Stuðningur vegna launa á uppsagnarfresti

Alþingi samþykkti hinn 29. maí 2020 lög um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Gerð er sú krafa meðal annars að meðaltal mánaðartekna hafi frá 1. apríl 2020 lækkað um a.m.k. 75% samanborið við eitt af tímabilum sem tilgreind eru í lögunum. 

Stuðningurinn nemur að hámarki 85% af launakostnaði launamanns á uppsagnarfresti, miðað við ráðningarkjör hans 1. maí 2020, þó að hámarki 633.000 kr. á mánuði vegna launa, 85.455 kr. á mánuði vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda og að hámarki 1.014.000 kr. vegna orlofslauna fyrir fullt starf og hlutfallslega fyrir launamann í hlutastarfi.

Stuðningurinn nær til þeirra uppsagna sem hafa uppsagnardag frá og með 1. maí 2020 og til og með 1. október 2020. Hámarkstímabil stuðnings vegna hvers launamanns er þrír mánuðir en þó aldrei lengra en samnings- eða lögbundinn uppsagnarfrestur kveður á um. 

Unnt verður að sækja um stuðning á heimasíðu skattsins en vinna við tæknilega útfærslu stendur enn yfir. Umsóknarfrestur vegna launagreiðslna í maí 2020 verður 10 dagar frá því tímamarki að auglýst verður að unnt sé að taka við umsóknum. Stefnt er að því að afgreiða umsóknir vegna maímánaðar 2020 í síðasta lagi 20. júlí n.k. enda séu þær fullnægjandi, sbr. nánar hér

Síðast uppfært:

14.12.2020: Ráðningarstyrkur 
7.9.2020: Er hægt að nýta sér hlutabótaleiðina við endurnýjun ráðningarsamninga?

AF HVERJU ÞETTA SÉRSTAKA ÚRRÆÐI?

Kórónuveirufaldurinn og aðgerðir sem honum tengjast hafa leitt til umfangsmikils tekjutaps hjá mörgum fyrirtækjum. Markmið laganna er að afstýra efnahagslegu tjóni og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot með því að styðja hlutaðeigandi fyrirtæki en standa vörð um réttindi launafólks á sama tíma.  

Óhjákvæmilegt er að uppsagnir verði hluti af slíkri endurskipulagningu og kostnaður sem fylgir greiðslu uppsagnarfrests til launamanna gæti orðið svo mikill að hann mundi hafa í för með sér gjaldþrot fyrir ákveðin fyrirtæki. Lögin skapa raunhæfan kost við endurskipulagningu fjárhags fyrirtækja til að aðlaga starfsmannafjölda að breyttu starfsumhverfi.  

GILDA ALMENNAR REGLUR UM UPPSÖGN?

Já, um uppsögn í þessum tilvikum gilda almennar reglur en ítarlega umfjöllun um uppsagnir og starfslok má nálgast hér á vinnumarkaðsvefnum.  

HVERJIR GETA NÝTT SÉR ÚRRÆÐIÐ?

Til þess að atvinnurekendur geti óskað eftir stuðningi vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti þurfa þeir að uppfylla öll eftirfarandi skilyrði.

  1. Atvinnurekandi hefur sagt upp launmönnum sem ráðnir höfðu verið fyrir 1. maí 2020, vegna aðstæðna sem sköpuðust vegna kórónuveirufaraldursins.
  2. Meðaltal mánaðartekna atvinnurekanda frá 1. apríl 2020 til uppsagnardags hafi lækkað a.m.k. um 75% með hliðsjón af tekjum samanborið við eitt af eftirtöldu:
    • meðaltal mánaðartekna sama tímabil árið áður
    • meðaltal mánaðartekna júní, júlí og ágúst 2019
    • meðaltal mánaðartekna á tímabilinu frá 1. desember 2019 til 29. febrúar 2020 eða
    • meðaltal mánaðartekna á tímabilinu 1. apríl 2019 til 31. mars 2020
  3. Að atvinnurekandi hafi ekki eftir 15. mars ákvarðað úthlutun arðs, lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa, kaup eigin hluta, innt af hendi aðrar greiðslur til eiganda á grundvelli eignaraðildar hans, greitt óumsaminn kaupauka, greitt af víkjandi láni fyrir gjalddaga eða veitt eiganda eða aðila nákomnum eiganda lán eða annað fjárframlag sem ekki varðar öflun, tryggingu eða viðhald rekstrartekna. Jafnframt skuldbindur hann sig til að gera enga framangreinda ráðstöfun fyrr en fjárstuðningur hefur að fullu verið tekjufærður eða endurgreiddur.
  4. Að atvinnurekandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld, skatta og skattasektir sem komnar voru á eindaga 31. desember 2019 og álagðir skattar og gjöld byggjast ekki á áætlunum. Hann hefur staðið skil á skattframtali og fylgigögnum þess, þ.m.t. skýrslu um eignarhald á CFC-félagi, sbr. 10. gr. reglugerðar um skattlagningu vegna eignarhalds í lögaðilum á lágskattasvæðum, nr. 1102/2013, og öðrum skýrslum og skilagreinum, svo sem staðgreiðsluskilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum, til Skattsins síðastliðin þrjú ár áður en umsókn barst eða síðan hann hóf starfsemi ef það var síðar. Að auki skal hann, eftir því sem við á og á sama tímabili, hafa staðið skil á ársreikningum, sbr. lög um ársreikninga, nr. 3/2006, og upplýst um raunverulega eigendur, sbr. lög um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019.
  5. Að fyrirtæki atvinnurekanda hafi ekki verið tekið til slita eða bú til gjaldþrotaskipta.

Skattinum er heimilt að veita undanþágu frá takmörkun á úthlutun arðs, ef sérstök rök mæla með því að slík undanþága sé veitt. Undanþága frá úthlutun arðs er einungis veitt þegar hún er komin til vegna nýs hlutafjár sem nýtur forgangs til arðgreiðslna og ákvörðun um hækkun hlutafjár með áskrift nýrra hluta hafi verið tekin vegna fjárhagslegra örðugleika sem stafa beint eða óbeint af heimsfaraldri kórónuveiru og nýjum hlutum verið ákveðinn forgangur til arðs.

ÞARF FYRIRTÆKIÐ AÐ SEGJA UPP ÖLLUM EF ÉG NÝTI MÉR ÚRRÆÐIÐ?

Nei, engar hömlur eru á því hversu mörgum er sagt upp á grundvelli úrræðisins. Það er því undir stjórnendum hlutaðeigandi fyrirtækis komið en eðlilegt er að ekki sé fleiri starfsmönnum sagt upp á grundvelli úrræðisins en þurfa þykir byggt á þeim forsendum sem liggja fyrir þegar uppsagnir eru ákveðnar. Um uppsagnirnar gilda almennar reglur, meðal annars um sérstaka uppsagnarvernd.

HVER ER STUÐNINGURINN OG YFIR HVAÐA TÍMABIL NÆR HANN?

Stuðningurinn nemur að hámarki 85% af launakostnaði launamanns á uppsagnarfresti, miðað við ráðningarkjör hans 1. maí 2020 með eftirfarandi fyrirvörum:

  • Greiðslan er að hámarki 633.000 kr. á mánuði vegna launa og að hámarki 85.455 kr. á mánuði vegna lífeyrissjóðsiðgjaldshluta atvinnurekanda, fyrir fullt starf.
  • Greiðslan er að hámarki 1.014.000 kr. vegna orlofslauna.
  • Stuðningurinn nær til þeirra uppsagna sem hafa uppsagnardag frá og með 1. maí 2020 og til og með 1. október 2020. Fullur stuðningur er því veittur vegna uppsagna sem eiga sér stað í september 2020. 
  • Hámarkstímabil stuðnings vegna hvers launamanns er þrír mánuðir en þó aldrei lengra en samnings- eða lögbundinn uppsagnarfrestur kveður á um.

HVAR SÆKIR FYRIRTÆKIÐ UM STYRKINN?

Hægt er að sækja um styrk vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti, hér á heimasíðu skattsins.

HVERNIG LOSNAR FYRIRTÆKIÐ ÚR ÚRRÆÐINU?

Atvinnurekandi getur leyst sig undan skuldbindingum skv. úrræðinu með því að endurgreiða óuppleystan sjóð skv. 9. gr. laganna ásamt verðbótum og vöxtum. Sjá nánar í 10. gr. laganna.

HVER ER VINNUSKYLDA STARSFMANNA Á UPPSAGNARFRESTI?

Starfsmaður ber vinnuskyldu á uppsagnarfresti í samræmi við sitt starfshlutfall. Það er því undir atvinnurekanda komið eins og endranær hvort hann nýti það vinnuframlag. Almannahagsmunir standa til þess að fyrirtæki nýti vinnuframlag starfsmanna og auki þannig líkur á hraðari endurreisn og endurráðningu starfsmanna.

HVAÐA ÁHRIF HEFUR ÞAÐ EF STARFSFÓLK FER Í ORLOF Á UPPSAGNARFRESTI?

Uppsagnarfrestur starfsmanns sem fer í orlof á uppsagnarfresti framlengist sem nemur fjölda orlofsdaganna nema samkomulag sé um annað. Undantekning er þó gerð sé uppsagnarfrestur lengri en 3 mánuðir en þá er vinnuveitanda heimilt að láta orlofstöku falla inn í uppagnarfrestinn. Sjá nánar um orlof og uppsagnarfrest á vinnumarkaðsvefnum.

Það hefur ekki áhrif á stuðning ríkisins vegna launa í uppsagnarfresti þótt starfsmaður fari í orlof á uppsagnarfresti enda kemur það á sama stað niður.

ÞARF FYRIRTÆKIÐ AÐ HAFA EITTHVAÐ Í HUGA EF ÞAÐ VILL RÁÐA STARFSMENN?

Starfsmönnum sem sagt er upp störfum á grundvelli úrræðisins njóta forgangsréttar til sambærilegra starfa. Forgangsrétturinn gildir í 12 mánuði frá uppsagnardegi en í síðasta lagi til 30. júní 2021.

Hyggist atvinnurekandi sem nýtt hefur sér úrræðið endurráða að nýju í sama eða sambærilegt starf innan framangreinds tímaramma ber honum að upplýsa þá launamenn, sem hann fékk greiddan stuðning vegna, um áform sín og gera þeim starfstilboð. Það er undir atvinnurekanda komið hvort hann endurráði hluta þeirra eða þá alla. 

Mælt er með því að tekin sé saman listi með tengiliðaupplýsingum yfir þá starfsmenn sem njóta forgangsréttar til þeirra starfa sem stendur til að ráða í. Til að forðast ágreining er mælt með því að starfstilboð séu send skriflega á starfsmenn og þeim gefnir að lágmarki 10 virkir dagar til að svara tilboðinu. 

Sambærilegt starf
Forgangsrétturinn nær til sömu eða sambærilegra starfa. Þeir launamenn einir sem sagt var upp á grundvelli úrræðisins og gegndu sambærilegu starfi og til stendur að ráða í njóta forgangsréttar.

Við mat á því hvort starf teljist sambærilegt ber m.a. að líta til eðli starfsins ásamt þeirri ábyrgð og því álagi sem fylgir starfinu. 

Dæmi 1: fyrirtæki segir upp matreiðslumanni ásamt ófaglærðum aðstoðarmanni hans á grundvelli úrræðisins og ákveður að endurráða matreiðslumann. Matreiðslumaðurinn nýtur þá einn forgangsréttar til starfsins.

Dæmi 2: fyrirtæki rekur hótel og veitingastað. Ákveðið er að segja upp öll starfsfólkinu, þ. á m. starfsfólki sem sinnir annars vegar ræstingu á veitingastað og hins vegar á hóteli. Fyrirtækið ákveður að endurráða starfsfólk í ræstingu á hótelið. Bæði starfsmenn sem höfðu sinnt ræstingu á hótelinu og á veitingastaðnum njóta forgangsréttar til hins nýja starfs.  

Fleiri en ein starfsstöð
Hjá fyrirtækjum sem eru með mismunandi starfsstöðvar, t.d. hótel og veitingahús, geta komið upp álitamál hvernig túlka eigi forgangsréttinn. Rétt er að túlka forgangsréttinn þannig að þeir starfsmenn sem ráðnir eru á fleiri en eina starfsstöð njóti forgangsréttar við endurráðningu til sambærilegra starfa á öllum þeim starfsstöðvum sem þeir eru ráðnir til. 

Starfsmaður skal halda fyrri kjörum
Starfsmaður sem ráðinn er innan sex mánaða frá uppsagnardegi á að halda þeim kjörum sem hann hafði þegar til uppsagnar kom í samræmi við ráðningarsamning. Með kjörum er átt við allar greiðslur sem launþegi fær fyrir starf, þ.m.t. hvers konar bónusar, álags- og aukagreiðslur.

Ekkert er því til fyrirstöðu að starfsmaður sé ráðinn í annað starfshlutfall eða annað vinnufyrirkomulag sem kann að leiða til þess að kjör verði önnur, t.d. vegna þess að starfsmaður er ráðinn í dagvinnu og fær því ekki vaktaálag.

Tímabundin ráðning
Heimilt er að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt í allt að tvö ár. Nýr ráðningarsamningur telst taka við af öðrum samningi sé hann framlengdur eða ef nýr tímabundinn ráðningarsamningur kemst á milli sömu aðila innan sex vikna frá lokum gildistíma eldri samnings. Heimilt er að endurráða starfsmann sem var með ótímabundin ráðningarsamning tímabundið í allt að tvö ár. 

Sjá nánar lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna.

Áunnin réttindi
Komi til endurráðningar eiga við ákvæði kjarasamninga um áunnin réttindi. Með áunnum réttindum er átt við öll réttindi sem tengjast starfstíma hjá sama atvinnurekanda skv. kjarasamningi, m.a. vegna orlofs, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Áunnin réttindi starfsmanna skulu haldast við endurráðningu innan eins árs.

Er hægt að nýta sér hlutabótaleiðina við endurnýjun ráðningarsamninga?

Já, tekið er á þessu í nefndaráliti meirihluta velferðarnefndar sem lagði til breytingartillögu á frumvarpi til laganna sem var samþykkt. Þar segir nánar tiltekið:

"Í því samhengi telur meiri hlutinn því ekkert til fyrirstöðu að hlutabótaleiðin verði nýtt aftur fyrir sama einstakling sem hefur verið endurráðinn í fullt starf, að því gefnu að skilyrði fyrir nýtingu úrræðisins séu uppfyllt, þ.m.t. að um sé að ræða lækkað starfshlutfall. Hins vegar getur einstaklingur ekki nýtt sér hlutabótaleiðina ef hann er endurráðinn í 50% starfshlutfall enda er þá ekki um að ræða tímabundna lækkun á starfshlutfalli."

Ef óvissa er í rekstri fyrirtækisins t.d. vegna kórónaveirufaraldursins er ráðlagt að framlengja ráðningarsamninginn einungis tímabundið, t.d. í 1-2 mánuði en ráðningarsambandinu lýkur þá á þeim tímapunkti án sérstakrar uppsagnar nema samkomulag sé um annað.

Að sama skapi er unnt að semja við starfsmann um lækkun starfshlutfalls en starfsmaður kann þá að eiga rétt á hlutfallslegum atvinnuleysisbótum samhliða lækkuðu starfshlutfalli skv. 1. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006.

Sjá nánar um ráðningar fyrirtækja sem hafa nýtt sér stuðning við greiðslu launa á uppsagnarfresti hér

HVAÐ GERIST EF STARFSMAÐUR FÆR ANNAÐ STARF Á UPPSAGNARTÍMANUM?

Réttur atvinnurekanda til stuðnings greiðslna á uppsagnarfresti fellur niður komi til þess að launamaður taki við öðru launuðu starfi eða hefji sjálfstæðan rekstur, hafi atvinnurekandi fellt niður launagreiðslur áður en uppsagnarfresti lýkur vegna þessa.

Í kjarasamningum eru ákvæði um gagnkvæman uppsagnarfrest. Aðilar geta með samkomulagi ákveðið að starfslok eigi sér stað við fyrri tímapunkt vegna þess að starfsmaður taki við öðru launauðu starfi eða hefji  sjálfstæðan rekstur. Greiðsluskylda fyrirtækisins og stuðningur ríkisins fellur niður frá þeim tímapunkti. 

Ef vinnuframlag starfsmanns er afþakkað á uppsagnarfresti, að hluta eða öllu leyti breytir það ekki skyldum atvinnurekanda gagnvart starfsmanni. Atvinnurekanda er þá aftur á móti heimilt að draga þau laun sem starfsmaður hefur annars staðar frá á uppsagnarfresti, sbr. nánar á vinnumarkaðsvefnum um Vinnuframlag afþakkað - launafrádráttur. Stuðningur ríkisins nær þá einungis til þeirra greiðslna sem lenda á atvinnurekanda. 

Hlaupist starfsmaður aftur á móti úr starfi án þess að virða samningsbundinn uppsagnarfrest hefur hann gerst sekur um brotthlaup úr starfi. Hann getur þá verið bótaskyldur gagnvart vinnuveitanda sínum, sbr. nánar á vinnumarkaðsvefnum. Eðli máls samkvæmt fellur niður réttur til stuðnings launa á uppsagnarfresti niður frá því tímamarki sem brotthlaup á sér stað.

Ráðningarstyrkur

Ráðningarstyrkur er fólginn í því að atvinnurekandi getur fengið grunnatvinnuleysisbætur auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð í allt að 6 mánuði greiddar með nýjum starfskrafti eða rúmlega 342 þúsund krónur í styrk á mánuði.

Um skilyrði ráðningarstyrks er fjallað í 11. gr. reglugerðar um greiðslu styrkja úr atvinnuleysistryggingasjóði o.fl. Til þess að geta sótt um ráðningarstyrk þarf atvinnurekandi m.a. að vera í skilum með launatengd gjöld og opinber gjöld, hafa a.m.k. einn starfsmann á launaskrá og ráðningin þarf að fela í sér aukningu á starfsmannafjölda.

Ferlið virkar þannig að fyllt er út umsókn og umbeðnum gögnum skilað til Vinnumálastofnunar. Þegar umsókn er samþykkt er skráð inn starf á vef Vinnumálastofnunar og gengið frá þríhliða samningi milli fyrirtækis, starfsmanns úr hópi umsækjenda og atvinnuráðgjafa Vinnumálastofnunar. Þeir sem hafa verið á atvinnuleysiskrá í minnst einn mánuð geta sótt um starfið.

Reglur um forgangsrétt við ráðningu í sambærileg störf á grundvelli laga um stuðning launa á uppsagnarfresti og fjallað er um hér að ofan gilda jafnframt þegar starfsmaður er ráðinn á grundvelli ráðnignarstyrks. 

Sjá nánar um ráðningarstyrk hér á vefsíðu Vinnumálastofnunar.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.