Launabreytingar

Launahækkanir kjarasamninga
Kjarasamningar kveða á um lágmarkskjör í starfsgrein. Þar er ekki einungis kveðið á um lágmarkslaun heldur einnig í mörgum tilvikum lágmarkshækkun þeirra reglulegu launa sem starfsmaður nýtur á þeim degi þegar hækkun skv. kjarasamningi á að koma til framkvæmda, óháð launum viðkomandi starfsmanns. Þessi skilningur er staðfestur í bókun með kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ. Upplýsingar um umsamdar launahækkanir kjarasamninga má finna í kaupgjaldsskrá SA og uppfærðum kjarasamningum

Í kjarasamningum er stundum samið um ólíkar hækkanir fyrir starfsfólk sem starfar á lágmarkstöxtum kjarasamninga og þeim sem eru á hærri launum en skv. taxta kjarasamnings, s.s. yfirborgaðir. Það er einmitt tilvikið í lífskjarasamningunum.

Í lífskjarasamningunum var samið um eftirfarandi almennar hækkanir sem eiga við starfsfólk sem er á hærri launum en skv. taxta kjarasamnings:

1. apríl 2019: 17.000 kr.
1. apríl 2020: 18.000 kr.
1. janúar 2021: 15.750 kr.
1. janúar 2022: 17.250 kr.

Fyrir starfsfólk sem tekur kjör skv. taxta kjarasamnings var aftur á móti samið um eftirfarandi launahækkanir en uppfærða taxta má eins og fyrr segir nálgast í kaupgjaldsskrá SA og uppfærðum kjarasamningum:

1. apríl 2019: 17.000 kr.
1. apríl 2020: 24.000 kr.
1. janúar 2021: 24.000 kr.
1. janúar 2022: 25.000 kr.

Þar sem taxtahækkanir eru hærri en almennar hækkanir í lífskjarasamningi getur það gerst að starfsmaður sem verið hefur lítillega yfirborgaður (minna en sem nemur muni á taxtahækkunum og almennum hækkunum) verði það ekki lengur. Mikilvægt er því að kynna sér vel kaupgjaldaskránna í slíkum tilvikum.  

Er heimilt að flýta launahækkun?
Já, vinnuveitandi getur flýtt launahækkunum kjarasamninga, að öllu leyti eða hluta.

Samkvæmt bókun frá árinu 2011 í kjarasamningum SA og aðildarfélaga ASÍ er heimilt við ákvörðun launa eða launahækkun að flýta óframkomnum almennum hækkunum næstu 12 mánaða. Gera verður starfsmanni grein fyrir því að um flýtta hækkun skv. kjarasamningi sé að ræða.

Dæmi í ráðningarsamningi: „Við ákvörðun launa hefur verið tekið tillit til launahækkana kjarasamninga næstu 12 mánuði og eru þær því innifaldar í umsömdum launum."

Dæmi um staðfestingu launahækkunar: „Laun starfsmanns hækka frá og með 1. október 2016 og verða kr. xxx. Með því hefur verið flýtt komandi launahækkun kjarasamnings."

Dæmi um staðfestingu launahækkunar: „Laun starfsmanns hækka um 3% frá og með 1. október 2016. Launahækkun þessi kemur til frádráttar komandi launahækkun kjarasamnings."  

Ef ósamið er á vinnumarkaði um launahækkanir er hægt að hafa fyrirvara vegna launahækkunar.

Dæmi um skriflegan fyrirvara: Laun starfsmanns hækka um 2% frá og með 1. janúar 2019. Verði samið í komandi kjarasamningum um meiri almenna hækkun launa kemur launahækkun þessi til frádráttar."

Er heimilt að seinka eða afnema launahækkun?
Atvinnurekandi getur ekki einhliða ákveðið að launabreyting kjarasamningi komi ekki til framkvæmda og hann getur að sama skapi ekki samið við starfsmann um að laun hækki ekki. Atvinnurekanda er hins vegar heimilt að semja við starfsmann um að yfirborgun hans umfram lágmarkstaxta kjarasamninga taki lækkun. Mikilvægt er að samningur þar um sé skýr þannig að fyrir liggi hver ný mánaðarlaun eða nýtt tímakaup eigi að vera að teknu tilliti til umsaminnar launahækkunar kjarasamninga. Ef ekki næst samkomulag við starfsmann um lækkun yfirborgunar þá getur atvinnurekandi sagt upp yfirborgun eða launalið ráðningarsamnings.

Sjá nánar um uppsögn launaliðar og samninga um lækkun yfirborgunar.  

Kjarasamningar án launabreytinga

Nokkrir kjarasamningar hafa ekki að geyma ákvæði um árlegar launabreytingar og ráðast þær því eingöngu af því sem um semst milli vinnuveitanda og starfsmanns. Um er að ræða kjarasamninga SA við félög háskólamanna, þ.e.

Í stað árlegra launabreytinga á starfsmaður rétt á viðtali við yfirmann einu sinni á ári, m.a. til að ræða hugsanlegar launabreytingar. Niðurstaða viðtals skal liggja fyrir innan mánaðar. Hafa verður í huga að starfsmenn, sem undir þessa kjarasamninga falla, hafa eftir sem áður væntingar um að laun þeirra taki breytingum. Því er mikilvægt að vinnuveitandi ræði árlega við starfsmenn um forsendur launabreytinga, m.a. með tilliti til frammistöðu og annarra þátta sem áhrif geta haft á launaþróun. 

 

Síðast uppfært: Jan. 2021

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.