Jafnlaunavottun/staðfesting

Með lögum um jafnlaunavottun, nr. 56/2017, var í fyrsta skipti í íslenskum rétti kveðið á um jafnlaunavottun. Með lögunum var lögfest skylda fyrirtækja þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli til að öðlast jafnlaunavottun. Með lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (jafnréttislög) er fyrirtækjum þar sem starfa 25-49 heimilt að sækja um jafnlaunastaðfestingu, í stað jafnlaunavottunar áður.  

Jafnlaunavottun 
Fyrirtæki þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli skal öðlast jafnlaunavottun að undangenginni úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85:2012, sbr. 1. gr. c staðalsins.

Þegar jafnlaunavottun liggur fyrir skal vottunaraðili skila Jafnréttisstofu afriti af jafnlaunavottunarskírteini ásamt skýrslu um niðurstöðu úttektar.

Jafnlaunavottunina skal endurnýja á þriggja ára fresti. Vottunaraðili skal jafnframt tilkynna Jafnréttisstofu um það ef úttekt leiðir ekki til jafnlaunavottunar og greina frá ástæðum þess með framlagningu skýrslu um niðurstöðu úttektar.

Með fyrirtæki í þessum skilningi er átt við þá starfsemi sem fellur undir kennitölu viðkomandi fyrirtækis. Ekki þarf því að jafnlaunavotta samstæður félaga. 

Jafnlaunastaðfesting 
Fyrirtæki þar sem 25–49 starfa að jafnaði á ársgrundvelli hafa val um að gangast undir jafnlaunastaðfestingu í stað jafnlaunavottunar. Jafnréttisstofa veitir jafnlaunastaðfestingu að undangengnum skilum á gögnum um að jafnlaunakerfi fyrirtækis og framkvæmd þess uppfylli, að mati Jafnréttisstofu, þær kröfur sem settar eru fram í jafnréttislögum.   

Jafnlaunastaðfestingu skal endurnýja á þriggja ára fresti.

Eftirlit
Jafnréttisstofa annast eftirlit með því að fyrirtæki þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli öðlist jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu þar sem það á við, og endurnýjun þar á. Heimilt er að beita þeim fyrirtækjum dagsektum sem verða ekki við fyrirmælum Jafnréttisstofu um úrbætur innan hæfilegs frests.

HLUTVERK VOTTUNARAÐILA

HVENÆR ÞARF FYRIRTÆKI AÐ VERA ORÐIÐ JAFNLAUNAVOTTAÐ?

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.