Smitvarnir á vinnustöðum - COVID19

Frá og með 13. nóvember til og með 8. desember 2021 mega eigi fleiri en 50 vera í sama rými . Samkvæmt Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni miðast fjöldatakmarkanirnar í verslunum og þjónustu við fjölda viðskiptavina. Starfsmenn verslana, veitingahúsa, afþreyingarfyrirtækja og í annarri þjónustustarfsemi teljast því ekki með inn í heildarfjölda í hverju rými. 

Leyfilegur er meiri fjöldi í tilviki verslana og safna sem eru yfir ákveðnum stærðarmörkum og á sitjandi viðburðum, sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra verður sama framkvæmd og verið hefur varðandi túlkun á rými.

Sjá hér að neðan svör við algengum spurningum um smitvarnir á vinnustöðum. 

Sjá einnig hér á covid.is um gildandi takmarkanir.

HVERNIG ER RÝMI SKILGREINT?

Í leiðbeiningum embætti landlæknis fyrir atvinnulíf og vinnustaði vegna COVID-19 er rými skilgreint þannig að það þurfi að vera aðskilið með a.m.k. 2 metra háu skilrúmi eða 1 metra bili sem ekki má fara yfir. Auðvelt aðgengi að handþvottaaðstöðu og/eða handspritti þarf að vera til staðar í hverju rými. Hvert skilgreint rými þarf að hafa eigin inngang og útgang og enginn samgangur er heimilaður á milli rýma. Salerni þurfa að vera aðskilin fyrir hvert rými. Starfsfólk má ekki fara á milli rýma.

Sameiginlega snertifleti þarf að þrífa og sótthreinsa a.m.k. daglega eða oftar eftir aðstæðum. 

ER NAUÐSYNLEGT FYRIR FÓLK SEM STARFAR Í AÐSKILDUM RÝMUM AÐ NOTA SÉR SALERNI?

Já, salerni þurfa að vera aðskilin fyrir hvert rými, sbr. nánar hér í leiðbeiningum embættis landlæknis.

ER NAUÐSYNLEGT FYRIR FÓLK SEM STARFAR Í ÓLÍKUM RÝMUM AÐ NOTA SÉR INNGANG?

Hvert skilgreint rými þarf að hafa eigin inngang og útgang og enginn samgangur er heimilaður á milli rýma, sbr. leiðbeiningar embættis landlæknis

GETA STARFSMENN Í TVEIM AÐSKILDUM VINNURÝMUM SAMNÝTT KAFFIAÐSTÖÐU?

Samkvæmt upplýsingum sem fengist hafa frá sóttvarnarsviði Landlæknisembættisins gilda sömu leiðbeiningar um kaffiaðstöðu starfsmanna og um salerni, þ.e. sér kaffiaðstaða fyrir hvert rými. Einnig ætti að leggja áherslu á að þrífa eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti, huga að því að tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og minna starfsmenn á að þvo hendur með vatni og sápu og þurrka vel á eftir fyrir matreiðslu og fyrir og eftir máltíðar.
Nánari upplýsingar um leiðbeiningarnar má finna á vef Ferðamálastofu.

HVERSU OFT ÆTTU STARFSMENN AÐ ÞRÍFA HENDUR SÍNAR?

Ekki er til neitt ákveðið svar við þessu og ekki mögulegt að gefa tæmandi svar en eftirfarandi listi telur upp aðstæður þar sem einstaklingar ættu að þvo/hreinsa hendur sínar:

  • Þegar mætt er til vinnu
  • Áður en hafist er handa við matreiðslu og fyrir og eftir máltíðar
  • Eftir salernisferðir
  • Eftir beina snertingu við líkamsvessa
  • Eftir að snýta sér, hósta eða hnerra
  • Ef þeir hafa komið við algenga snertifleti á fjölförnum stöðum, s.s. handrið, afgreiðsluborð/skrifborð, snertiskjái og lyklaborð, hurðarhúna, rofa, fjarstýringar, lyftuhnappa osfrv. Þessi yfirborð ættu einnig að vera hreinsuð eins oft og kostur er.
  • Við lok vinnudags  

Að jafnaði ætti að nota vatn og sápu en ef það er ekki aðgengilegt er hægt að nota handspritt. Hafa ber þó í huga að handspritt er ekki nægjanlegt ef sýnileg óhreinindi eru á höndum. Til að draga frekar úr sýkingarhættu ætti einnig að hvetja starfsmenn til að:

  • Forðast náin samskipti við fólk með flensueinkenni, kvef eða hita
  • Gæta almenns hreinlætis og forðast að snerta augu, nef eða munn
  • Hnerra og hósta í krepptan olnboga eða í pappír
  • Forðast að koma við snertifleti á fjölförnum stöðum 

HVERSU OFT ÆTTI AÐ HREINSA VINNUAÐSTÖÐU OG SALERNI?

Skv 7. gr. reglugerðar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar er tekið fram að “Í öllum verslunum, opinberum byggingum og á öðrum stöðum innandyra þar sem umgangur fólks er nokkur skal þrífa eins oft og unnt er, sérstaklega algenga snertifleti. Auk þess skal minna almenning og starfsmenn á einstaklingsbundnar sóttvarnir, svo sem munnlega, með merkingum eða skiltum. Við alla innganga skal tryggja aðgang að sótthreinsandi vökva fyrir hendur og eins víða um rými og talin er þörf á, meðal annars við afgreiðslukassa og innkaupakerrur í verslunum.”

Út frá þessu væri eðlilegt að áætla að til viðbótar við hefðbundin þrif bættist við reglubundin hreinsun á algengum snertiflötum til að draga úr líkum á að veiran smitist yfir á hendur starfsmanna.

HVERNIG Á AÐ HAGA EFTIRLITI MEÐ ÞEIM STARFSMÖNNUM SEM KOMAST Í NÁVÍGI VIÐ EINSTAKLINGA SEM SMITAÐIR ERU AF COVID19?

Mikilvægt er að hefja sóttkví þegar grunur um mögulegt COVID-19 smit vaknar, þó niðurstaða rannsókna á hinum veika sé ekki ljós fyrr en næsta dag. Einstaklingar sem aðeins umgengust þann veika þennan sama dag geta klárað vinnudaginn en þeir sem hafa umgengist hann dagana á undan ættu að fara tafarlaust í sóttkví. Ef í ljós kemur að sá sem viðkomandi átti náin samskipti við, reynist ekki vera með COVID-19 sýkingu skal aðgerðum aflétt.

Nánari upplýsingar er að finna í leiðbeiningum embætti landlæknis.

Ráðgjöf um smitvarnir

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.