Uppgjör launa við starfslok

Þegar starfsmaður lætur af störfum hjá vinnuveitanda, hvort sem er með samkomulagi eða við lok uppsagnarfrests, þarf að gera upp laun, uppbætur og áunnið orlof. 

Ef ágreiningur hefur verið um launamál getur verið skynsamlegt að ganga frá formlegu samkomulagi um starfslok þar sem fram kemur hvaða greiðslur eru inntar af hendi við starfslokin og að hvorugur aðili eigi frekari kröfur á hinn vegna starfslokanna. 

LAUNAGREIÐSLUR

Við starfslok eru ávallt gerð upp öll laun starfsmannsins, miðað við vinnu hans sem þegar er óuppgerð. 

Hafi vinnuveitandi afþakkað vinnuframlag starfsmanns á uppsagnarfresti og starfsmaðurinn aflað sér tekna frá öðrum vinnuveitanda kann að vera heimilt að draga þau laun frá við uppgjör launa á uppsagnarfresti. Sjá nánar umfjöllun um framkvæmd uppsagna / vinnuframlag afþakkað og riftun / bætur vegna riftunar.

ORLOF

Eigi starfsmaður inni ótekið orlof hjá vinnuveitanda ber að greiða það út við starfslok, skv. 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987. Lágmarksorlof er 10,17% af öllu kaupi, hvort sem er af dagvinnu eða yfirvinnu. Í kjarasamningum er kveðið á um aukið orlof á grundvelli starfsaldurs í fyrirtæki eða starfsgrein og þarf að gæta þeirra ákvæða. Sjá umfjöllun um lengd orlofs eða í kjarasamningum

Starfsmaður heldur launum í orlofi / fær greidd orlofslaun í orlofi
Sé orlof ekki greitt á orlofsreikning og áunnið orlof ekki tiltekið á launaseðli, verður að reikna út áunnar orlofsgreiðslur til starfsmanns fyrir hvern unninn mánuð. Sjá umfjöllun um útreikning orlofslauna.  

Orlof greitt inn á orlofsreikning
Mörg fyrirtæki hafa hins vegar þann háttinn á að greiða orlof, sem starfsmaður ávinnur sér, mánaðarlega inn á orlofsreikning, skv. heimild í orlofslögum og samningi við viðkomandi innlánsstofnun. Þá fær starfsmaðurinn inneignina greidda þegar innistæðan verður laus til útborgunar, venjulega í maí. Vinnuveitandi hefur þá uppfyllt sínar skyldur gagnvart starfsmanninum varðandi orlofslaun. 

Orlof af yfirvinnu á orlofsreikning
Einnig er það þekkt að fyrirtæki greiði strax út orlofslaun vegna yfirvinnu inn á orlofsreikning starfsmannsins, en geymi orlof af dagvinnu þar til orlof/frí er tekið. Í þeim tilvikum greiðast áunnir dagar við uppgjör orlofslauna.

Orlofslaun reiknast ekki af greiddri desemberuppbót eða orlofsuppbót.

UPPBÆTUR

Tvenns konar uppbætur eru í flestum kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins, orlofsuppbót og desemberuppbót. 

Orlofsuppbót
Láti starfsmaður af störfum vegna aldurs eða eftir 12 vikna samfellt starf á orlofsárinu, skal hann við starfslok fá greidda orlofsuppbót vegna áunnins tíma m.v. starfshlutfall og starfstíma. Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl næsta árs. 

Upphæð orlofsuppbótar er föst tala fyrir hvert ár m.v. fullt starf allt orlofsárið. Þá er miðað við 45 unnar vikur á ári, þ.e. orlofsvikur og annað frí er ekki talið með, utan lögbundins fæðingarorlofs og greiddra veikinda. Sjá upplýsingar um útreikning orlofsuppbótar og fjárhæð þeirra eftir starfsgreinum.

Desemberuppbót
Starfsmaður sem lætur af störfum á árinu vegna aldurs eða eftir 12 vikna samfellt starf á almanaksárinu hjá sama vinnuveitanda, skal við starfslok fá greidda desemberuppbót miðað við starfstíma og starfshlutfall á árinu. 

Upphæð desemberuppbótar er föst tala fyrir hvert ár m.v. fullt starf allt árið. Þá er miðað við 45 unnar vikur á ári, þ.e. orlofsvikur og annað frí er ekki talið með, utan lögbundins fæðingarorlofs og greiddra veikinda. Sjá upplýsingar um útreikning desemberuppbótar og fjárhæð þeirra eftir starfsgreinum.  

FRÍTÖKURÉTTUR

Hafi starfsmaður áunnið sér frítökurétt á grundvelli ákvæða kjarasamninga um lágmarkshvíld ber að gera hann upp við starfslok og telst hann til ráðningartíma. Reikna skal orlof af þeim hluta frítökuréttar sem greiddur er út eins og af öðrum launum. Sjá nánar umfjöllun um hvíldartíma

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.