Jafnréttisáætlun
Sú skylda er lögð á fyrirtæki þar sem starfa 25 eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli skulu setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna („jafnréttislög“).
Með samþættingu jafnréttissjónarmiða í starfsmannastefnu er átt við að fyrirtæki flétti sjónarhorn kynjajafnréttis skýrt inn í starfsmannastefnu sína. Jafnframt skulu fyrirtæki gera áætlun um hvernig ná skuli þeim markmiðum er koma fram í jafnréttisáætlun eða starfsmannastefnu þeirra. Tilgangurinn með gerð jafnréttisáætlunar tengist því náið þeirri skyldu sem lögð er á vinnuveitendur að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns.
Hvað á að koma fram í jafnréttisáætlun?
Í jafnréttisáætlun eða starfsmannastefnu skal koma fram markviss stefna og verkefnaskrá fyrirtækis um hvernig jafnrétti kynjanna verði náð og því viðhaldið til framtíðar. Þar skal sérstaklega kveðið á um markmið í jafnréttismálum og gerð skal áætlun um hvernig þeim skuli náð til að tryggja starfsmönnum þau réttindi sem þeim eru áskilin í jafnréttislögum.
Í jafnréttisáætlun skal setja fram tímasetta framkvæmdaáætlun þar sem fram kemur hvernig eftirfarandi ákvæði jafnréttislaga eru uppfyllt (markmið, aðgerðir, ábyrgð og tímarammi):
- Almenn ákvæði um launajafnrétti (6. gr.)
- Jafnlaunavottun (7. gr.)
- Jafnlaunastaðfesting (8. gr.)
- Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun (12. gr.)
- Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs (13. gr.)
- Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni (14. gr.)
Sumir vinnustaðir hafa farið þá leið að taka fleiri þætti en kyn inn í jafnréttisáætlanir sínar þrátt fyrir að það sé ekki skylt samkvæmt lögum. Í ljósi þess er athygli vakin á lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði og lögum nr. 80/2019 um kynrænt sjálfræði.
Eftirfylgni innan fyrirtækis og endurskoðun á þriggja ára fresti
Jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu skal endurskoða á þriggja ára fresti.
Mikilvægt er að verkefnum jafnréttisáætlunarinnar sé fylgt eftir. Gott er að fara yfir stöðu allra verkefnanna a.m.k. árlega með framkvæmdastjóra, framkvæmdaraðilum og helstu stjórnendum. Einnig er gagnlegt að kynna reglulega fyrir starfsfólki hvað hefur tekist vel og hvað má betur fara. Áætlunin verður þá lifandi plagg sem líklegra er að skili árangri. Jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu skal endurskoða á þriggja ára fresti. Gildistíminn þarf að koma fram í stefnunni / áætluninni.
Á heimasíðu Jafnréttisstofu er að finna leiðbeiningar við gerð jafnréttisáætlunar.
Síðast uppfært: Febrúar 2021