Meginreglan að veikindi falli niður við ráðningarslit
Samkvæmt meginreglu vinnuréttar og kröfuréttar leysir uppsögn starfsmenn og vinnuveitendur, undan skyldum sínum samkvæmt ráðningarsambandi, að loknum uppsagnarfresti.
Veikindaréttindi eru meðal þeirra réttinda og skyldna sem falla niður við ráðningarslit. Frá þessari meginreglu eru þó vissar undantekningar.
Uppsögn áður en starfsmaður veikist
Þótt starfsmaður veikist eða slasist eftir að honum hefur verið sagt upp, þ.e.a.s. innan uppsagnarfrests og fyrirsjáanlegt er að hann muni vera veikur fram yfir starfslok, hefur það engin áhrif á framangreinda meginreglu og skapar því honum engan frekari rétt, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 9. desember 2010 (128/2010) og 13. júní 2013 (121/2013). Í síðarnefnda dóminum segir orðrétt að „[þ]ótt fallist verði á með áfrýjanda að réttur hennar til forfallalauna verði ekki skertur með uppsögn lengir sá tími þó ekki rétt hennar til launa í uppsagnarfresti.“
Frá meginreglunni er þó gerð ein undantekning.
Slasist starfsmaður í vinnuslysi á uppsagnarfresti eða veikist af atvinnusjúkdómi þá gildir sú sérregla, að hann nýtur fullra veikindaréttinda óháð ráðningarslitunum. Þetta þýðir að starfsmaður helst á launaskrá á meðan hann er óvinnufær þar til veikindaréttur hans hefur tæmst en þetta breytir þó engu um gildi uppsagnarinnar.
Það er þó skilyrði fyrir veikindarétti starfsmanns í þessum tilvikum að vinnuslysið eða atvinnusjúkdómurinn leiði til þess að starfsmaður forfallist frá vinnu, sbr. dóm Hæstaréttar 20. september 2012 (130/2012). Í þeim dómi var hafnað launakröfu starfsmanns sem fór í nám eftir lok ráðningar. Hann hafði slasast á síðasta degi í starfi sínu en þar sem hann var námsmaður og ekki á vinnumarkaði þá var talið að hann hefði ekki forfallaðist frá vinnu.
Uppsögn eftir að starfsmaður veikist
Engar skorður eru í gildandi rétti eða kjarasamningum við því að veikum starfsmanni sé sagt upp störfum.
Sé veikum starfsmanni sagt upp störfum tekur uppsögnin strax gildi, eins og í öðrum tilvikum, þ.e. uppsagnarfresturinn lengist ekki og getur fallið inn í veikindagreiðslutímabil.
Í dómi Hæstaréttar nr. 289/1991 (1994, bls. 1109) voru atvik þannig að konu með alvarlegan sjúkdóm, sem olli því að vinnugeta hennar var verulega skert, var sagt upp störfum hjá fyrirtæki. Um þetta segir í dómi Hæstaréttar: „...heimilt var að segja henni upp störfum án þess að tilgreina sérstakar ástæður. Uppsögnin verður ekki metin ólögleg, þótt síðar hafi komið í ljós að hún var 100% öryrki er uppsögnin átti sér stað.“
Deilt var um sambærilegt álitaefni í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 13. desember 2016 (E-134/2016). Starfsmanni var sagt upp störfum en hann hafði þá verið fjarverandi í fimm vikur vegna veikinda. Talið var heimilt að segja starfsmanninum upp störfum og var hafnað kröfu hans um lengri uppsagnarfrest vegna veikindanna.
Uppsögn starfsmanns getur hins vegar aldrei skert veikindarétt starfsmanns, þ.e. ef uppsagnarfrestur er skemmri en veikindaréttur. Starfsmaður á rétt á launum í samræmi við áunninn veikindarétt óháð uppsögninni. Vinnuveitandi getur því ekki sagt starfsmanni upp eftir að hann er orðinn veikur beinlínis í þeim tilgangi að komast hjá greiðslu veikindalauna.