Þegar fyrirtæki endurskipuleggur rekstur eða dregur saman starfsemi getur þurft að breyta ráðningarkjörum starfsmanna, t.d. með styttingu vinnutíma eða lækkun launagreiðslna.
Náist ekki samkomulag um breytingar við starfsmenn getur þurft að grípa til uppsagna. Annað hvort með því að segja ráðningarsamningnum upp að öllu leyti eða aðeins að hluta. Sé síðari leiðin farin þarf að tiltaka nákvæmlega hvaða liðum samningsins verið er að segja upp auk þess sem virða þarf reglur um uppsagnarfrest.
Undir „form & eyðublöð" má finna dæmi um uppsagnarbréf vegna uppsagnar á hluta ráðningarkjara / vinnutíma og einnig dæmi um samningsform ef atvinnurekandi og starfsmenn eru sammála um lækkun yfirborgunar (nr. 17 og 18).
Uppsögn og tilboð um nýjan samning
Sé ráðningarkjörum sagt upp að hluta felst í því tilboð til starfsmanna um nýjan og breyttan ráðningarsamning. Þessu tilboði getur starfsmaður tekið eða hafnað. Því er rétt að skora á starfsmann að gera athugasemdir fyrir tiltekið tímamark.
Til að starfsmaður geti tekið tilboði um breytt ráðningarkjör þarf honum að vera ljós sú breyting sem vinnuveitandi leggur til. Því er æskilegt í uppsagnarbréfi að tiltaka fyrirhugaðar breytingar á ráðningarkjörum.
Lengd uppsagnarfrests er sú sama og almennt við uppsagnir
Þótt ráðningarsamningi sé einungis sagt upp að hluta gilda sömu reglur um lengd uppsagnarfrests og almennt við uppsagnir. Sjá nánar um uppsagnarfrest. Frá þessu geta þó verið undantekningar, sbr. ákvæði kjarasamninga um slit vakta og í kjarasamningum SA og Samiðnar og SA og VM, gr. 2.2.2., er sérákvæði um uppsögn yfirvinnu bygginga- og málmiðnaðarmanna og garðyrkjumanna.
Í kjarasamningum er almennt kveðið á um lengri uppsagnarfrest þeirra starfsmanna sem starfað hafa lengi hjá sama fyrirtæki og náð ákveðnum lífaldri. Þessi uppsagnarfrestur miðast hins vegar við að starfslok verði hjá viðkomandi starfsmanni en ekki að einungis sé t.d. verið að segja upp fastri yfirvinnu. Ef viðkomandi starfsmaður hafnar hins vegar tilboði um breyttan samning kemur til starfsloka og er þá rétt að miða við lengdan uppsagnarfrest skv. framansögðu.
Uppsögn yfirvinnu
Ef yfirvinna er föst og reglubundin þá verður hún ekki felld niður einhliða af vinnuveitanda eða starfsmanni. Því verður að segja slíkri yfirvinnu upp með uppsagnarfresti sem jafngildir uppsagnarfresti starfsmanns, nema samkomulag sé við starfsmann um að fella niður yfirvinnu og greiðslu fyrir hana.
Í kjarasamningum SA og Samiðnar og SA og VM er sérákvæði um uppsögn yfirvinnu, gr. 2.2.2. Hafi yfirvinna verið reglubundin í tvo mánuði eða meira er heimilt að tilkynna fyrirhugaðar breytingar með tveggja vikna fyrirvara. Fyrirvari er háður því að ekki sé um óviðráðanlegar orsakir að ræða. Efnisskortur telst í þessu sambandi ekki til óviðráðanlegra orsaka.
Sérstök uppsagnarvernd
Nokkrir hópar launamanna njóta sérstakrar uppsagnarverndar. Það kemur þó ekki í veg fyrir að ráðningarsamningi þeirra sé sagt upp að hluta, enda sé það hluti af almennum aðgerðum innan fyrirtækis sem ná til allra starfsmanna eða þess hóps starfsmanna sem viðkomandi einstaklingur er hluti af.
Ef einungis stendur til að gera breytingar á ráðningarsamningi manns sem nýtur sérstakrar uppsagnarverndar verða þær að vera innan eðlilegra marka og tilboð um breyttan ráðningarsamning ekki þess eðlis að það jafngildi uppsögn.