Yfirvinna

Yfirvinna utan dagvinnutímabils
Yfirvinna er sá vinnutími sem skilað er utan dagvinnutímabils eins og það er skilgreint í kjarasamningi, sjá umfjöllun um dagvinnu (sbr. þó eftirvinnukaup verslunarmanna og vaktavinnu).

Yfirvinna þegar fullri dagvinnu hefur verið skilað
Yfirvinna er einnig vinnutími sem unninn er umfram fulla dagvinnu skv. kjarasamningi. 

Mismunandi er í kjarasamningum hvort miðað sé við full skil dagvinnu á dag, viku eða mánuði. 

  • Í samningum verkafólks er almennt miðað við að yfirvinna hefjist þegar 8 klst. vinnudegi hefur verið skilað en þó er heimilt að semja við starfsmann um að skila 40 klst. vinnuviku á færri dögum en fimm. Þannig má t.d. skipuleggja dagvinnu í 9 klst. fjóra daga vikunnar (þó innan dagvinnutímabils) og 4 klst. fimmta daginn.
  • Hjá iðnaðarmönnum er miðað við 37 virkar vinnustundir á viku og yfirvinna greidd fyrir vinnu umfram það. Yfirvinna 1 er greidd fyrir alla yfirvinna þar til yfirvinna 2 tekur við en yfirvinna 2 greiðist fyrir virkan vinnutíma umfram 41 klst. á viku að meðaltali á mánuði/launatímabili, sjá nánar.
  • Hjá afgreiðslu- og skrifstofufólki er yfirvinna ekki greidd fyrr en fullri dagvinnu hefur verið skilað í hverjum mánuði (167,94 klst. hjá afgreiðslufólki og 159,27 klst. hjá skrifstofufólki) en eftirvinnukaup er greitt fyrir vinnu utan dagvinnutímabils þar til fullri vinnu hefur verið skilað, sjá nánar.

Yfirvinna í neysluhléum
Ef unnið er í matar- og kaffitímum á dagvinnutímabili greiðist yfirvinnukaup. Sjá nánar um neysluhlé. Sérreglur gilda um vinnu hlutastarfsfólks í afgreiðslu en það fær greitt eftirvinnukaup fyrir vinnu í matar- og kaffitímum á dagvinnutímabili.

Yfirvinnutímakaup
Yfirvinna er greidd með yfirvinnukaupi sem er 1,0385% af mánaðarlaunum. Hjá verkafólki og iðnaðarmönnum jafngildir það 80% álagi á dagvinnutímakaup. Heimilt er að semja um að yfirvinnukaup sé reiknað af lægri mánaðarlaunum en mánaðarlaunum viðkomandi starfsmanns, t.d. skv. kjarasamningi. Yfirborgun á dagvinnu myndar þá ekki stofn við útreikning yfirvinnukaups. Sjá nánar um yfirborgun og áhrif á yfirvinnukaup.

Yfirvinna hlutastarfsfólks
Yfirvinna er ekki greidd á dagvinnutímabili nema starfsmaður hafi þegar skilað fullri dagvinnu eins og hún er skilgreind í kjarasamningi. Ef starfsmaður er t.a.m. í hlutastarfi og vinnur umfram umsamið starfshlutfall er dagvinnutímakaup greitt fyrir vinnu á dagvinnutímabili þar til fullri dagvinnu skv. kjarasamningi hefur verið skilað.

Síðast uppfært: Maí 2020

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.