Vinnutímastytting 2019 - 22

Í kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins 2019 var samið um styttingu vinnutíma. Það var hins vegar gert með mismunandi hætti og mikilvægt að greina á milli hópa: 

1) Afgreiðslu- og skrifstofufólk

Samkvæmt kjarasamningum VR/LÍV verður sjálfkrafa stytting vinnutíma þann 1. janúar 2020 og breytast þá einnig deilitölur dagvnnutímakaups. Stytting nemur 9 mín. á dag m.v. fullt starf ef ekki næst samkomulag um annað fyrirkomulag.

Sjá ákvæði kjarasamningsins VR/LÍV og kynningarefni um vinnutímastyttingu

2) Verkafólk

Hjá verkafólki er heimilt að semja styttingu vinnutíma á hverjum vinnstað samhliða niðurfellingu kaffitíma á grundvelli ákvæða 5. kafla kjarasamninga um fyrirtækjaþátt. Starfsmenn þurfa fyrst í atkvæðagreiðslu að samþykkja að hefja viðræður við vinnuveitanda.

Sjá almenna umfjöllun um vinnutímastyttingu kjarasamninga.

3) Iðnaðarmenn

Samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga iðnaðarmanna er heimilt að semja styttingu vinnutíma á hverjum vinnustað samhliða niðurfellingu kaffitíma á grundvelli ákvæða 5. kafla kjarasamninga um fyrirtækjaþátt. 

Þann 1. apríl 2020 verður tekinn upp "virkur vinnutími" hjá iðnaðarmönnum, þ.e. greiddar verða 37 klst. á viku í stað 40 klst. áður. Greiðsla fyrir kaffitíma, 3 klst. á viku, fer inn í tímakaup fyrir virkan tíma. Sjá skýringar í hlutaðeigandi kjarasamningum.

Frá og með 1. janúar 2022 er það einhliða réttur starfsmanna, að lokinni atkvæðagreiðslu innan fyrirtækis, að stytta vinnutíma úr 37 klst. í 36 klst. og 15 mín. (36,25 klst.) án breytinga á neysluhléum. Það gildir þar sem ekki hafa verið gerðir 5. kafla samningar um vinnutímastyttingu. 

Sjá almenna umfjöllun um vinnutímastyttingu kjarasamninga.

4) Aðrir hópar / háskólamenn

Skoða þarf hvern og einn kjarasamning, eins og honum var breytt 2019, til að sjá hvort vinnutími hafi verið styttur og þá með hvaða hætti. 

Ekki hafa verið gerðar breytingar á kjarasamningum SA við aðildarfélög BHM og félög verk- og tæknifræðinga og tölvunarfræðinga. Starfsmenn sem taka kjör eftir þessum samningum bera sig hins vegar saman við starfsmenn á sama vinnustað sem taka t.d. kjör skv. kjarasamningi VR/LÍV. Vinnuveitandi getur því þurft að ræða við hlutaðeigandi starfsmenn um hvort vinnutímastytting eigi við og þá hvernig hún geti komið til framkvæmda.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.