Starfsmönnum sem sagt er upp störfum á grundvelli úrræðisins njóta forgangsréttar til sambærilegra starfa. Forgangsrétturinn gildir í 12 mánuði frá uppsagnardegi en í síðasta lagi til 30. júní 2021.
Hyggist atvinnurekandi sem nýtt hefur sér úrræðið endurráða að nýju í sama eða sambærilegt starf innan framangreinds tímaramma ber honum að upplýsa þá launamenn, sem hann fékk greiddan stuðning vegna, um áform sín og gera þeim starfstilboð. Það er undir atvinnurekanda komið hvort hann endurráði hluta þeirra eða þá alla.
Mælt er með því að tekin sé saman listi með tengiliðaupplýsingum yfir þá starfsmenn sem njóta forgangsréttar til þeirra starfa sem stendur til að ráða í. Til að forðast ágreining er mælt með því að starfstilboð séu send skriflega á starfsmenn og þeim gefnir að lágmarki 10 virkir dagar til að svara tilboðinu.
Sambærilegt starf
Forgangsrétturinn nær til sömu eða sambærilegra starfa. Þeir launamenn einir sem sagt var upp á grundvelli úrræðisins og gegndu sambærilegu starfi og til stendur að ráða í njóta forgangsréttar.
Við mat á því hvort starf teljist sambærilegt ber m.a. að líta til eðli starfsins ásamt þeirri ábyrgð og því álagi sem fylgir starfinu.
Dæmi 1: fyrirtæki segir upp matreiðslumanni ásamt ófaglærðum aðstoðarmanni hans á grundvelli úrræðisins og ákveður að endurráða matreiðslumann. Matreiðslumaðurinn nýtur þá einn forgangsréttar til starfsins.
Dæmi 2: fyrirtæki rekur hótel og veitingastað. Ákveðið er að segja upp öll starfsfólkinu, þ. á m. starfsfólki sem sinnir annars vegar ræstingu á veitingastað og hins vegar á hóteli. Fyrirtækið ákveður að endurráða starfsfólk í ræstingu á hótelið. Bæði starfsmenn sem höfðu sinnt ræstingu á hótelinu og á veitingastaðnum njóta forgangsréttar til hins nýja starfs.
Fleiri en ein starfsstöð
Hjá fyrirtækjum sem eru með mismunandi starfsstöðvar, t.d. hótel og veitingahús, geta komið upp álitamál hvernig túlka eigi forgangsréttinn. Rétt er að túlka forgangsréttinn þannig að þeir starfsmenn sem ráðnir eru á fleiri en eina starfsstöð njóti forgangsréttar við endurráðningu til sambærilegra starfa á öllum þeim starfsstöðvum sem þeir eru ráðnir til.
Starfsmaður skal halda fyrri kjörum
Starfsmaður sem ráðinn er innan sex mánaða frá uppsagnardegi á að halda þeim kjörum sem hann hafði þegar til uppsagnar kom í samræmi við ráðningarsamning. Með kjörum er átt við allar greiðslur sem launþegi fær fyrir starf, þ.m.t. hvers konar bónusar, álags- og aukagreiðslur.
Ekkert er því til fyrirstöðu að starfsmaður sé ráðinn í annað starfshlutfall eða annað vinnufyrirkomulag sem kann að leiða til þess að kjör verði önnur, t.d. vegna þess að starfsmaður er ráðinn í dagvinnu og fær því ekki vaktaálag.
Tímabundin ráðning
Heimilt er að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt í allt að tvö ár. Nýr ráðningarsamningur telst taka við af öðrum samningi sé hann framlengdur eða ef nýr tímabundinn ráðningarsamningur kemst á milli sömu aðila innan sex vikna frá lokum gildistíma eldri samnings. Heimilt er að endurráða starfsmann sem var með ótímabundin ráðningarsamning tímabundið í allt að tvö ár.
Sjá nánar lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna.
Áunnin réttindi
Komi til endurráðningar eiga við ákvæði kjarasamninga um áunnin réttindi. Með áunnum réttindum er átt við öll réttindi sem tengjast starfstíma hjá sama atvinnurekanda skv. kjarasamningi, m.a. vegna orlofs, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Áunnin réttindi starfsmanna skulu haldast við endurráðningu innan eins árs.