Vaktavinna

Ef vinnuveitandi þarf að skipuleggja reglubundna vinnu utan dagvinnutímabils getur verið hentugt að beita ákvæðum kjarasamnings um vaktavinnu. Er þá heimilt að greiða vaktaálag fyrir vinnu utan dagvinnutímabils í stað yfirvinnu. Vaktavinna er t.d. algeng á veitinga- og gististöðum, í ferðaþjónustu, umönnunarstörfum, akstri hóp- og flutningabifreiða, öryggisþjónustu og í iðnaði.

Kjarasamningur SA og VR/LÍV hefur ekki að geyma ákvæði um vaktavinnu en þess í stað eru ákvæði um eftirvinnu sem eru að mörgu leyti sveigjanlegri en vaktavinnuákvæði.

Ákvæði kjarasamninga um vaktavinnu eru mismunandi og því mikilvægt að vinnuveitandi kynni sér vel þann kjarasamning sem um starfið gildir. Ef ráða á starfsmann til vaktavinnu er rétt að tilgreina það í skriflegum ráðningarsamningi. 

Megineinkenni vaktavinnu

  • Vaktavinna er fyrirfram ákveðin vinnutilhögun og á því ekki við um tilfallandi vinnu.
  • Vaktir eru skipulagðar til ákveðins tíma (gjarnan fjögurra vikna í senn eða lengur) og vaktskrá aðgengileg starfsmönnum.
  • Lengd vakta er fyrirfram ákveðin og er í kjarasamningum kveðið á um lágmarkslengd vakta.
  • Greitt er vaktaálag þar til fullri vinnu eða umsömdu starfshlutfalli hefur verið skilað. Vaktaálag er mismunandi milli kjarasamninga.
  • Yfirvinna er greidd eftir 40 klst. á viku að meðaltali. 

Upptaka vaktavinnu
Ákvæði kjarasamninga um upptöku vaktavinnu eru mismunandi. Í veitingasamningi SA við SGS / Eflingu er gert ráð fyrir ráðningu til vaktavinnu og verður því vaktavinna ekki tekin upp nema með samkomulagi við starfsmann. Þegar vaktavinna er tekin upp tímabundið, t.d. hjá iðnaðarmönnum, er heimilt að tilkynna um upptöku vakta með fyrirvara sem kjarasamningur tilgreinir. Ef reglulega þarf að taka upp vaktir er rétt að tilgreina í ráðningarsamningi að starfsmaður séu ráðinn hvort tveggja til dagvinnu og vaktavinnu, eftir nánari ákvörðun vinnuveitanda.   

Vaktaálag
Álagslaust tímabil er almennt frá kl. 8 að morgni til kl. 17 en í sumum samningum er það til kl. 16. Álagslaust tímabil er því ekki sama tímabil og dagvinnutímabil hjá dagvinnufólki. Álag á kvöldin, nóttunni og um helgar er mismunandi milli samninga og í almennum kjarasamningum SA við SGS / Eflingu er vaktaálag einnig mismunandi milli einstakra kafla.

Neysluhlé á vöktum
Greidd neysluhlé á vöktum eru með sama hætti og hjá dagvinnufólki, þ.e. 35 mín. á 8 klst. vinnudegi. Neysluhlé eru hlutfallslega lengri / styttri þegar vaktir eru lengri eða styttri en 8 klst. Í sumum kjarasamningum segir að neysluhlé séu 5 mín. fyrir hverja unna klst. en það þýðir að reikna skuli 5 mín. fyrir hverja heila unna klst. Neysluhlé í þeim tilvikum eru 35 mín. á 8 klst. vakt og 55 mín. á 12 klst. vakt.

Neysluhlé eru tekin eftir því sem hentar á vinnustað eftir samkomulagi vinnuveitanda og starfsmanna. Vinna í neysluhléum er greidd með yfirvinnukaupi. Ef vinna er skipulögð með þeim hætti að torvelt er að veita neysluhlé er mikilvægt að semja um greiðslu vegna sveigjanlegra neysluhléa og vinnu í þeim. Þessi greiðsla getur verið hluti yfirborgunar starfsmanns, ef hún er fyrir hendi. Sjá nánar um yfirborgun

Kjarasamningar gera ekki ráð fyrir matartímum á vöktum en þó er ekki útilokað, henti það starfseminni, að semja við starfsmann um að hann taki hádegishlé á vakt. 

Yfirvinna
Í vaktavinnu er yfirvinna greidd fyrir vinnu umfram 40 klst. á viku að jafnaði / meðaltali. Það þýðir að vaktavinna getur verið mismikil milli vikna, yfir 40 klst. aðra vikuna en undir 40 klst. hina en yfirvinna greiðist einungis ef vaktastundir að meðaltali eru yfir 40 klst. 

Dæmi: Á „kokkavöktum" þar sem starfsmaður vinnur á 12 klst. vöktum í 2-3-3-2 kerfi þá vinnur hann 2 - 5 vaktir á viku, 24, 36, 48 eða 60 klst., að meðaltali 42 klst. á viku. Því eru greiddar 2 klst. í yfirvinnu á viku eða 8,67 klst. á mánuði. 

Sérákvæði eru í kjarasamningum SA við Matvís og SGS / Eflingu v. veitingahúsa um styttri vinnuskyldu ef einungis er unnið á kvöldvöktum. 

Vaktavinna á helgi- og stórhátíðardögum
Tvenns konar fyrirkomulag er í kjarasamningum um vaktavinnu á „rauðum dögum". 

1) Yfirvinnu- eða stórhátíðarkaup ásamt óskertum dagvinnulaunum
Greitt er yfirvinnu- eða stórhátíðarkaup fyrir vinnu á rauðum degi auk þess sem starfsmaður heldur óskertum dagvinnulaunum (eins og hjá dagvinnufólki, sjá umfjöllun um sérstaka frídaga).

Í þessum vaktaköflum er almennt gert ráð fyrir að starfsmaður sé í fríi á rauðum dögum, nema um annað hafi verið samið eða leiði af eðli starfseminnar. 

2) Vaktaálag og vetrarfrí
Greitt er vaktaálag fyrir vinnu á rauðum degi og er það almennt 45% á almennum helgidögum og 90% á stórhátíðardögum. 

Auk vaktaálags ávinnur starfsmaður sér inn 12 vetrarfrídaga miðað við ársstarf (96 vinnuskyldustundir m.v. fullt starf) fyrir helgi- og stórhátíðardaga sem falla á mánudaga til föstudaga. Sé vinnustað lokað á þeim dögum eða frí veitt fækkar vetrarfrídögum samsvarandi. Sjá umfjöllun um vetrarfrí vaktavinnustarfsmanna.

Þetta fyrirkomulag er í samningum SA við Matvís og SGS / Eflingu v. veitingahúsa, ræstinga og umönnunarstarfa.

Síðast uppfært: Maí 2020

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.