstakra félagsmanna (2011/201). Skilyrði miðlunar slíkra persónuupplýsinga til þriðja aðila er að samþykki liggi fyrir og að gerðar séu viðeigandi verndarráðstafanir.
Vinnslan tekur einungis til upplýsinga sem sá er upplýsingarnar varðar hefur gert opinberar
Til þess að heimildin geti átt við verða upplýsingarnar að vera skýrar og ná til nægjanlega breiðs hóps manna. Spjall á kaffistofu við lítinn hóp samstarfsmanna er t.d. ekki nægjanlega breiður hópur í þessum skilningi.
Heimildin er bundin því skilyrði að vilji viðkomandi hafi staðið til þess að gera umræddar persónuupplýsingar opinberar. Hann verður sjálfur að gera persónuupplýsingarnar opinberar með athöfn eða veita öðrum umboð til þess.
Vinnsla er nauðsynleg til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja
Lykilatriði er að gætt sé meðalhófs og einungis sé unnið með upplýsingar í þessum tilgangi þegar það telst nauðsynlegt til að ná fram lögmætu markmiði. Það er því ekki nóg að heppilegt geti verið að aflað upplýsinganna heldur verður það að teljast nauðsynlegt.
Hér undir fellur t.d. vinnsla um starfsmann sem er vinnuveitanda nauðsynleg í tengslum við vinnuréttar, -höfunda, -skaðabóta, -eða refsimál. Persónuvernd hefur t.d. talið að vinnuveitanda sé á þessum grundvelli heimilt að nota myndbrot úr eftirlitsmyndavélum í tengslum við brottrekstrarmál (2002/579).
Heimild til vinnslu í sérlögum
Ekki er nægjanlegt, líkt og í tilviki almennra persónuupplýsinga, að vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu heldur þarf lagaheimild í sérlögum um vinnsluna. Forsenda lagaheimildarinnar er að verulegir almannahagsmunir standi til vinnslunnar.
Vinnslan er nauðsynleg vegna heilsufarssjónarmiða
Heimilt er að vinna viðkvæmar persónuupplýsingar þegar það er nauðsynlegt til að fyrirbyggja sjúkdóma eða vegna atvinnulækninga, til að meta vinnufærni starfsmanns, greina sjúkdóma og veita umönnun eða meðferð á sviði heilbrigðis- eða félagsþjónustu enda sé starfsfólkið bundið þagnarskyldu.
Vinnslan er nauðsynleg vegna almannahagsmuna á sviði lýðheilsu
Heimilt er að vinna viðkvæmar persónuupplýsingar þegar vinnslan er nauðsynleg af ástæðum er varða almannahagsmuni á sviði lýðheilsu. Til dæmis til að verjast alvarlegum heilsufarsógnum sem ná þvert yfir landamæri eða til að tryggja öryggi og gæði heilbrigðisþjónustu, lyfja eða lækningatækja.
Vinnslan er nauðsynleg vegna tölfræði-, sagnfræði- eða vísindarannsókna
Skilyrði þess að vinnsla geti farið fram í þessum tilgangi er að gripið sé til viðeigandi tæknilegra og skipulagslegra ráðstafana til að vernda þá sem upplýsingarnar varða og að ekki séu unnar meiri upplýsingar en þörf er á.
Vinnslan er nauðsynleg vegna skjalavistunar í þágu almannahagsmuna
Vinnsla er einungis heimil í þessum tilgangi þegar heimild stendur til hennar í sérlögum enda sé þar kveðið á um viðeigandi verndarráðstafanir, einkum þagnarskyldu.