Tilkynna með a.m.k. sex vikna fyrirvara
Starfsmaður sem hyggst nýta sér rétt til foreldraorlofs skal tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi sex vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag orlofs.
Form og efni
Tilkynning um töku foreldraorlofs skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Vinnuveitandi skal árita tilkynninguna um móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum afrit hennar. Vinnuveitandinn þarf að gæta þess að halda eftir eintaki af tilkynningunni.
Háð samþykki vinnuveitanda
Taka foreldraorlofs er háð samþykki vinnuveitanda. Geti vinnuveitandi ekki fallist á óskir starfsmanns um tilhögun foreldraorlofs skal hann að höfðu samráði við starfsmann tilkynna um aðra tilhögun innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar. Tilkynning vinnuveitanda skal vera skrifleg og skal vinnuveitandi í tilkynningu tilgreina ástæður fyrir því að ekki sé unnt að verða við tilhögun foreldraorlofs eins og starfsmaður leggur til. Sé um frest að ræða skal vinnuveitandi tilgreina hve lengi fresturinn varir.
Vinnuveitanda er einungis heimilt að fresta tilhögun foreldraorlofs þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi í rekstri fyrirtækisins sem gera slíkt nauðsynlegt. Sérstakar ástæður eru t.d. þegar um er að ræða árstíðarbundin störf, ef ekki tekst að finna hæfan staðgengil, ef umtalsverður hluti starfsmanna sækir um foreldraorlof á sama tíma eða viðkomandi starfsmaður gegnir lykilhlutverki í æðstu stjórn fyrirtækis, sbr. 47. gr. fæðingarorlofslaga.
Vinnuveitandi getur þó aldrei frestað foreldraorlofi lengur en í sex mánuði frá þeim tíma sem foreldraorlof átti að hefjast samkvæmt óskum starfsmanns nema með samþykki hans.
Þegar foreldraorlof er í beinu framhaldi af fæðingarorlofi eða ef barn veikist svo að nærvera foreldris er nauðsynleg er vinnuveitanda óheimilt að fresta foreldraorlofi. Sama gildir ef vinnuveitandi hefur fallist á orlofstökuna eða þegar liðinn er viku frestur vinnuveitanda til þess að tilkynna um aðra tilhögun.
Í þeim tilvikum sem ákvörðun vinnuveitanda um að fresta foreldraorlofi leiðir til þess að starfsmaður nær ekki að ljúka foreldraorlofi áður en barn hans nær átta ára aldri framlengist sá tími sem heimilt er að taka foreldraorlof til þess dags er barn nær níu ára aldri.
Vinnuveitanda ber að skrá töku foreldraorlofsins þannig að starfsmaður geti fengið vottorð um fjölda tekinna foreldraorlofsdaga óski hann þess.