Daglegur vinnutími
Daglegur vinnutími ungmenna má ekki fara yfir 8 klst. á dag og 40 klst. á viku. Neysluhlé og sérstakir frídagar teljast ekki til vinnutíma.
Þegar brýn nauðsyn ber til vegna eðlis starfseminnar, svo sem ef bjarga þarf verðmætum í landbúnaði eða fiskvinnslu má vinnutími unglinga fara yfir 8 klst. á dag og 40 klst. á viku enda sé gætt ákvæða um vinnutíma, hvíldartíma og frítíma. Unglingar mega þó aldrei vinna lengur en 60 stundir á viku og 48 stundir að viku að meðaltali yfir 4 mánuði.
Ef vinna unglinga er liður í verklegu eða fræðilegu námi telst sá tími, sem fer til kennslu, til daglegs og vikulegs vinnutíma. Ef unglingur vinnur fyrir fleiri en einn vinnuveitanda skal leggja vinnutímann saman.
Hlé frá vinnu
Vinni unglingur lengur en 4 klst. í dagvinnu á hann rétt á minnst 30 mínútna hléi á hverjum degi sem skal vera samfellt ef kostur er.
Kvöld- og næturvinna
Meginreglan er sú að unglingum sé óheimilt að vinna frá kl. 22 til kl. 6 nema í tilteknum störfum. Unglingar mega þó aldrei vinna milli kl. 24 og kl. 4.
Frávik:
Í bakaríi má vinna frá kl. 4.
Í söluturnum og söluskálum, á skyndibitastöðum, myndbandaleigum, bensínstöðvum og sambærilegum stöðum mega unglingar vinna til kl. 24 að kvöldi.
Í kvikmyndahúsum, leikhúsum og við sambærilega starfsemi mega unglingar aðstoða við sýningar til kl. 24.
Á veitingastöðum, hótelum og við svipaða starfsemi mega unglingar vinna til kl. 24.
Heilbrigðisskoðun vegna næturvinnu:
Þeir unglingar sem vinna milli kl. 22 til kl. 6 eiga rétt á heilbrigðisskoðun og athugun á vinnuhæfni sinni sér að kostnaðarlausu áður en þeir hefja næturvinnu og síðan með reglulegu milli eftir það, nema þeir vinni næturvinnu einungis í undantekningartilvikum.
Hvíldartími
Unglingar skulu fá minnst 12 klst. samfellda hvíld á hverjum sólarhring. Undantekning frá þessu gildir í þeim tilvikum sem um er að ræða störf unglinga við landbúnað, ferðamál eða við hótel- og veitingarekstur, sem er skipt upp yfir daginn enda fái unglingarnir samsvarandi uppbótarhvíld. Hið sama gildir um vinnu unglinga sem varir í stuttan tíma hverju sinni. Samfelld hvíld skal aldrei fara niður fyrir 10 klst. á sólarhring í þessum tilvikum.
Unglingar skulu fá minnst tveggja daga hvíld á viku hverri sem skal vera samfelld ef kostur er. Undantekning er veitt ef tæknilegar eða skipulagslegar ástæður eru fyrir hendi en í þeim tilvikum má stytta hvíld í allt að 36 samfelldar stundir.
Óviðráðanleg ytri atvik (force majeure)
Í óviðráðanlegum tilvikum (force majeure) við óhöpp eða bilanir í vélum eða aðrar aðstæður, sem vinnuveitandi fær ekki ráðið við, er heimilt að víkja frá reglum um vinnutíma, næturvinnu og hvíldartíma unglinga enda sé um að ræða tímabundna vinnu sem þolir enga bið og ekki sé unnt að fá fullorðna til starfans