Jöfn staða karla og kvenna

Mismunun vegna  kynferðis við uppsögn er óheimil.

Kyn í minnihluta í starfsgrein öllu jöfnu að ganga fyrir um áframhaldandi ráðningu
Vinnuveitendum er samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 150/2020 óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði varðandi uppsögn úr starfi, sbr. 19. gr.

Á sama hátt og gildir um ráðningar er ákvæðið túlkað þannig að þurfi að velja á milli starfsmanna við uppsagnir vegna fækkunar eða endurskipulagningar eigi það kynið sem er í minnihluta í starfsgrein að öðru jöfnu að ganga fyrir um áframhaldandi ráðningu. Að öðrum kosti verði vinnuveitandinn að sýna fram á  að uppsögnin hafi ekki falið í sér kynjamismun í skilningi laganna.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 134/1996 (1996 bls. 1282.) (Hagkaup.) Viðmið við uppsögn. Færri karlar í deild auk áhrifa skipulagsbreytinga.
Vegna skipulagsbreytinga var starfsmönnum fækkað. Stóð valið milli þess að segja konu upp störfum eða karlmanni, sem hafði sömu menntun og hún, en skemmri starfsaldur. Ekki var um það deilt, að vinnuveitandi hafi almennt vald til að ráða og segja upp starfsmönnum sínum og að konunni var sagt upp með tilskildum uppsagnarfresti. Ágreiningsefnið var því það eitt, hvort fyrirtækið hafi við uppsögn konunnar farið út fyrir þær takmarkanir sem lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla setja.

Þótti fyrirtækið verða að sýna fram á, að uppsögn konunnar hafi ekki falið í sér kynjamismun í skilningi laganna. Fyrir lá að í viðkomandi deild hallaði mjög á karlmenn, og fram var komið, að skipulagsbreytingarnar höfðu meiri áhrif á starfssvið konunnar en karlmannsins. Var því fyrirtækið talið hafa sýnt nægilega fram á, að konunni hafi ekki verið mismunað eftir kynferði og var fyrirtækið sýknað. 

Uppsögn vegna kröfu um leiðréttingu
Þá er skv. 20. gr. jafnréttislaga óheimilt að segja starfsmanni upp störfum af þeirri ástæðu að hann hafi krafist leiðréttingar á grundvelli jafnréttislaga. Einnig skal gæta þess að starfsmaður verði ekki beittur óréttlæti i í starfi á grundvelli þess að hafa kært kynferðislega áreitni eða kynjamismunun. 

Segi vinnuveitandi starfsmanni upp störfum sem krafist hefur leiðréttingar á grundvelli jafnréttislaga eða beiti hann öðru óréttlæti, ber hann sönnunarbyrðina fyrir því að uppsögnin eða meint óréttlæti grundvallist ekki á leiðréttingakröfu starfsmanns eða kæru um kynferðislega áreitni eða aðra kynjamismunun.

Það gildir þó ekki ef uppsögnin á sér stað meira en einu ári eftir að starfsmaður setti fram leiðréttingakröfuna, sbr. 3. mgr. 20. gr.  jafnréttislaga.

Sönnun
Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis við uppsögn skal vinnuveitandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 19. gr. jafnréttislaga. 

Dæmi úr réttarframkvæmd
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála 11. nóvember 2015 (10/2015) (DV). Launamunur á uppsagnarfresti. Sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið að baki þeirri tilhögun.                          
Kona taldi vinnuveitandann hafa brotið gegn ákvæðum þágildandi jafnréttislaga nr. 10/2008, við starfslok hennar. Fyrir lá að hún og tveir karlar er hættu störfum á svipuðum tíma, einnig án vinnuskyldu á uppsagnarfresti, nutu ekki sömu kjara við starfslokin þar sem þeir héldu launum á uppsagnarfresti samkvæmt starfslokasamningi sem helgaðist af starfsaldri og sérstökum ástæðum vegna umdeildra breytinga. Hún hafði hins vegar sagt upp störfum og lauk vinnuskyldu hennar þá þegar að eigin ósk. Var því talið  að vinnuveitandinn hefði sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið að baki þeirri tilhögun og því ekki verið um að ræða brot á ákvæðum laganna.

Álit kærunefndar jafnréttismála  2. apríl 2009 (1/2009) (Securitas). Samstarfserfiðleikar.
Ekki sýnt fram á að uppsögnin hefði verið rakin til kynferðis sérstaklega. Kærandi sem var sagt upp störfum við skipulagsbreytingar taldi sig hafa orðið fyrir beinni mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. fengið óhagstæðari meðferð en einstaklingar af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður. Fyrir Kærunefndinni var vísað til þess að ágreiningur kæranda við yfirmann og samstarfsörðugleikar á vinnustað hefðu verið ástæða uppsagnar og lagði félagið fram gögn því til staðfestingar. Þótti því ekki sýnt fram á að uppsögn kæranda hefði verið rakin til kynferðis hennar sérstaklega, heldur yrði hún rakin til framangreindra samstarfsörðugleika.

Álit kærunefndar jafnréttismála 30. júní 2006 (1/2006) (Bautinn). Frammistaða í starfi. Sönnunarmat. Málefnalegar skýringar.
Kærandi taldi vinnuveitandann hafa brotið gegn jafnréttislögum með því að segja sér upp störfum og ráða í þess stað karlmann sem væri ekki hæfari en hún til starfans en fleiri karlmenn gegndu störfum faglærða starfsmanna hjá fyrirtækinu en konur. Af hálfu fyrirtækisins var á því byggt að uppsögn kæranda hafi  tengst störfum hennar. Athugasemdir hefðu verið gerðar við störf hennar, einkum lítinn metnað og neikvæðni, en framkoma hennar hafði valdið samstarfsörðugleikum á vinnustað.

Í áliti kærunefndarinnar kemur fram að vinnuveitendum verði játað frelsi til að taka ákvarðanir á eigin forsendum varðandi ráðningar og uppsagnir starfsmanna. Slíkar  ákvarðanir lúti þó takmörkunum sem meðal annars verða leiddar af ákvæðum jafnréttislaga. Af því leiði að uppsagnir starfsmanna verði ekki taldar fara gegn ákvæðum jafnréttislaga nema að líkur séu taldar á að kynferði viðkomandi starfsmanns hafi verið ástæða þess að gripið sé til uppsagnarinnar. Komi fram aðrar skýringar á uppsögninni, sem teljast málefnalegar og í samræmi við gögn máls eða fyrirliggjandi upplýsingar, leiði það að jafnaði til þess að viðkomandi uppsögn telst ekki fara gegn ákvæðum jafnréttislaga sérstaklega. Fyrirtækið var ekki talið hafa brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga þar sem að skýringar þess þóttu málefnalegar með tilliti til menntunar og starfsferils karlmannsins og aðstæðna fyrirtækisins að öðru leyti. 

Álit kærunefndar jafnréttismála 16. nóvember 2005 (1/2005) (Búr). Aðrar starfsskyldur og önnur viðameiri vinnuskylda.
Kona sem var sagt upp störfum hjá B ehf. taldi uppsögn sína hafa komið í kjölfar þess að hún gerði athugasemdir við að kjör hennar væru önnur og lægri en þess karlkyns starfsmanns sem hún bar sig saman við. Hún taldi B ehf. hafa brotið 14. gr. (nú 6. gr.) jafnréttislaga með því að ákvarða henni lægri laun fyrir jafnverðmætt og sambærilegt starf og þessi tiltekni starfsmaður gegndi svo og 25. gr. (nú 20. gr.)  með því að henni var sagt upp störfum í kjölfar framangreindra athugasemda sinna. Þar sem karlinn hafði aðrar starfsskyldur og aðra og víðameiri vinnuskyldu þótti ekki sýnt fram á að störfin teldust sambærileg og ekkert benti til þess að kynferði væri forsenda uppsagnarinnar var niðurstaða kærunefndarinnar að B ehf. hefði ekki brotið gegn jafnréttislögum.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.