Þungar byrðar

Um þungar byrðar gilda reglur nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar.

Skyldur vinnuveitanda

Þung byrði getur valdið hættu á heilsutjóni og slysum, sé ekki rétt með hana farið. Vinnuveitendur skulu því gera skipulagsráðstafanir eða nota viðeigandi hjálpartæki, einkum vélbúnað, til að komast hjá því að starfsmenn þurfi að handleika byrðar.

Þegar ekki er hægt að komast hjá því að starfsmenn handleiki byrðar skal vinnuveitandi skipuleggja vinnuaðstæður, nota viðeigandi búnað eða sjá starfsmönnum fyrir hjálpartækjum til að draga úr þeirri áhættu sem felst í þessu starfi þeirra.

Við skipulagningu vinnunar ber vinnuveitanda að taka mið af byrðinni sem handleikin er, líkamlegu átaki við framkvæmd vinnunar, aðstæðu við vinnu og hvort verkefnið sem slíkt geti falið í sér hættu á heilsutjóni.

Vinnuveitanda ber jafnframt að lýta til áhættuþátta er lúta að viðkomandi einstaklingi t.d. líkamlegur styrkur og þekking.

Sú skylda hvílir á vinnuveitanda að veita starfsmönnum sem handleika byrðir nauðsynlegar upplýsingar og þjálfun.

Ábyrgð vinnuveitanda

Vinnuveitendur geta orðið bótaskyldir búi þeir ekki starfsmönnum sínum heilsusamlegt og öruggt starfsumhverfi.

Dæmi úr réttarframkvæmd

Dómur Hæstaréttar 30. september 2004 (nr. 81/2004)

Starfsmaður slasaðist þegar hann var að aðstoða vinnufélaga sinn, sem var að saga stórar plastplötur í hjólsög á verkstæði vinnuveitandans. Starfsmaðurinn féll um rör, sem lá frá söginni þvert yfir gangveginn, er hann var að bera allþunga plötu frá söginni.

Dómstóllinn taldi að lega rörsins í gangveginum, sem þurfti að fara um verkstæðið, meðal annars með þungar byrðar, hafi verið til þess fallið að skapa slysahættu og hafi félaginu borið að fara eftir 6. gr. reglna nr. 499/1994 um öryggi og hollustu þegar byrðar eru handleiknar, sbr. 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Félagið var því talið bera skaðabótaábyrgð á slysinu.

Starfsmaðurinn var talinn bera tjón sitt að hálfu þar sem hann hafði áður unnið við þessar aðstæður og átti að þekkja þær og verkið var einfalt og með eðlilegri aðgæslu átti hann að geta komið í veg fyrir slysið.

Dómur Hæstaréttar 16. maí 2002 (nr. 438/2001)

Einstaklingur krafðist skaðabóta vegna bakmeiðsla sem hann taldi sig hafa orðið fyrir í störfum sínum við að handleika of þungar byrðar. Hann taldi sig vera látinn vera hálfbóginn við að handlanga fisk úr kössum á gólfi yfir í kassa sem stóð á vigt í starfi sínu og bera svo 40 kg. kassa af vigtinni til flakaranna.

Vinnuveitandinn var sýknaður þar sem ósannað þótti að hann bæri sök á líkamstjóni starfsmannsins vegna framangreinds vinnulags eða að starfsmaðurinn hafi verið látinn bera þyngri byrðar en heimilt hafi verið að ætla honum.

Dómur Hæstaréttar 15. júní 2006 (nr. 61/2006)

Deilt var um það hvort vinnuveitandi bæri bótaábyrgð á slysi er starfsmaður þess varð fyrir við framleiðslu kotasælu. Slysið átti sér stað þegar starfsmaðurinn var að koma 18,2 kg. hræriverki upp í lás á drifbúnaði yfir kotasælukari og hafði hallað sér fram og verið að teygja sig áfram með handleggina beint út frá líkamanum, þegar hann rann til í bleytu og fékk hnykk í bakið. Í málinu var gólfbleytan ekki metin vinnuveitandanum til sakar þar sem hún var talin vera óhjákvæmilegur fylgifiskur ostavinnslu. Á hinn bóginn taldi Hæstiréttur að vinnuveitandanum hefði borið að halda í lágmarki hættu á að starfsmenn rynnu til bleytunni. Þar var niðurstaða Hæstaréttar að umrætt vinnufyrirkomulag hefði ekki verið forsvaranlegt þrátt fyrir að vinnuveitandinn hefði lagt starfsmönnum til stígvél með stömum sóla. Vinnuveitandinn var því talin bera bótaábyrgð á slysinu. Við ákvörðun sína leit dómurinn til:

  • umfangs gólfbleytunnar,
  • þyngdar hræriverksins,
  • aðferða við vinnuna en starfsmaðurinn þurfti að beygja sig mikið í baki og síðan lyfta hræriverkinu með útrættum höndum.

Dómur Hæstaréttar 14. mars 2012 (593/2012)

Starfsmaður krafði vinnuveitanda sinn um skaðabætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í tveimur slysum í vinnu sinni.

Fyrra slysið átti sér stað þegar starfsmaðurinn var að halda á fullum kassa á mat milli vörubretta í afgreiðsludeild á vinnustað sínum er hún sneri sig illa á hné þegar hún festi fót sinn í einu brettanna. Dómstóllinn sýknaði félagið af bótakröfum vegna umrædds slyss með þeim röksemdum að:

  • slysið mætti ekki rekja til ófullnægjandi verkstjórnar eða eftirlits,
  • aðstæður voru voru ekki hættulegar á vinnustaðnum og brutu ekki í bága við lög eða fyrirmæli um heilbrigði eða öryggi á vinnustöðum,
  • starfsmaðurinn þekkti vel til aðstæðna og vissi af vörubreyttum, sem þar voru, og gat því með eðlilegri aðgát komið í veg fyrir slysið.

 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.