Orlofsuppbót 2021

Orlofsuppbót er kr. 52.000 á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2021. Orlofsuppbót er greidd þann 1. júní ár hvert. Ef starfsmaður hættir störfum fyrir lok orlofsárs er uppbótin greidd hlutfallslega m.v. upphæðina 1. maí á undan enda gildir sú fjárhæð út orlofsárið.

Orlofsuppbótin hækkar á samningstímabilinu og verður kr. 53.000 á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2022.

Réttur til fullrar orlofsuppbótar miðast við að starfsmaður hafi unnið 45 vikur eða meira á tímabilinu 1. maí - 30. apríl, fyrir utan orlof.

Hverjir eiga rétt á orlofsuppbót?

Réttur til orlofsuppbótar ræðst af því hvort starfsmaður sé í starfi (í ráðningarsambandi) í fyrstu viku maí á nýju orlofsári eða ekki. Ef ekki þá er gerð krafa um a.m.k. 12 vikna samfellt starf á liðnu orlofsári.

Starfsmenn sem eru í starfi fyrstu vikuna í maí
Starfsmenn sem eru í starfi hjá atvinnurekanda fyrstu vikuna í maí ár hvert eiga ávallt rétt á uppbót, hlutfallslegri m.v. starfstíma og/eða starfshlutfall á orlofsárinu.

Orlofsárið reiknast frá 1. maí ár hvert til 30. apríl næsta árs.

Þeir sem hafa verið í fullu starfi allt orlofsárið eiga rétt á fullri uppbót, en upphæð hennar er mismunandi eftir starfsstéttum.

Þeir sem hafa unnið hlutastarf eða aðeins hluta af orlofsárinu eiga rétt til orlofsuppbótar í samræmi við starfshlutfall eða starfstíma. 

Starfsmenn sem eru ekki í starfi í fyrstu viku maí (eru hættir).
Hafi starfsmaður unnið samfellt 12 vikna starf á orlofsárinu á hann rétt á að fá orlofsuppbót greidda við starfslok, en þá hlutfallslega miðað við starfstíma.

Útreikningur orlofsuppbótar

Full uppbót miðast við 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Orlofsárið er tímabilið frá 1. maí ár hvert til 30. apríl næsta ár. Orlofsdagar sem starfsmaður hefur tekið á síðasta orlofsári teljast því ekki hluti starfstíma við útreikning.

Dæmi 1:
Verkamaður / iðnaðarmaður hóf störf 1. sept. 2020 og er enn í starfi 30. apríl 2021. Hann tók ekkert orlof á þessu tímabili. Frá 1. sept. til 30. apríl eru 34,6 vikur. Hlutfall orlofsuppbótar er 76,9% (34,6/45). Uppbót hans er kr. 52.000 x 0,769 = kr. 39.998.

Dæmi 2: 
Verslunarmaður er í starfi þann 1. maí en hættir störfum þann 31. ágúst 2020. Hann tekur orlof í 3 vikur í júlí og er því við vinnu í samtals 14,6 vikur á orlofsárinu. Hann fær því 32,4% af fullri uppbót (14,6/45) eða kr. 52.000 x 0,324 = kr. 16.848. Uppgjör orlofsuppbótar fer þá fram við starfslok í ágúst.

Ath.: Tímabil orlofsuppbótarinnar reiknast ekki lengra aftur í tímann en til 1. maí síðasta árs, þar sem orlofsárið byrjar þá. 

Starfsfólk í hlutastarfi
Starfsfólk í hlutastarfi fær greitt hlutfallslega. Almennt er miðað við fast hlutfall dagvinnu eða vaktavinnu. Skv. kjarasamningi verslunar- og skrifstofufólks miðast starfshlutfall við fasta reglubundna vinnu, þó að hámarki 38,75 (36,75) stundir á viku. Skiptir þá ekki máli hvort um fasta dag-, kvöld- eða helgarvinnu sé að ræða. Yfirvinna sem ekki er föst gefur því ekki hækkun á uppbótinni.

Séu vinnuskil mismunandi milli mánaða er hægt að miða við að full uppbót miðist við 1.800 stundir yfir orlofsárið, 1.744 stundir hjá afgreiðslufólki og 1.654 stundir hjá skrifstofufólki. Tilfallandi yfirvinna telst þó ekki með í þessu sambandi.

Starfsfólk á hlutabótum, sjá nánar hér, er í hlutastarfi á meðan úrræðinu varir og gilda því sömu reglur um það.

Hjá iðnaðarmönnum þarf að hafa í huga að "virkur vinnutími" var tekinn upp 1. apríl 2020 og miðast fullt starf við 37 klst. virkar á viku. 

Hjá iðnaðarmönnum með virkan vinnutíma þar sem vinnuskil eru mismunandi milli mánaða miðast full uppbót við 1.665 stundir frá og með 2021 (37 klst. x 45 vikur). 

Fjarvistir vegna veikinda og fæðingarorlofs

Hafi starfsmaður verið fjarverandi vegna veikinda skal við útreikning uppbótar telja þær vikur með sem hann fékk greiddar. Orlofsuppbót skerðist því aðeins hafi starfsmaður fullnýtt veikindarétt sinn og fallið af launaskrá. 

Eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning orlofsuppbótar. Sama gildir ef kona þarf af öryggisástæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma.

Gjöld eða greiðslur sem ber að draga af orlofsuppbót

Fara skal með orlofsuppbót eins og hver önnur laun. Orlofslaun eru þó innifalin í orlofsuppbót og greiðast því ekki til viðbótar.

Síðast uppfært: Maí 2021

 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.