Vanræki vinnuveitandi tilkynningaskyldu getur það haft í för með sér:
- refsiábyrgð (sekt)
- sönnunarörðugleika í skaðabótamáli
Hljóti starfsmaður tímabundna og/eða varanlega örorku vegna vinnuslyss getur komið upp sú staða, verði hann fyrir fjárhagstjóni, að hann krefji vinnuveitanda um greiðslu tjónsins. Grundvöllur skaðabótakröfu byggist fyrst og fremst á hugsanlegri sök vinnuveitanda eða starfsmanns hans, t.d. að tæki hafi ekki uppfyllt öryggisreglur. Hafi vinnuveitandi tilkynnt vinnuslysið strax til Vinnueftirlitsins, sem komið hefur á staðinn og metið aðstæður og skoðað tæki, er hann í mun betri aðstöðu til að sanna að aðbúnaður á vinnustað hafi verið í samræmi við gildandi reglur.
Vanræsksla á tilkynningarskyldu slysi getur leitt til þess að sönnunarbyrði yrði lögð á vinnuveitanda um ástæður og atvik kringum vinnuslys í skaðabótamáli.
Dómur Hæstaréttar 22. maí 2003 (20/2003). Vinnuveitandi var látinn bera hallan af því að vettvangur, þar sem starfsmaður rann til í slorbleytu og ökklabrotnaði, væri ekki rannsakaður þar sem ekki var tilkynnt um slysið til Vinnueftirlits ríkisins í tæka tíð. Starfsmaðurinn var þó látinn bera 1/3 hluta tjón síns þar sem hann hafði ekki gengið eins gætilega um gólf og ástæða var til.
Dómur Hæstaréttar 23. janúar 2003 (309/2002). Íslenska ríkið sem vinnuveitandi var látið bera hallan af því að hafa ekki tilkynnt slys til Vinnueftirlits ríkisins, er hjúkrunarfræðingur Landspítalans varð fyrir þegar hann hrasaði um skammel í miðri aðgerð, fyrr en alllöngu eftir slysið og því naut engra samtímaganga við í málinu. Vanræksla á tilkynningu leiddi til þess að rannsókn þegar í kjölfar slyssins fór ekki fram en hún hefði verið til þess fallin að varpa skýrari ljósi á aðstæður og afstöðu starfsfélaga viðkomandi starfsmanns og taka á þeim vafa sem við blasti í málinu. Að mati Hæstaréttar var því óhjákvæmilegt að leggja til grundvallar dómi, að um aðgæsluleysi einhverns eða einhverra starfsfélaga viðkomandi starfsmanns hefði verið að ræða sem íslenska ríkið bæri ábyrgð á sem vinnuveitandi.