Vakta- og hlutavinnufólk

Vaktavinnufólk vinnur sér inn orlofsdaga (sumarfrí) í hlutfalli við vinnuframlag eins og aðrir starfsmenn. Sérstök umfjöllun er um vetrarfrí vaktavinnumanna vegna vinnu á rauðum dögum.

Ef vaktir eru að jafnaði færri en fimm á viku þarf að reikna sérstaklega út fjölda vakta eða klukkustunda í sumarorlofi.

Sama á við um hlutavinnufólk ef það vinnur að jafnaði færri daga en fimm á viku. Það er því ekki sjálfgefið að vaktavinnumenn eigi rétt á 24 vinnudögum í orlofi. Starfsmaður sem vinnur 1 dag á viku getur ekki tekið 24 vikna frí og sá sem vinnur 2 daga á viku á ekki rétt á 12 vikna fríi.

Algengt er að vaktavinnumenn vinni að meðaltali 3,5 daga á viku og ef þeir ættu rétt á 24 vöktum í frí þá jafngildir það tæpum 7 vikum. Sú er þó ekki raunin. Af þeim sökum er orlof þeirra oft reiknað í klukkustundum eða beitt sérstakri reiknireglu til að finna réttan fjölda vinnudaga eða stunda í orlofi.

Hafa verður í huga orlofslaun verða að skila sér til starfsmanna. Fyrirtækin beita mismunandi aðferðum við útreikning orlofslauna en hér á eftir er fyrst og fremst verið að reikna fjölda orlofsdaga. Í mörgum tilfellum fara orlofslaun og fjöldi orlofsdaga saman en þó ekki alltaf. Ef orlof af fastri yfirvinnu er t.d. greitt inn á orlofsreikning þarf að gæta þess að það sé ekki jafnframt greitt í orlofi.

Nota má tvær aðferðir við útreikning orlofsdaga:
1. Umreikna orlof yfir í klukkustundir
2. Finna út fjölda vaktadaga í orlofi

Umreikna frí yfir í klukkustundir

Starfsmaður sem vinnur 40 klst. á viku skilar að meðaltali 8 klst. á dag. Ef hann á 24 daga orlof jafngildir það 192 klst. Ef fastur vinnutími hans er lengri eða styttri þarf að taka tillit til þess, sbr. eftirfarandi dæmi þar sem starfsmaður er með 24 daga orlof:  

a) Vaktavinnumaður á 12 klst. vöktum vinnur 5 daga aðra vikuna og 2 daga hina vikuna (3-2-2 kerfi). Hann vinnur 7 vaktir á 14 dögum eða 84 klst. Það jafngilda 42 klst. á viku eða 8,4 klst. á dag (42 / 5). Miða við 24 daga orlof á hann 201,6 klst. í orlofi (8,4 x 24). Hann tekur út sitt orlof sem 12 klst. vaktir og á því 16,8 vaktir í frí (201,6 / 12).

Einnig má útfæra orlofstöku hans þannig að hann eigi 192 klst. í orlofi (8 x 24). Hann tekur út sitt orlof sem 12 klst. vaktir og á því 16 vaktir í frí (192 / 12). Hann fær orlof af fastri yfirvinnu (2 klst. á viku, 8,67 klst. á mánuði) greitt inn á orlofsreikning eða heldur fastri yfirvinnu á meðan hann er í orlofi.

b) Vaktavinnumaður á 10 klst. vöktum vinnur 5 daga aðra vikuna og 2 daga hina vikuna (3-2-2 kerfi). Hann vinnur 7 vaktir á 14 dögum eða 70 klst. Það jafngilda 35 klst. á viku eða 7 klst. á dag (35 / 5). Miða við 24 daga orlof á hann 168 klst. í orlofi (7 x 24). Hann tekur út sitt orlof sem 10 klst. vaktir og á því 16,8 vaktir í frí (168 / 10).

Eins og sjá má af þessum dæmum eiga þessir starfsmenn jafnmargar vaktir í frí enda vinna þeir jafn margar vaktir að meðaltali á viku. Lengd vaktanna skiptir því ekki máli í þessu tilliti Launagreiðslur til starfsmannsins eru þá miðaðar við 16,8 vaktir og sé samkomulag um að starfsmaður taki fleiri vaktir í frí eru þær án launa.

Fjöldi vakta í orlofi

Ef þessi aðferð er notuð þarf að finna meðalfjölda vakta á viku og margfalda þá tölu með fjölda vikna í sumarorlofi, sem eru 4,8 miðað við 24 daga orlof  (24 dagar / 5 virkir dagar = 4,8 vinnuvikur).  Ef starfsmaður á 28 daga orlof eru vikurnar 5,6 (28 / 5)

Formúlan er þessi: Meðalfjöldi vakta = fjöldi vaktadaga x 7 dagar vikunnar

Fjöldi vaktadaga + vaktafrídagar

Dæmi um starfsmann með 24 daga orlof:  

a) 5 vaktir unnar aðra vikuna og 2 þá næstu (3-2-2 kerfi)
Á 14 dögum eru unnar 7 vaktir.

Vaktir á viku =   7 vaktir x 7 dagar vikunnar    = 3,5          
                                   14 (vaktir + vaktafrídagar)

Vaktir í sumarorlofi = 3,5 x 4,8 = 16,8  

b) 4 vaktir unnar á 4 dögum og 2 dagar frí.
Á 6 dögum eru unnar 4 vaktir.

Vaktir á viku = 4 x 7 = 4,667
                                     6

Vaktir í sumarorlofi = 4,667 x 4,8 = 22,4  

c) 5 vaktir unnar á 5 dögum og 2 dagar frí.
Á 7 dögum eru 5 vaktir unnar.

Vaktir á viku =5 x 7 = 5        
                                    7

Vaktir í sumarorlofi = 5 x 4,8 = 24  

Ef vaktir innifela fasta yfirvinnu þarf að gæta að því að orlof af yfirvinnu sé greitt með einhverjum hætti. Í dæmum hér að ofan er orlofið veitt með því að starfsmenn halda föstum vaktalaunum sínum, einnig fastri yfirvinnu, í orlofi. Einnig má greiða fasta yfirvinnu í orlofi starfsmanns eða inn á orlofsreikning en þá þarf að gæta þess að tvígreiða ekki orlof af yfirvinnu.

Ef vaktir eru óreglubundnar þarf að gæta þess að frá upphafi til loka orlofs séu a.m.k. 24 virkir dagar, ef allt orlofið er tekið í einu lagi.  

Samkvæmt 5. gr. orlofslaga hefur vinnuveitandi rétt til að ákveða hvenær starfsmaður skal hefja orlof og gildir það jafnt um vaktavinnufólk sem aðra.

 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.