Öryggistrúnaðarmenn og - verðir

Um öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði gilda 4. – 10. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.

Starfsmenn 10 eða fleiri

Í fyrirtækjum þar sem eru 10 starfsmenn eða fleiri skal vinnuveitandi tilnefna af sinni hálfu öryggisvörð og starfsmenn skulu kjósa úr sínum hópi öryggistrúnaðarmann.

Starfsmenn 50 eða fleiri

Í fyrirtækjum þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri skal stofna öryggisnefnd.  Starfsmenn kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa og vinnuveitandi tilnefnir tvo fulltrúa.

Starfsmenn 1 - 9

Þótt ekki séu í fyrirtæki öryggisvörður eða öryggistrúnaðarmaður skal vinnuveitandi og/eða verkstjóri hans stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað í nánu samstarfi við starfsmenn fyrirtækisins og félagslegan trúnaðarmann þeirra.

Hlutverk öryggistrúnaðarmanns og öryggisvarðar

Öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður fylgjast í samvinnu með því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustað sé í samræmi við lög og reglur og að fylgt sé fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins.

Þeir skulu fara í eftirlitsferðir um vinnusvæði fyrirtækisins svo oft sem þurfa þykir og sérstaklega gæta að eftirfarandi (ekki tæmandi talning);

  • að vélar og tæknibúnaður, hættuleg efni og starfsaðferðir stofni ekki lífi og heilsu starfsmanna í hættu,
  • að öryggisbúnaður og persónuhlífar séu til staðar í góðu ástandi og séu notaðar af starfsmönnum,
  • að starfsmenn fái nauðsynlega fræðslu og þjálfun,
  • að tilkynningarskyldu um vinnuslys og atvinnusjúkdóma sé sinnt,
  • að eftirlitsbók sé færð í samræmi við reglur.

Vernd gegn uppsögnum

Öryggistrúnaðarmenn njóta sömu verndar gegn uppsögnum og félagslegir trúnaðarmenn. Óheimilt er að segja þeim upp störfum vegna starfa þeirra sem öryggistrúnaðarmenn eða láta þá gjalda þess á annan hátt. Þeir skulu jafnan sitja fyrir um að halda vinnunni ef vinnuveitandi þarf að fækka starfsmönnum. Sjá nánar um vernd trúnaðarmanna í umfjöllun um trúnaðarmenn.

 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.