Meginreglan er að stjórnunarrétturinn er hjá vinnuveitandanum. Hann ber ábyrgð á rekstri fyrirtækisins og á því frjálst val um það hvort hann ræður til sín starfsmenn og þá hverja hann ræður. Þessi regla sætir þó undantekningum.
Jafn réttur kynjanna
Samkvæmt jafnréttislögum nr. 150/2020 ber vinnuveitendum að gæta þess að gera ekki upp á milli umsækjenda á grundvelli kynferðis en öll slík mismunun, hvort sem hún er bein eða óbein er óheimil.
Í 19. gr. er ákvæði um að óheimilt sé að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis og 12. gr. laganna kveður á um að laust starf skuli standa opið jafnt konum, körlum sem og fólki með hlutlausa skráningu kyns.
8. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði kveður á um að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar.
Vinnuveitendur skulu skv. 4 gr. jafnréttislaga vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.
Sérstakar aðgerðir til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna eru heimilar skv. 2. mgr. 16. gr. jafnréttislaga. Sama á við ef gild rök mæla með því að ráða til starfa einstakling af ákveðnu kyni vegna hlutlægra þátta er tengjast starfinu.
Þá skulu allir njóta jafns réttar í hvívetna skv. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Allir skulu vera jafnir fyrir lögunum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætterni og stöðu að öðru leyti.
Forgangur umsækjenda af því kyni sem er í minnihluta í starfsgrein
Hæstiréttur hefur skýrt jafnréttislögin þannig að við núverandi aðstæður skuli veita konu starf, ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin, að því er varðar menntun og annað, sem máli skiptir, og karlmaður, sem við hana keppir, ef á starfssviðinu eru fáar konur, sbr. dóma Hæstaréttar 1990, bls. 2230 (339/1990), 1996, bls. 3760 (431/1995) og 1998, bls. 3599 (3599).
Aldursskilyrði
Engin ákvæði eru í lögum um aldurshámark á almennum vinnumarkaði og engin ákvæði um sjálfkrafa starfslok þegar tilteknum aldri er náð. Á hinn bóginn gilda reglur um tiltekna starfshópa um hámarksaldur, s.s. flugmenn og flugumferðarstjóra.
Vinnuveitendur þurfa að gæta reglna um lágmarksaldur við störf. Þær er að finna í X. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð nr. 426/1999 um vinnu barna og unglinga. Börn og unglingar teljast þeir sem eru undir 18 ára aldri.
Meginreglan er að ekki má ráða börn yngri en 15 ára til vinnu. Börn á aldrinum 13 – 14 ára má þó ráða til léttra starfa, sbr. viðauka IV með framangreindri reglugerð.
Ekki má láta börn og unglinga vinna við hættulegar vélar og hættulegar aðstæður.
Þá eru einnig reglur um hámarksvinnutíma barna og unglinga.
Samkvæmt sjómannalögum má ekki hafa yngri en 15 ára við vinnu á skipi.
Kröfur um tiltekna menntun eða réttindi
Í lögum og reglugerðum er iðulega kveðið á um að tiltekin störf verði einungis unnin af þeim sem hafa tilskilda menntun og/eða réttindi.
Samkvæmt iðnlöggjöfinni, sbr. 8. gr. laga nr. 42/1978, eiga einungis meistarar, sveinar og iðnnemar rétt til iðnaðarstarfa. Erlendir iðnaðarmenn, sem fengið hafa staðfestingu á iðnréttindum sínum, eiga þó einnig rétt til starfa í iðngrein sinni.
Erlendir starfsmenn
Meginreglan er að bannað er að ráða útlendinga til starfa á Íslandi án þess að þeir hafi atvinnuleyfi, sbr. lög 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga.
Undantekning er um ríkisborgara aðildarríkja EES, þ.e. ESB ríkja, Noregs og Lichtenstein, ásamt ríkisborgurum Færeyja og Sviss. Þeim er frjálst að ráða sig hér til vinnu og þurfa ekki atvinnuleyfi.
Bann við mismunun á grundvelli þjóðernis
Það er ein af grundvallarreglum EES-samningsins að hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samningsins. Af því leiðir að óheimilt er að ráða frekar Íslendinga en t.d. Þjóðverja nema sú afstaða byggi á öðrum hlutlægum ástæðum en þjóðerni.