Foreldraorlof

Með foreldraorlofi er samkvæmt lögum nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof átt við  leyfi frá launuðum störfum til að annast barn sitt sem stofnast við:

(a) fæðingu,
(b) frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða,
(c) töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur

Hvort foreldri um sig á sjálfstæðan rétt til foreldraorlofs í fjóra mánuði til þess að annast barn sitt og er þessi réttur ekki framseljanlegur.

Ekki er skilyrði að foreldri sé með forsjá yfir barni eða hafi fengið samþykki forsjárforeldris á umgengni líkt og í tilviki fæðingarlofs. Taka foreldraorlofs forsjárlauss foreldris er því vel samrýmanleg þeim umgengnisrétti sem það á rétt á.

Meginmunurinn á fæðingarorlofi og foreldraorlofi er sá að foreldraorlofi fylgir ekki réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði. Í foreldraorlofi nýtur foreldri hvorki réttar til greiðslna frá vinnuveitanda, ríki eða sveitarfélagi. Foreldraorlof er því lögbundinn réttur til þess að taka ólaunað leyfi frá störfum. 

Foreldri sem uppfyllir skilyrði laga um fæðingar- og foreldraorlof á rétt á að vera í allt að sex eða eftir atvikum sjö og hálfan mánuð í launuðu leyfi frá störfum (fæðingarorlof) og í fjóra mánuði í ólaunuðu leyfi frá störfum (foreldraorlof). 

HVENÆR ER HEIMILT AÐ FARA Í FORELDRAORLOF?

Samfellt starf í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda
Starfsmaður öðlast rétt til foreldraorlofs eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda og skiptir þá ekki máli hvort starfsmaðurinn hefur verið ráðinn tímabundið eða ótímabundið.

Starfsmaður getur þó tilkynnt vinnuveitanda sínum um fyrirhugaða töku foreldraorlofs áður en hann hefur starfað hjá vinnuveitanda sínum samfellt í sex mánuði enda sé hann innan tilkynningarfrests.

Stofnast við fæðingu barns
Réttur til foreldraorlofs stofnast við fæðingu barns. Í tilviki ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur er á hinn bóginn miðað við þann tíma þegar barnið kemur inn á heimilið, enda staðfesti barnaverndarnefnd eða aðrir til þess bærir aðilar ráðstöfunina. Þegar sækja þarf barn til annarra landa getur foreldraorlof þó hafist við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að barn fáist ættleitt.

Fellur niður við átta ára aldur barns
Réttur til foreldraorlofs fellur niður er barn nær átta ára aldri. Undantekning er gerð í þeim tilvikum sem barn greinist síðar með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða fötlun en í þeim tilvikum geta foreldrar nýtt sér þann hluta foreldraorlofsins sem þeir nýttu sér ekki áður en orlofsrétturinn féll niður eftir átta ára aldur barnsins en áður en það verður fullra átján ára. 

TILHÖGUN FORELDRAORLOFS

Foreldri skal eiga rétt á að taka foreldraorlof í einu lagi.

Foreldri getur einnig með samkomulagi við vinnuveitanda tekið foreldraorlof með öðrum hætti, t.d. skipt því niður á fleiri tímabil eða samhliða minnkuðu starfshlutfalli. Ekki er gerð krafa um að foreldraorlof megi minnst vara samfellt í ákveðinn tíma eins og í tilviki fæðingarorlofs. Ekkert stendur því í vegi að starfsmaður taki dag og dag í foreldraorlofi veiti vinnuveitandi samþykki sitt fyrir því.

Fleira en eitt barn yngra en átta ára
Foreldri sem á fleira en eitt barn undir átta ára aldri getur ekki nema með sérstöku samþykki vinnuveitanda tekið lengra foreldraorlof en í 4 mánuði á hverju 12 mánaða tímabili. Foreldrið verður því að taka út foreldraorlofið yfir lengra tímabil en eitt ár vilji það nýta sér rétt sinn að fullu enda veiti vinnuveitandi ekki samþykki sitt fyrir því að foreldraorlofið sé tekið út í lengri tíma en 4 mánuði á hverju 12 mánaða tímabili. 

Dæmi:
Starfsmaður á þrjú börn 2, 3 og 5 ára og hefur ekki nýtt sér rétt sinn til töku foreldraorlofs. Starfsmaðurinn á rétt á 4 mánaða foreldraorlofi fyrir hvert barn um sig eða samtals 12 mánaða foreldraorlofsrétt. Hann tilkynnir vinnuveitanda sínum í lok október að hann hyggist fullnýta sér rétt sinn til foreldraorlofs á nýju ári. Vinnuveitanda er ekki skylt að verða við beiðni starfsmannsins en hann getur þó ekki staðið í vegi fyrir því að starfsmaðurinn fari í foreldraorlof í 4 mánuði á þessu tímabili. Vinnuveitandi getur ákveðið að veita samþykki sitt fyrir foreldraorlofi á 12 mánaða tímabili sem er innan þeirra tímamarka sem starfsmaður gerir kröfu um en umfram lágmarksbundna réttin, t.d. í 6 mánuði á 12 mánaða tímabili. 

TILKYNNING OG ÁKVÖRÐUN

Tilkynna með a.m.k. sex vikna fyrirvara
Starfsmaður sem hyggst nýta sér rétt til foreldraorlofs skal tilkynna það vinnuveitanda eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi sex vikum fyrir fyrirhugaðan upphafsdag orlofs.

Form og efni 
Tilkynning um töku foreldraorlofs skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun. Vinnuveitandi skal árita tilkynninguna um móttökudagsetningu og afhenda starfsmanninum afrit hennar. Vinnuveitandinn þarf að gæta þess að halda eftir eintaki af tilkynningunni. 

Háð samþykki vinnuveitanda
Taka foreldraorlofs er háð samþykki vinnuveitanda. Geti vinnuveitandi ekki fallist á óskir starfsmanns um tilhögun foreldraorlofs skal hann að höfðu samráði við starfsmann tilkynna um aðra tilhögun innan viku frá móttökudagsetningu tilkynningar. Tilkynning vinnuveitanda skal vera skrifleg og skal vinnuveitandi í tilkynningu tilgreina ástæður fyrir því að ekki sé unnt að verða við tilhögun foreldraorlofs eins og starfsmaður leggur til. Sé um frest að ræða skal vinnuveitandi tilgreina hve lengi fresturinn varir.

Vinnuveitanda er einungis heimilt að fresta tilhögun foreldraorlofs þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi í rekstri fyrirtækisins sem gera slíkt nauðsynlegt. Sérstakar ástæður eru t.d. þegar um er að ræða árstíðarbundin störf, ef ekki tekst að finna hæfan staðgengil, ef umtalsverður hluti starfsmanna sækir um foreldraorlof á sama tíma eða viðkomandi starfsmaður gegnir lykilhlutverki í æðstu stjórn fyrirtækis, sbr. 47. gr. fæðingarorlofslaga.

Vinnuveitandi getur þó aldrei frestað foreldraorlofi lengur en í sex mánuði frá þeim tíma sem foreldraorlof átti að hefjast samkvæmt óskum starfsmanns nema með samþykki hans. 

Þegar foreldraorlof er í beinu framhaldi af fæðingarorlofi eða ef barn veikist svo að nærvera foreldris er nauðsynleg er vinnuveitanda óheimilt að fresta foreldraorlofi. Sama gildir ef vinnuveitandi hefur fallist á orlofstökuna eða þegar liðinn er viku frestur vinnuveitanda til þess að tilkynna um aðra tilhögun.

Í þeim tilvikum sem ákvörðun vinnuveitanda um að fresta foreldraorlofi leiðir til þess að starfsmaður nær ekki að ljúka foreldraorlofi áður en barn hans nær átta ára aldri framlengist sá tími sem heimilt er að taka foreldraorlof til þess dags er barn nær níu ára aldri.

Vinnuveitanda ber að skrá töku foreldraorlofsins þannig að starfsmaður geti fengið vottorð um fjölda tekinna foreldraorlofsdaga óski hann þess. 

VERND UPPSAFNAÐRA RÉTTINDA

Starfsmaður heldur þeim réttindum sem hann hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs. Starfsmaður ávinnur sér á hinn bóginn ekki inn réttindi á meðan orlofinu stendur. Við lok orlofsins heldur starfsmaðurinn því sömu réttindum og hann naut þegar hann fór í orlofið ásamt þeim breytingum sem kunna að hafa orðið á grundvelli laga eða kjarasamninga, sbr. 48. gr. fæðingarorlofslaga.

UPPSAGNARVERND

Óheimilt er að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs, er í fæðingarorlofi, er barnshafandi eða hefur nýlega alið barn nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni, sbr. 50. gr. foreldraorlofslaga.

Sjá nánar Sérstök uppsagnarvernd, fæðingar- og foreldraorlof

 

 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.