Endurkröfuréttur

Vinnuveitendur sem greiða starfsmönnum sínum laun í veikinda- og slysatilfellum kunna að eiga rétt á dagpeningagreiðslum frá slysatryggingum almannatrygginga eða tryggingafélagi fyrirtækis eða átt endurkröfurétt á tjónvald eða tryggingafélag hans.

Slysatryggingar almannatrygginga

Um slysatryggingar almannatrygginga gilda samnefnd lög nr. 45/2015.

Ef vinnuveitandi greiðir starfsmanni sínum laun í slysaforföllum renna slysadagpeningar almannatrygginga beint til hans. Á það einnig við um aukagreiðslur vegna barna. Vinnuveitandi á þó ekki rétt á hærri greiðslu en sem nemur 3/4 af greiddum launum, sbr. 5. mgr. 11. gr.

Dagpeningar þessir eru 1. janúar árið 2018 kr. 2.133 á dag, alla daga vikunnar, og kr. 478 fyrir hvert barn.  

Slysadagpeningar greiðast frá og með áttunda degi eftir að bótaskylt slys á sér stað, hafi hinn slasaði verið óvinnufær í minnst tíu daga. Hér eru meðtaldir allir dagar, ekki einungis vinnudagar. Slysadagpeningar greiðast í allt að 52 vikur, sbr. 1. mgr. 11. gr.  

Þeir sem njóta slysatrygginga almannatrygginga, sbr. 5., 7. og 8. gr. laganna eru m.a:

  • Launþegar sem slasast við vinnu eða á beinni leið til og frá vinnu
  • Atvinnurekendur sem starfa að eigin atvinnurekstri
  • Nemendur í iðnnámi í löggiltum iðngreinum
  • Þeir sem vinna að björgun manna úr lífsháska eða að vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum
  • Íþróttafólk sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur er æfingum, sýningum eða keppni og er orðið 16 ára
  • Þeir sem óskað hafa eftir slysatryggingu á skattframtali og slasast við heimilisstörf

Í öllum þessum tilvikum á vinnuveitandi rétt á slysadagpeningum. Það gildir þó ekki ef bótaskylda er fyrir hendi samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis eða slysatryggingu ökumanns og eiganda. 

Vinnuveitendur eiga ekki rétt á dagpeningum frá slysatryggingum almannatrygginga vegna almennra veikinda starfsmanna.

Greiðslur úr slysatryggingu launþega

Öllum fyrirtækjum er skylt að kaupa slysatryggingu vegna þeirra launþega sem hjá þeim starfa. Kveðið er á um þessa slysatryggingu í kjarasamningum SA og einstakra stéttarfélaga.

Tryggingin nær til slysa sem verða af völdum slyss í starfi eða á eðlilegri leið til eða frá vinnu.

Þá nær tryggingin einnig til ferða innanlands og utan sem farnar eru á vegum vinnuveitanda og slysa, er verða við íþróttaiðkun, keppni og leiki, enda hafi slíkt farið fram á vegum vinnuveitanda eða starfsmannafélags og ætlast er til þátttöku í slíkri iðkun sem hluti af starfi starfsmanna með frávikum hvað varðar tilteknar hættulegar íþróttir. Tryggingin nær einnig í fjölmörgum kjarasamningum til ferða til og frá vinnustað í neysluhléum.

Gerður er sá fyrirvari í kjarasamningum að tryggingin greiði ekki bætur vegna slyss, sem hlotist hefur af notkun skráningarskyldra vélknúinna ökutækja hér á landi og eru bótaskyld samkvæmt lögboðinni ökutækjatryggingu.

Í kjarasamningum verkstjóra og iðnverkafólks er þó kveðið á um sólarhringstryggingu. Verkstjórar og iðnverkafólk eru því slysatryggðir allan sólarhringinn.

Verði starfsmaður fyrir slysi sem tryggingin nær til á hann rétt á dagpeningum á grundvelli tryggingarinnar.

Almennt greiðast dagpeningar frá og með fimmtu viku eftir að slys átti sér stað og þar til hinn slasaði verður vinnufær að nýju, þó að hámarki í 48 vikur. Dagpeningar þessir eru greiddir til vinnuveitandans á meðan hann greiðir starfsmanni sínum laun.

Upphæð dagpeninga er nokkuð mismunandi eftir kjarasamningum. Ákvæði um slysatryggingar eru oftast í sama kafla og veikindarétturinn (almennt 8. kafla kjarasamninga).  

Endurkrafa á tjónvald

Ef starfsmaður verður fyrir líkamstjóni vegna ólögmæts hátternis annars manns leiðir það iðulega til fjártjóns fyrir vinnuveitanda starfsmannsins, m.a. vegna launagreiðslna sem honum ber að inna af hendi í veikindafjarvistum hans. Vinnuveitandi á þá endurkröfurétt á tjónvald vegna þess fjártjóns sem hann hefur orðið fyrir. Um þetta segir í 2. mgr. 17. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993:  

„Vinnuveitandi, sem greitt hefur slasaða eða þeim sem misst hefur framfæranda laun eða aðrar launatengdar greiðslur vegna líkamstjóns, getur krafið hinn skaðabótaskylda um endurgreiðslu að því marki sem vinnuveitandi hefur orðið fyrir fjártjóni vegna slíkra greiðslna.”  

Endurkrafa á tryggingafélag tjónvalds

Fjárkröfur á hendur tryggingafélögum vegna bótaskylds tjóns lúta sömu lögmálum og kröfur á hendur tjónvaldi, sbr. umfjöllun hér að ofan. Ef starfsmaður verður t.d. fyrir tjóni vegna umferðarslyss á hann bótakröfu á tjónvald eða nánar tiltekið tryggingafélag hans.

Vinnuveitandi hans verður einnig fyrir tjóni vegna fjarvista frá vinnu og launagreiðslna til starfsmanns. Eðlilegt er að vinnuveitandi tjónþola setji fram bótakröfu á hendur tryggingafélagi tjónvalds vegna þessa fjártjóns.

 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.