Aðstoðarmaður í mötuneyti
Aðstoðarmaður í mötuneyti fær greitt eftir byrjunartaxta kr. 307.735 (1. apríl 2020). Lágmarkstekjur hjá verkafólki fyrir 173,33 stundir á mánuði eru kr. 335.000 frá 1. apríl 2020. Hann skilar 165 dagvinnustundum og 13 yfirvinnustundum, samtals 178 klst., en vegna lágmarkstekjutryggingar er þó einungis litið til launa fyrir 173,33 stundir:
Dagvinna: 165 * 1.775,43 = kr. 292.946
Yfirvinna: 8,33 * 3.195,83 = kr. 26.621
-------------------
Fyrir 173,33 klst. er greitt: kr. 319.567
Samtals eru laun fyrir 173,33 stundir kr. 319.567. Lágmarkstekjur fyrir þann tímafjölda eru kr. 335.000 (frá 1. apríl 2020). Verður því að greiða aukalega kr. 15.433 í formi uppbótar þann mánuðinn. Enn á þó eftir að greiða fyrir 4,67 yfirvinnustundir (4,67*3.195,83), samtals kr. 14.925. Greidd laun verða því samtals kr. 319.567 + 15.433 + 14.925 = kr. 349.925.
Afgreiðslumaður í verslun
Lágmarkstekjur hjá verslunarmönnum fyrir 167,94 stundir á mánuði (38,75 stundir á viku) eru kr. 335.000 (m.v. 1. apríl 2020), enda hafi starfsmaður unnið a.m.k. 6 mánuði hjá fyrirtæki (að lágmarki 900 stundir). Hjá afgreiðslufólki í föstu hlutastarfi sem er að hluta utan dagvinnutímabils getur verið hentugt að reikna út meðaltímakaup sem ekki má vera lægra en lágmarkstímakaupið kr. 1.994,76 (335.000 / 167,94).
Dæmi 1. Afgreiðslumaður í fullu starfi á dagvinnutímabili á taxta m.v. 6 mánaða starf
Hann á rétt á greiðslu uppbótar mánaðarlega sem nemur muninum á launataxtanum (317.467) og kr. 335.000, þ.e. kr. 17.503.
Dæmi 2. Afgreiðslumaður í hlutastarfi sem vinnur eingöngu dagvinnu
Afgreiðslumaður fær greitt tímakaup, kr. 1.854,28 (311.408 / 167,94), samkvæmt byrjunarlaunum kjarasamnings verslunarmanna.
Vinnutími hans er frá 13:00-18:00 alla virka daga eða 25 stundir á viku sem eru 108,3 stundir á mánuði að jafnaði (25 x 4,33 vikur). Engin eftirvinna er unnin. Starfsmaðurinn á rétt á uppbót vegna hvers vinnutíma, sem nemur mismuninum á lágmarkstímakaupi, kr. 1.994,76 og þeim dagvinnutímakaupstaxta sem unnið er eftir, þ.e. kr. 140,48. Mánaðarleg uppbót er því kr. 15.185 (108,3 * 140,21).
Dæmi 3. Sérþjálfaður afgreiðslumaður í hlutastarfi sem vinnur eftirvinnu
Sérhæfður afgreiðslumaður fær greitt tímakaup í dagvinnu m.v. 6 mán. starf, kr. 1.927,18, og tímakaup í eftirvinnu, kr. 2.665,27. Vinnutími hans er frá 13:00-19:00 alla virka daga sem gera 130 stundir (108,3 í dv. og 21,7 í ev.) á mánuði að jafnaði. Meðaltímakaupið fyrir þennan vinnutíma er kr. 2.050,38. Starfsmaðurinn á því ekki rétt á uppbót vegna hvers vinnutíma þar sem meðaltímakaupið er hærra en lágmarkstímakaup (1.994,76).
Dæmi 4. Afgreiðslumaður sem vinnur aðeins á laugardögum
Afgreiðslumaður fær greitt tímakaup í eftirvinnu, kr. 2.614,58, samkvæmt 6 mán. taxta kjarasamnings verslunarmanna. Það er hærra en lágmarks meðaltímakaup (1.994,76) og á hann því ekki rétt á uppbótinni.