Meginskyldur starfsmanna eru vinnuframlag, hlýðni og trúnaður við vinnuveitanda. Sjá nánar sérstaka umfjöllun um skyldur starfsmanna og trúnað. Brjóti starfsmaður alvarlega gegn þeim skyldum sínum getur það varðað riftun ráðningar.
Í vissum tilvikum getur starfsmaður einnig orðið bótaskyldur gagnvart vinnuveitandanum.
Hér verður farið yfir einstök brot, möguleg viðbrögð við þeim og hvort þau krefjast undangenginnar áminningar. Byggt er á eftirfarandi flokkun brota:
- Brot á vinnuskyldu
- Brot á hlýðniskyldu
- Brot á trúnaðarskyldu
- Refsiverð brot
1. Brot á vinnuskyldu, svo sem óstundvísi og vanræksla á starfsskyldum
Brot á vinnuskyldu getur m.a. falist í því að starfsmaður mætir of seint, kemur ekki til vinnu eða vinnur ekki þau verk sem honum ber. Riftun vegna þess háttar brota er þó ekki heimil nema að undangenginni áminningu.
Afstætt mat
Hve alvarlegt brotið er fer eftir aðstæðum, svo sem hvort það leiðir til truflunar á starfsemi vinnuveitandans. Það telst þó varla veruleg vanefnd að koma 1-2 sinnum fimm mínútum of seint og því ekki tilefni skriflegrar áminningar. Hins vegar er eðlilegt að yfirmaður leiti skýringa og leggi áherslu á stundvísi.
Ítrekuð óstundvísi er tilefni áminningar og einnig ef starfsmaður mætir mjög seint til vinnu án þess að tilkynna lögmæt forföll. Hafi starfsmaður fengið áminningu vegna brota á vinnuskyldu getur riftun fyrst komið til eftir ítrekuð smábrot eða eitt eða fleiri stærri brot. Algengt er í framkvæmd að fyrst sé gefin munnleg áminning vegna óstundvísi og skrifleg lokaáminning ef ekki verður bót á.
Það telst hins vegar almennt ekki brot í starfi ef starfsmaður hefur ekki getu til að sinna starfi sínu. t.d. ef hann skorti þekkingu eða reynslu til að leysa verkefni.
2. Brot á hlýðniskyldu, s.s. neitun að vinna verk sem starfsmanni er falið
Stjórnunarrétturinn er í höndum vinnuveitanda og annarra stjórnenda í umboði hans. Í stjórnunarréttinum felst réttur vinnuveitanda til að ákveða hvernig vinnan skuli unnin, hvað skuli vinna og hvenær innan hins umsamda vinnutíma, sbr. m.a. dóm Félagsdóms í máli nr. 14/1997 (Sinfóníuhljómsveit Íslands).
Brot á hlýðniskyldu er veruleg vanefnd á ráðningarsamningi. Brotið felst í því að starfsmaður sinnir ekki lögmætum fyrirskipunum yfirmanns síns. Riftun vegna þess háttar brota er ekki heimil nema að undangenginni áminningu.
Ef starfsmaður hefur verið áminntur vegna brots á hlýðniskyldu getur verið heimilt að rifta ráðningarsamningi ef önnur áskorun um að vinna verk skilar ekki árangri, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 54/1976 (1977, bls. 1328) (ræsting í flugstöðinni).
Réttur til að skipa starfsmönnum til nýrra starfa getur verið takmarkaður
Réttur vinnuveitanda til að skipa starfsmönnum til nýrra starfa er þó ekki án takmarkana. Til dæmis verður að fara varlega við tilfærslu milli ólíkra starfsviða eða starfsstöðva nema breytingin sé í samræmi við starf / starfssvið skv. ráðningarsamningi.
Breytingar á starfsumhverfi og starfsskilyrðum mega ekki vera svo verulegar að með þeim hafi vinnuveitandinn farið út fyrir stjórnunarheimildir sínar. Er þá m.a. horft til þess hvort breytingin hafi verið starfsmönnum samboðin í ljósi starfsreynslu þeirra eða menntunar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 117/2006 (Þorbjörn Fiskanes).
3. Brot á trúnaðarskyldu
Brot á trúnaðarskyldu er alvarlegt brot á ráðningarsamningi og getur varðað riftun án áminningar. Það ræðst þó af alvarleika brotsins.
Sú skylda hvílir á starfsmanni að vinna ekki gegn hagsmunum fyrirtækisins. Honum ber jafnframt að gæta þagmælsku um trúnaðarmál og viðskiptaleyndarmál fyrirtækisins og er óheimilt að undirbúa eða hefja samkeppni á sama tíma og hann er á launaskrá eða bundinn samkeppnisfyrirvara samkvæmt ráðningarsamningi eða lögum.
Sömu trúnaðarskyldur á uppsagnarfresti
Starfsmaður ber því sömu trúnaðarskyldur meðan á uppsagnarfresti stendur. Sú trúnaðarskylda felur þó ekki í sér bann við að starfsmaður leiti sér að starfi, jafnvel hjá samkeppnisaðila félagsins sem hann vinnur hjá, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 334/2007 (A. Karlsson) og 122/2008 (Malarás).
Öðru máli gegnir hafi verið samið sérstaklega um að viðkomandi starfsmaður ráði sig ekki til fyrirtækis í samkeppni við félagið að liðnum uppsagnarfresti, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 334/2007 (A. Karlsson). Sjá umfjöllun um samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum.
Mat vinnuveitanda ræður ekki úrslitum
Mat vinnuveitanda á alvarleika trúnaðarbrots ræður ekki úrslitum. Þótt vinnuveitandi telji forsendur brostnar fyrir áframhaldandi samstarfi vegna trúnaðarbrots þá kunna dómstólar að meta alvarleika brotsins þannig að ráðningarsamningi verði ekki rift nema að undangenginni áminningu, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 75/2016 (Papco), 582/2013 (Íslandshótel) og 240/2016 (Viðarsúla – meðferð trúnaðarupplýsinga).
Tómlæti og áminning
Ef vinnuveitanda hefur verið kunnugt um háttsemi sem hann hefur talið andstæða hagsmunum vinnuveitanda en látið þau átölulaus kann hann að glata rétti til riftunar án undangenginnar áminningar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 35/2000 (Baugur).
Alvarleg trúnaðarbrot réttlæta á hinn bóginn riftun án áminningar, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 374/2004 (Húsvörðurinn).
Það telst til alvarlegustu trúnaðarbrota að undirbúa eða hefja rekstur í samkeppni við vinnuveitanda, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 500 og 501/1998 (Bolur).
4. Refsiverð brot
Alvarleg refsiverð brot réttlæta yfirleitt riftun án áminningar, s.s. þjófnaður frá vinnuveitanda, fjárdráttur/skjalafals, ofbeldi á vinnustað o.fl. Minniháttar brot réttlæta þó ekki riftun án undangenginnar áminningar, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í málum nr. 75/2016 (Papco) og 583/2013 (Íslandshótel).
Verður almennt að tengjast starfinu
Brotin verða almennt að tengjast starfinu. Refsivert brot verður fyrirtækið að sanna hafi það ekki verið viðurkennt. Slík brot samkvæmt hegningarlögum eða öðrum lögum eru oft kærð til lögreglu og sæta sakamálarannsókn.
Grunur um refsiverðan verknað ekki nóg
Fara verður gætilega sé einungis um grun að ræða. Rangar og órökstuddar sakargiftir eru refsiverðar og geta varðað vinnuveitanda skaðabótaskyldu. Sjá nánar bætur vegna riftunar, miskabætur.
Þarf að vanda vel til verka
Mál sem þessi krefjast oft sérstakrar meðferðar. Ef starfsmaður er staðinn að verki við afbrot, t.d. þjófnað, er líka hægt að beita öðrum aðferðum en að grípa til formlegrar riftunar. Mikilvægt er að tryggja sönnun með því að kalla strax til lögreglu, sem tekur skýrslu af starfsmanni og vitnum, eða ganga frá skriflegum samningi um starfslok.
Starfsmanni gefinn kostur á að segja upp
Sé starfsmanni gefinn kostur á að segja upp sjálfur verður hann að afhenda uppsagnarbréf þar sem fram kæmi að hann óski þess að hætta þegar störfum. Í því tilviki að aðrir eru ekki til frásagnar en viðkomandi starfsmaður og vinnuveitandinn er mikilvægt að gera ráðstafanir strax og ganga formlega frá starfslokum. Að öðrum kosti getur komið til þess að starfsmaður neiti síðar að hafa gerst sekur um brot og krefjist launa á uppsagnarfresti. Það er því í öllum tilvikum mikilvægt fyrir vinnuveitandann að tryggja sér sönnun.
Samkomulag um starfslok
Þegar gengið er frá samkomulagi um starfslok vegna brota í starfi er mikilvægt að starfsmaður skilji þýðingu þess að falla frá launum á uppsagnarfresti. Ef brot telst minniháttar og hefði að öllu jöfnu ekki verið grundvöllur riftunar án undangenginnar áminningar kann samningur um starfslok að sæta endurskoðun dómstóla, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 582/2013 (Íslandshótel). Afdráttarlaus og skýr samningur um starfslok, sem ekki er gerður undir ólögmætum þvingunum, er bindandi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 188/1999 (Hallargarðurinn).