Fjölskylduábyrgð

Samkvæmt lögum um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna, nr. 27/2000 er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber. Þar er átt við skyldur starfsmanns gagnvart börnum, maka eða nánum skyldmennum sem búa á heimili hans og greinilega þarfnast umönnunar hans eða forsjár, svo sem vegna veikinda eða fötlunar.  

Til að um fjölskylduábyrgð starfsmanns geti verið að ræða í samkvæmt lögunum verða þrjú meginskilyrði að vera fyrir hendi:
1) Fjölskylda - ákvæðið nær einungis til skyldu gagnvart ósjálfráða börnum, maka eða nánum skyldmennum starfsmannsins. Þannig falla t.d. hvorki undir ákvæðið skyldur starfsmannsins gagnvart sjálfráða afkomendum sem náð hafa 18 ára aldri né heldur gagnvart skyldmennum maka starfsmannsins.
2) Heimili - viðkomandi þarf að búa á heimili starfsmannsins
3) Umönnun eða forsjá - viðkomandi þarf að þarfnsst umönnunar starfsmannsins sjálfs eða forsjár svo sem vegna veikinda, fötlunar eða sambærilegra aðstæðna

Allir þessir þrír þættir þurfa að vera fyrir hendi til að starfsmaður teljist bera fjölskylduábyrgð gagnvart viðkomandi einstaklingi í skilningi laganna og byggist ákvæðið því á þröngri skilgreiningu hugtaksins.  

Ákvæðið er þröngt
Lögin voru sett vegna fullgildingar samþykktar ILO nr. 156 um starfsmenn með fjölskylduábyrgð. Í skýringum með frumvarpinu að lögunum kemur fram að höfð hafi verið hliðsjón af samþykktinni og einnig að í gögnum ILO komi fram að vilji ráðstefnunnar sem afgreiddi samþykktina hafi verið að þrengja ákvæðið eins mikið og mögulegt væri, þannig að það takmarkist við þau tilvik þegar þörfin er mest þar sem umönnun sem starfsmaðurinn veitir sé í þeim mæli að hún mundi hafa alvarleg áhrif á starfsmöguleika hans.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.