Sérstakir frídagar („rauðir dagar“)

Starfsfólk, sem ekki vinnur vaktavinnu á almennt rétt á því að taka frí á sérstökum frídögum. Það er hins vegar mismunandi hvort starfsmenn eiga rétt á að fá greitt fyrir sérstaka frídaga sem falla á virkum degi. Vinna á sérstökum frídögum greiðist með ákveðnum hætti en ólíkar reglur gilda í tilviki vaktavinnu. 

FRÍDAGAR SAMKVÆMT LÖGUM OG KJARASAMNINGUM

Almennir frídagar eru:
Skírdagur
Annar í páskum
Sumardagurinn fyrsti
1. maí
Uppstigningardagur
Annar í hvítasunnu
Fyrsti mánudagur í ágúst (frídagur verslunarmanna)
Annar í jólum

Stórhátíðardagar eru:
Nýársdagur
Föstudagurinn langi
Páskadagur
Hvítasunnudagur
17. júní
Aðfangadagur jóla eftir kl. 12:00
Jóladagur
Gamlársdagur eftir kl. 12:00

Sérákvæði í kjarasamningi verslunarmanna: Frídagur verslunarmanna er stórhátíðardagur.

RÉTTUR TIL FRÍTÖKU

Starfsfólk, sem ekki vinnur vaktavinnu, á almennt rétt til frítöku á ofangreindum dögum, nema um annað sé samið milli einstakra starfsmanna og vinnuveitanda. Eðlilegt er að gera starfsmanni grein fyrir því við ráðningu hvort honum sé gert að vinna á helgidögum.

RÉTTUR TIL LAUNA FYRIR ÓUNNA FRÍDAGA

Mismunandi er, eftir kjarasamningum, hvenær starfsmenn öðlast rétt til að fá greidda þá sérstöku frídaga sem falla inn í vinnuvikuna, mánudag til föstudags.

Mánaðarkaupsfólk
Hjá mánaðarkaupsfólki stofnast rétturinn til greiðslu sérstakra frídaga strax á fyrsta starfsdegi. Sjá þó umfjöllun hér neðar um verkamenn og tímabundna vinnu fyrir og eftir sérstaka frídaga.

Starfsfólk í hlutastarfi        
Starfsfólk í hlutastarfi á rétt á að halda hlutfalli dagvinnulauna sinna, ef frídag ber upp á dag sem það ella hefði unnið.

Verkamenn
Verkamenn öðlast rétt til greiðslu sérstakra frídaga þegar þeir hafa unnið hjá sama vinnuveitanda eða í sömu starfsgrein samfellt í einn mánuð eða lengur, sbr. gr. 1.10. í kjarasamningum SA við SGS/Eflingu.

Tímabundin vinna   
Lausráðið starfsfólk sem kallað er tilfallandi til vinnu fær greitt fyrir unninn tíma, dagvinnukaup á dagvinnutímabili og yfirvinnukaup á yfirvinnutímabili (utan dagvinnutímabils og á frídögum) og stórhátíðakaup á stórhátíðardegi. Þessir starfsmenn öðlast ekki rétt til greiðslu á óunnum frídögum í miðri viku.

Hvað er greitt fyrir óunna frídaga?          
Yfirvinna greiðist ekki á óunnum frídögum. Vaktaálög greiðast ekki heldur hafi vaktir fallið niður. Réttur til „staðgengilslauna” er ekki fyrir hendi.

Í ýmsum kjarasamningum eru ákvæði um greiðslu launa á helgidögum.

Dæmi: Kjarasamningur Samiðnar, gr. 1.5

Laun fyrir óunna sérstaka frídaga sem falla á mánudaga til föstudaga eru greidd í 8 stundir á þeim taxta sem starfsmaður fær í dagvinnu aðra daga, auk yfirborgunar, ef hún er fyrir hendi, þó að frádregnu fatagjaldi og verkfæragjaldi.

VINNA Á FRÍDÖGUM

Á sérstökum frídögum greiðist yfirvinnukaup fyrir hvern unninn tíma og á stórhátíðardögum greiðist stórhátíðarkaup.

Auk þess heldur starfsmaður dagvinnulaunum sínum ef frídagur lendir á mánudaga til föstudaga.

SAMSPIL ORLOFS OG GREIÐSLUSKYLDU VEGNA SÉRSTAKRA FRÍDAGA

Sé starfsmaður í orlofi á sérstökum frídegi tapar hann ekki rétti til greiðslu frídagsins. Orlofstaka fer aðeins fram á virkum dögum, en í orlofslögum segir að lágmarksorlof sé 24 vinnudagar. Lög og samningsbundnir frídagar teljast því ekki orlofsdagar. Sérstakir frídagar verða þá greiðsluskyldir þó svo að starfsmaður sé í orlofi.

Fái starfsmaður orlofslaun sín greidd inn á orlofsreikning skv. samkomulagi vinnuveitanda, stéttarfélags og banka gildir það sama, þó svo hann fái ekki greidd laun beint frá fyrirtækinu á orlofstímanum. Þetta miðast við að starfsmaðurinn sé í orlofi þann fjölda daga sem hann á rétt á skv. lögum eða kjarasamningi.

VINNA VAKTAVINNUFÓLKS Á FRÍDÖGUM

Starfsmenn í reglubundinni vaktavinnu fá vaktaálag vegna vinnu á frídögum. Á almennum frídögum er greitt 45% álag en á stórhátíðardögum 90% álag. Auk þess er kveðið á um rétt vaktavinnustarfsmanna til vetrarfrís í mörgum kjarasamningum, sjá nánar vetrarfrí vaktavinnumanna.

Vaktavinnufólk sem ekki á rétt á vetrarfrídögum fær hins vegar greidda yfirvinnu/stórhátíðarkaup fyrir hvern unninn tíma á „rauðum dögum“ auk dagvinnulauna.

TÍMABUNDIN VINNA FYRIR OG EFTIR SÉRSTAKA FRÍDAGA

Algengt er að fyrirtæki fjölgi starfsmönnum vegna mikilla anna, t.d. kringum páska og jól.

Sé starfsfólk ráðið til vinnu tiltekna vinnudaga stofnast ekki réttur til greiðslu launa þá sérstöku frídaga sem fyrirtækið er lokað.

Nauðsynlegt er að ganga frá því skriflega hvernig ráðningunni sé háttað þannig að starfsmaður fái greitt fyrir unninn tíma tiltekna daga en ekki ákveðið tímabil sem nær yfir jól og áramót. Annars getur komið til þess að starfsmaðurinn geri kröfu um greiðslu launa þá rauðu daga í miðri viku sem lokað er.

Sérákvæði í kjarasamningi Samiðnar, gr. 1.9

Sé skólafólk ráðið í jóla- og páskafríum skal það fá gildandi tímakaup að viðbættum 4% vegna aukahelgidaga. Aukagreiðsla þessi kemur þá í stað launa á frídögum og er ráðlegt að tiltaka hana sérstaklega á launaseðli.

LAUNALAUST LEYFI

Stutt launalaust leyfi t.d. nokkrir dagar fyrir jól eða páska hefur almennt ekki þau áhrif að starfsmaður tapi rétti til launaðra frídaga.

Falli starfsmaður hins vegar út af launaskrá í lengri tíma fellur einnig niður réttur hans til að fá greidda sérstaka frídaga. Þetta getur til dæmis átt við um lengri leyfi, svo sem fæðingar- og foreldraorlof starfsmanna.

ÓHEIMILAR FJARVISTIR FYRIR OG EFTIR SÉRSTAKA FRÍDAGA

Skrópi starfsmenn í vinnu dagana fyrir og eftir sérstakan frídag hefur verið litið svo á að þeir glati rétti til greiðslu frídagsins. Skróp telst þá vera vanræksla á tilkynningu um lögmæt forföll eða að starfsmaður hafi ekki beðið um launalaust frí eða verið neitað um það.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.