Lágmarkstekjur

Í kjarasamningum verkafólks og verslunarmanna er ákvæði um lágmarkstekjur. Hafa verður í huga að hér er ekki um að ræða lágmarkstaxta kjarasamninga. Þeir standa sjálfstætt (sjá kaupgjaldsskrá SA) en með kjarasamningum er tryggt að starfsmaður hafi tilteknar lágmarkstekjur að teknu tilliti til álags- og aukagreiðslna. Ákvæði um lágmarkstekjur nær einnig til aðstoðarfólks í félögum iðnaðarmanna en nær ekki til iðnnema.

Ef vinnuveitandi ákveður að greiða dagvinnulaun sem samsvara lágmarkstekjutryggingu þá er mikilvægt að taka fram ef eftirvinnukaup / vaktaálag / yfirvinnukaup greiðist m.v. annan dagvinnugrunn, t.d. mánaðarlaun skv. kjarasamningi. 

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf eru sem hér segir:

Frá 1. apríl 2020          kr. 335.000
Frá 1. janúar 2021      kr. 351.000
Frá 1. janúar 2022      kr. 368.000

Hvað er fullt starf?

Hjá afgreiðslufólki telst fullt starf vera 167,94 stundir á mánuði (38,75 stundir á viku).

Hjá skrifstofufólki telst fullt starf vera 159,27 stundir á mánuði (36,75 stundir á viku).

Hjá iðnaðarmönnum telst fullt starf vera 160 stundir á mánuði (37 virkar vinnu stundir á viku).

Hjá verkafólki telst fullt starf vera  173,33 stundir á mánuði (40 stundir á viku). Heimilt er að semja um styttingu vinnutíma á hverjum vinnustað samhliða niðurfellingu kaffitíma á grundvell ákvæða 5. kafla kjarasamninga um fyrirtækjaþátt.

Hverjum eru tryggðar lágmarkstekjur?

Ákvæðið nær einungis til starfsmanna sem eftir að 18 ára aldri er náð hafa starfað a.m.k. sex mánuði hjá sama fyrirtæki, þó að lágmarki 900 stundir. Starfstími áður en starfsmaður náði 18 ára aldri telst því ekki. 

Hvað telst til tekna?

Til tekna í þessu sambandi teljast allar greiðslur, þ.m.t. hvers konar bónusar, álags- og aukagreiðslur sem falla innan 173,33 vinnustunda (mismunandi vinnustundir eftir kjarasamningum). Vaktaálag reiknast þannig með við útreikning uppbótar. Ekki skal telja með endurgjald vegna útlagðs kostnaðar.

Laun fyrir vinnu umfram 173,33 stundir á mánuði reiknast ekki með í þessu sambandi. Þegar starfsmaður skilar hluta af sínum 173,33 vinnustundum á yfirvinnutímabili skal leggja saman allar dagvinnu-, vaktavinnu- og yfirvinnustundir þar til 173,33 stundum er náð. Séu tekjur undir lágmarkstekjum greiðist uppbót, annars ekki.

Dæmi um útreikninga

Aðstoðarmaður í mötuneyti
Aðstoðarmaður í mötuneyti fær greitt eftir byrjunartaxta kr. 307.735  (1. apríl 2020). Lágmarkstekjur hjá verkafólki fyrir 173,33 stundir á mánuði eru kr. 335.000 frá 1. apríl 2020. Hann skilar 165 dagvinnustundum og 13 yfirvinnustundum, samtals 178 klst., en vegna lágmarkstekjutryggingar er þó einungis litið til launa fyrir 173,33 stundir:

Dagvinna: 165  * 1.775,43 = kr. 292.946
Yfirvinna:  8,33 * 3.195,83 = kr.  26.621
                                       -------------------
Fyrir 173,33 klst. er greitt:     kr. 319.567

Samtals eru laun fyrir 173,33 stundir kr. 319.567. Lágmarkstekjur fyrir þann tímafjölda eru kr. 335.000 (frá 1. apríl 2020). Verður því að greiða aukalega kr. 15.433 í formi uppbótar þann mánuðinn. Enn á þó eftir að greiða fyrir 4,67 yfirvinnustundir (4,67*3.195,83), samtals kr. 14.925. Greidd laun verða því samtals kr. 319.567 + 15.433 + 14.925 = kr. 349.925.

Afgreiðslumaður í verslun
Lágmarkstekjur hjá verslunarmönnum fyrir 167,94 stundir á mánuði (38,75 stundir á viku) eru kr. 335.000 (m.v. 1. apríl 2020), enda hafi starfsmaður unnið a.m.k. 6 mánuði hjá fyrirtæki (að lágmarki 900 stundir). Hjá afgreiðslufólki í föstu hlutastarfi sem er að hluta utan dagvinnutímabils getur verið hentugt að reikna út meðaltímakaup sem ekki má vera lægra en lágmarkstímakaupið kr. 1.994,76 (335.000 / 167,94). 

Dæmi 1. Afgreiðslumaður í fullu starfi á dagvinnutímabili á taxta m.v. 6 mánaða starf
Hann á rétt á greiðslu uppbótar mánaðarlega sem nemur muninum á launataxtanum (317.467) og kr. 335.000, þ.e. kr. 17.503. 

Dæmi 2. Afgreiðslumaður í hlutastarfi sem vinnur eingöngu dagvinnu
Afgreiðslumaður fær greitt tímakaup, kr. 1.854,28 (311.408 / 167,94), samkvæmt byrjunarlaunum kjarasamnings verslunarmanna.

Vinnutími hans er frá 13:00-18:00 alla virka daga eða 25 stundir á viku sem eru 108,3 stundir á mánuði að jafnaði (25 x 4,33 vikur). Engin eftirvinna er unnin. Starfsmaðurinn á rétt á uppbót vegna hvers vinnutíma, sem nemur mismuninum á lágmarkstímakaupi, kr. 1.994,76  og þeim dagvinnutímakaupstaxta sem unnið er eftir, þ.e. kr. 140,48. Mánaðarleg uppbót er því kr. 15.185 (108,3 * 140,21).

Dæmi 3. Sérþjálfaður afgreiðslumaður í hlutastarfi sem vinnur eftirvinnu
Sérhæfður afgreiðslumaður fær greitt tímakaup í dagvinnu m.v. 6 mán. starf, kr. 1.927,18, og tímakaup í eftirvinnu, kr. 2.665,27. Vinnutími hans er frá 13:00-19:00 alla virka daga sem gera 130 stundir (108,3 í dv. og 21,7 í ev.) á mánuði að jafnaði. Meðaltímakaupið fyrir þennan vinnutíma er kr. 2.050,38. Starfsmaðurinn á því ekki rétt á uppbót vegna hvers vinnutíma þar sem meðaltímakaupið er hærra en lágmarkstímakaup (1.994,76).

Dæmi 4. Afgreiðslumaður sem vinnur aðeins á laugardögum
Afgreiðslumaður fær greitt tímakaup í eftirvinnu, kr. 2.614,58, samkvæmt 6 mán. taxta kjarasamnings verslunarmanna. Það er hærra en lágmarks meðaltímakaup (1.994,76) og á hann því ekki rétt á uppbótinni.  

Síðast uppfært: Maí 2020

                                                                                                          

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.