Uppsögn launaliðar

Kjarasamningar kveða á um lágmarkskjör launafólk í viðkomandi starfsgrein. Óheimilt er að greiða lægri laun er samið hefur verið um í kjarasamningum.

Launahækkun samkvæmt kjarasamningi er einnig hluti lágmarkskjara starfsmanns. Óheimilt er að lækka eða afnema yfirborgun starfsmanns með því að greiða ekki út umsamda launahækkun.

Yfirborgun starfsmanns verður þó lækkuð ef fylgt er ákvæðum ráðningarsamnings og kjarasamnings. Koma þar tvær leiðir til greina, uppsögn eða samkomulag við starfsmann.

Uppsögn launaliðar ráðningarsamnings

Atvinnurekanda er heimilt að segja upp yfirborgun starfsmanns að öllu leyti eða hluta. Sé ráðningarkjörum sagt upp að hluta felst í því tilboð til starfsmanna um nýjan og breyttan ráðningarsamning. Þessu tilboði getur starfsmaður tekið eða hafnað. Því er rétt að skora á starfsmann að gera athugasemdir fyrir tiltekið tímamark.

Til að starfsmaður geti tekið tilboði um breytt ráðningarkjör þarf honum að vera ljós sú breyting sem vinnuveitandi leggur til. Því er æskilegt í uppsagnarbréfi að tiltaka fyrirhugaðar breytingar á ráðningarkjörum.

Um uppsögn að hluta vísast að öðru leyti til umfjöllunar hér undir framkvæmd uppsagna – uppsögn ráðningarsamnings að hluta.

Samkomulag um lækkun launa

Með sama hætti og atvinnurekandi og starfsmaður geta samið um laun og yfirborgun þá geta þeir samið um lækkun launa / yfirborgunar. Laun verða þó ekki lækkuð þannig að brjóti í bága við lágmarkstaxta kjarasamninga.

Ef samið er um lækkun launa þá eru aðilar ekki bundnir af uppsagnarfresti, launalækkun getur tekið þegar gildi. Launalækkun getur verið tímabundin eða ótímabundin.

Hér á vefnum undir form & eyðublöð má nálgast tvenns konar form á íslensku og ensku:

Samkomulag um tímabundna lækkun launa (nr. 17)

Samkomulag um tímabundna lækkun launa hóps starfsmanna (nr. 18)

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.