Það er ekki útilokað að semja við starfsmenn um að viðhalda eldra kerfi og greiða áfram 40 stundir á viku í stað 37 virkra stunda. Það getur helst átt við þar sem:
- Ekki stendur til að fella niður kaffitíma,
- Iðnaðarmenn eru lítill hluti starfsmanna og atvinnurekandi vill hafa samræmda tímaskráningu eða
- Vandamál fylgja virkum vinnutíma vegna tímaskráningar í útseldri vinnu
Þar sem upptaka virks vinnutíma hefur ekki áhrif á vinnutíma eða launakjör starfsmanna þá er mögulegt fyrir atvinnurekanda að tilkynna einhliða um frestun.
Sjá hér drög að tilkynningu um frestun virks vinnutíma.
Mælt er með því að frestun sé gerð í góðu samstarfi við starfsmenn og getur verið heppilegt að gera sérstakt samkomulag um frestunina.
Samkomulag gæti t.d. hljóðað svo:
„Samkomulag er milli (nafn fyrirtækis) og undirritaðra starfsmanna að fresta upptöku „virks vinnutíma“ sem tók gildi skv. kjarasamningi 1. apríl 2020.
- Greiddar verða 40 klst. í dagvinnu á viku m.v. fullt starf í stað 37 klst.
- Kaffihlé í dagvinnu verða áfram greidd eins og verið hefur.
- Sérstök hækkun tímakaups vegna upptöku virks vinnutíma kemur því ekki til framkvæmda
- Deilitala dagvinnutímakaups verður áfram 173,33
- Yfirvinna verður greidd fyrir vinnu umfram 40 klst. á viku að jafnaði
Fyrirtækið mun tilkynna starfsmönnum með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara ef tekinn verður upp „virkur vinnutími“ í stað ofangreindar tímaskriftar.“
Gæta verður að nokkrum liðum:
- Verkfæra- og fatapeningar skv. kjarasamningi miðast frá 1. apríl 2020 við 37 klst. á viku í stað 40 og hafa þ.a.l. verið hækkaðir um 8,33% eins og tímakaup.
- Bakvaktir eru greiddar sem hlutfall af dagvinnulaunum og því hækkar greiðsla fyrir bakvaktir þegar deilitala dagvinnutímakaups fer úr 173,33 í 160. Hrinda ber þeirri hækkun í framkvæmd þótt virkur vinnutími sé að öðru leyti ekki tekinn upp.
- Samhljóða ákvæði þurfa að vera í ráðningarsamningum starfsmanna sem síðar hefja störf.
Ef einnig á að fresta upptöku yfirvinnu 1 og 2 er rétt að gera samning sem byggir á 5. kafla kjarasamnings. Þá ber samningur heitið „fyrirtækjasamningur“ og fram kemur í inngangi að hann sé gerður á grundvelli 5. kafla kjarasamnings milli SA og hlutaðeigandi stéttarfélaga.
Sjá form að fyrirtækjasamningi um frestun á virkum vinnutíma og yfirvinnu 1 og 2.
Mælt er með því að fyrirtæki leiti eftir aðstoð lögfræðinga vinnumarkaðssviðs SA ef það hyggst gera fyrirtækjasamning við starfsmenn.