Bakvaktir
Þegar vinnuveitandi setur á bakvakt skal starfsmaður vera reiðubúinn að sinna útkalli.
Með útkalli er átt við kvaðningu til vinnu sem felur í sér að starfsmaður þarf að mæta á tiltekinn vinnustað.
Þótt bakvaktir séu fyrst og fremst skipulagðar vegna útkalla þá þekkist einnig að bakvaktir séu settar á vegna símaaðstoðar við viðskiptamenn og fjarvinnu / fjarlausna utan almenns afgreiðslutíma. Slík vinna telst ekki vera „útkall", sbr. dóm Félagsdóms í máli nr. 6/2003, og þarf því að semja sérstaklega um greiðslu fyrir þá vinnu.
Bakvaktarálag
Bakvaktarálag er almennt með tvennum hætti, 33% af dagvinnutímakaupi fyrir hverja klst. á bakvakt þar sem starfsmaður „er bundinn heima við síma" og 16,5% þegar ekki er krafist tafarlausra viðbragða af hálfu starfsmanns. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 11/2011 var vísað til þess að starfsmaður hafi á bakvakt ekki verið bundinn heima við og var kröfu hans um 33% bakvaktarálag því hafnað.
Ef gerð er krafa um að starfsmaður sinni útkalli án tafar þannig að bakvakt feli í sér mikla bindingu þá er rétt að semja um bakvaktarálag sem er nær 33% en 16,5%, jafnvel þótt starfsmanni sé ekki skylt að vera heima við þann tíma sem hann er á bakvakt.
Bakvaktarálag reiknast sem hlutfall af dagvinnutímakaupi. Er ekki er um annað samið er miðað við dagvinnutímakaup hlutaðeigandi starfsmanns. Heimilt er að semja um álag sem er hlutfall af tímakaupi skv. kjarasamningi. Rétt er að tilgreina þann grunntaxta í samkomulag um vinnu á bakvakt.
Á sérstökum frídögum, þ.e. helgidögum - og stórhátíðardögum / rauðum dögum, er greitt hærra bakvaktarálag, 50% í stað 33% álags og 25% í stað 16,5% álags. Laugardagar og sunnudagar teljast ekki til sérstakra frídaga í þessum skilningi og greiðist almennt álag þá daga.
Í ákvæðum kjarasamninga um bakvaktir geta verið sérákvæði um greiðslur fyrir útköll sem eru frábrugðin almennum útkallsákvæðum.
Sjá nánar gildandi kjarasamninga:
Gr. 2.10 í kjarasamningi SGS / Eflingar
Gr. 2.9. í kjarasamningi SGS / Eflingar v. veitinga-, gistihúsa o.fl.
Gr. 2.8. í kjarasamningi VR / LÍV
Gr. 2.4. í kjarasamningi RSÍ
Gr. 2.9. í kjarasamningi Samiðnar
Gr. 2.10 í kjarasamningi VM
Síðast uppfært: Maí 2020