Hverjir eiga rétt til aðildar?
Starfsmenn á almennum vinnumarkaði eiga ekki lögbundinn rétt til aðildar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) en slík aðild hefur viðgengist í ákveðnum tilvikum með samþykki sjóðsins að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
Aðildarumsókn starfsmanns byggist á samkomulagi hans og vinnuveitanda og ræðst jafnframt af samkomulagi þeirra hvort viðbótarkostnaður af LSR aðild sé borinn af vinnuveitanda eða starfsmanni.
Hvert er iðgjald vinnuveitanda?
Iðgjald vinnuveitanda starfsmanna í LSR er 11,5%.
Ekki sjálfgefið að vinnuveitandi þurfi að greiða viðbótarframlag
Iðgjald af LSR aðild kann að taka breytingum, sbr. t.d. viðbótariðgjald upp á 5,85% sem ákveðið var af LSR í apríl 2017 með stoð í lögum nr. 127/2016 en gjald þetta er endurskoðað árlega en því er ætlað að endurgreiða ríkissjóði framlag sem fer til þess að greiða lífeyrisauka þessara starfsmanna. Iðgjald þeirra vinnuveitanda sem viðbótariðgjaldið nær til er því 17,35%.
Starfsmaður á ekki sjálfkrafa rétt til greiðslu viðbótarkostnaður frá atvinnurekanda nema ráðningarsamningur tryggi honum ábyrgð vinnuveitanda á greiðslu mótframlags til LSR eins og það er hverju sinni. Mikilvægt er að vinnuveitandi og starfsmaður hafi þetta í huga og gangi frá ráðningarsamningi þannig að tekið sé á þessum atriðum.
Dæmi:
„Vinnuveitandi greiðir 11,5% mótframlag til LSR. Verði iðgjaldið hækkað ræður starfsmaður því hvort hann taki á sig hækkunina eða flytji sig yfir í lífeyrissjóð á almenna markaðnum."
Sé umrætt viðbótariðgjald ekki greitt færast starfsmenn úr jafnri ávinnslu yfir í aldurstengda ávinnslu.
Jöfn eða aldurstengd ávinnsla?
Í jafnri ávinnslu er ávinnsla réttinda jöfn yfir starfsævina, óháð aldri. Hver króna sem greidd er til sjóðsins gefur sömu réttindi, óháð því hversu lengi sjóðurinn nær að ávaxta hana.
Í aldurstengdri ávinnslu taka réttindi á hinn bóginn mið af aldri sjóðsfélaga þegar iðgjald berst sjóðnum. Iðgjald yngri sjóðsfélaga eru verðmætari því þau ávaxtast yfir lengri tíma. Réttindi sjóðsfélaga verða því í samræmi við verðmæti iðgjaldanna sem þeir greiða.