Virkur vinnutími iðnaðarmanna 1. apríl 2020

Í kjarasamningum SA og félaga iðnaðarmanna er kveðið á um breytta skilgreiningu greidds vinnutíma. Í stað þess að greiða 8 klst. á dag og 40 klst. á viku er frá 1. apríl 2020 einungis greitt fyrir „virkan vinnutíma“. Greiðsla fyrir kaffitíma á dagvinnutímabili fellur niður og tímakaup í dagvinnu hækkar á móti.

Það þýðir að greiddar verða 7,4 klst. á dag og 37 klst. á viku m.v. fullt starf en laun á dag og viku jafngilda því sem starfsmaður fékk áður fyrir 8 klst. á dag og 40 klst. á viku. Tímakaup í dagvinnu hækkar um 8,33% til að mæta fækkun greiddra tíma.

Í þessu excel skjali má reikna hækkun tímakaups í dagvinnu og yfirvinnu frá 1. apríl 2020 m.v. virkan vinnutíma og yfirvinnu 1 og 2.

Upptaka virks vinnutíma hefur engin áhrif á vinnudag starfsmanna, matar- og kaffitíma og mánaðarlaun breytast ekki (eða lítið).

Sjá um vinnutímastyttingu iðnaðarmanna 2022 hér

Hvað er virkur vinnutími?

Úr kjarasamningum iðnaðarmanna:

Virkur vinnutími telst sá tími sem starfsmaður er við störf. Dagleg viðvera á vinnustað er virkur vinnutími að viðbættum hléum frá vinnu.

Virkur vinnutími er með öðrum orðum vinnudagur starfsmanns að frádregnum matar- og kaffitímum.

Virkur vinnutími skv. gildandi kjarasamningum (þ.e. fram að 1. apríl 2020) er 37 klst. og 5 mín. á viku eða 7 klst. og 25 mín. á dag. Kaffihlé í dagvinnu eru launuð ólíkt hádegismatarhléi og því er greiddur tími 40 klst. á viku eða 8 klst. á dag.

Frá og með 1. apríl 2020 er virkur vinnutími skv. kjarasamningum iðnaðarmanna 37 klst. Það er 5 mín. skemmri virkur vinnutími á viku en áður hefur gilt en ætti ekki að breyta neinu á vinnustöðum.

Af hverju að miða við virkan vinnutíma?

Í ríkjum OECD er vinnutími mældur út frá virkum vinnutíma og við samanburð á vinnutíma milli Íslands og annarra landa hefur 40 klst. vinnuvika á Íslandi verið borin saman við virkan vinnutíma í öðrum löndum. Það er stefna SA að sömu skilgreiningar á vinnutíma verði teknar upp á Íslandi og í öðrum löndum.

Órökrétt er einnig að gera greinarmun á hléum frá vinnu eftir því hvort þau eru tekin um hádegi (launalaust) eða á öðrum tíma yfir dagvinnutímabilið.  

Hvað breytist 1. apríl 2020?

Frá 1. apríl 2020 verður einungis greitt fyrir virkan vinnutíma í dagvinnu. Greiðsla fyrir kaffitíma fellur inn í tímakaup starfsmanns fyrir virkan vinnutíma og hækkar því tímakaup í dagvinnu um 8,33%.

Í stað 8 klst. á dag m.v. fullt starf verða greiddar 7,4 klst.

Í stað 40 klst. á viku m.v. fullt starf verða greiddar 37 klst.

Dæmi:

Tímakaup starfsmanns hefur verið kr. 2.500 /klst. Hann vinnur að jafnaði 8 klst. á dag og 40 klst. á viku í dagvinnu. Vikukaup því kr. 100.000 (40 x kr. 2.500). Þann 1. apríl hækkar tímakaup um 8,33% og verður því kr. 2.708,25 en með upptöku virk vinnutíma er það greitt í 37 klst. á viku í stað 40 klst. Vikukaup frá 1. apríl verður því kr. 100.205 (37 x 2.708,25). Ofan á vikukaup leggst svo umsamin launahækkun skv. kjarasamningi, sjá að neðan.

Ef starfsmaður fær greidd mánaðarlaun þá breytast þau ekki með upptöku virks vinnutíma.

Upptaka „virks vinnutíma“ hefur engin áhrif á vinnudag starfsmanna eða kaffitíma þeirra. Hér er um kerfisbreytingu að ræða sem hefur áhrif á skráningu greidds vinnutíma á dag og viku.

Hvernig verður tímaskrift fyrir vinnudaginn?

Eins og fram kemur hér að framan hefur upptaka virks vinnutíma ENGIN áhrif á vinnudag starfsmanna eða neysluhlé og laun fyrir vinnudaginn verða þau sömu og áður. Yfirvinna hefst EKKI fyrr en áður, nema þá að samkomulag sé gert samhliða um niðurfellingu kaffitíma, þ.e. starfsmenn vinni samfellt í stað þess að taka kaffitíma.

Hér eru dæmi um tímaskrift fyrir og eftir (einni mínútu bætt við kaffitíma á dag þar sem virkur vinnutími á viku verður 37 klst. í stað 37 klst. og 5 mín.):

Dæmi 1: Kaffitímar teknir, 36 mín. á dag og 30 mín. hádegishlé

Tímaskrift fyrir:

08:00 – 12:00    Dagvinna                                      
12:00 – 12:30    Hádegishlé (ólaunað)
12:30 – 16:30    Dagvinna
16:30 -                Yfirvinna

Greiddar 8 klst. í dagvinnu

Tímaskrift eftir:

08:00 – 12:00    Dagvinna                                      
12:00 – 12:30    Hádegishlé (ólaunað)
12:30 – 16:30    Dagvinna
16:30 -                Yfirvinna

 Greiddar 7,4 klst. í dagvinnu

 

Dæmi 2: Kaffihlé tekið fyrir hádegi, 21 mín. og 30 mín. hádegishlé

Tímaskrift fyrir:

08:00 – 12:00    Dagvinna                                      
12:00 – 12:30    Hádegishlé (ólaunað)
12:30 – 16:15    Dagvinna (+15 mín.)
16:15 -                Yfirvinna

Greiddar 8 klst. í dagvinnu

Tímaskrift eftir:

08:00 – 12:00    Dagvinna                                      
12:00 – 12:30    Hádegishlé (ólaunað)
12:30 – 16:15    Dagvinna
16:15 -                Yfirvinna

Greiddar 7,4 klst. í dagvinnu

 

Dæmi 3: Ekkert kaffihlé tekið (hefur verið þannig í fyrirtæki) og 30 mín. hádegishlé

Tímaskrift fyrir:

08:00 – 12:00    Dagvinna                                      
12:00 – 12:30    Hádegishlé (ólaunað)
12:30 – 15:55    Dagvinna (+35 mín.)
15:55 -                Yfirvinna

Greiddar 8 klst. í dagvinnu

Tímaskrift eftir:

08:00 – 12:00    Dagvinna                                      
12:00 – 12:30    Hádegishlé (ólaunað)
12:30 – 15:54    Dagvinna
15:54 -                Yfirvinna

Greiddar 7,4 klst. í dagvinnu

 

Dæmi 4: Kaffihlé felld niður, 35 mín. á dag, og vinnutímastytting í 36 klst. virkar á viku. (vinnutímastytting tekin út dag hvern) 30 mín. hádegishlé

Tímaskrift fyrir:

08:00 – 12:00    Dagvinna                                      
12:00 – 12:30    Hádegishlé (ólaunað)
12:30 – 16:30    Dagvinna
16:30 -                Yfirvinna

Greiddar 8 klst. í dagvinnu

Tímaskrift eftir:

08:00 – 12:00    Dagvinna                                      
12:00 – 12:30    Hádegishlé (ólaunað)
12:30 – 15:42    Dagvinna
15:42 -                Yfirvinna

Greiddar 7,2 klst. í dagvinnu

 

Hver er ný deilitala dagvinnutímakaups og hvaða áhrif hefur hún?

Dagvinnutímakaup hefur til þessa fundið með því að deila með 173,33 í mánaðarlaun fyrir dagvinnu. Þessi tala miðast við 40 klst. í dagvinnu á viku margfaldað með 4,333 til að finna út mánuðinn.

Frá og með 1. apríl 2020 verður deilitalan 160 enda frá þeim tíma miðað við 37 klst. á viku en ekki 40.

Gæta þarf að því að þessi nýja og lægri deilitala er einungis í kjarasamningum iðnaðarmanna!

Þegar mánaðarlaun fyrir dagvinnu hækka 1. apríl 2020 um kr. 18.000 hjá þeim sem eru á launum yfir lágmarkstaxta (taxtar kjarasamnings hækka meira, þ.e. um kr. 24.000) þá jafngildir það kr. 112,50 á klst. (18.000 / 160). Þessi krónutala kemur ofan á nýtt tímakaup sem hafði verið hækkað um 8,33% vegna upptöku virks vinnutíma.

Hvernig framkvæmi ég launahækkunina 1. apríl 2020?

Þann 1. apríl 2020 hækkar tímakaup vegna upptöku virks vinnutíma sem og á grundvelli samningsbundinnar launabreytingar.

  • Tímakaup í dagvinnu hækkar um 8,33% í tengslum við upptöku virks vinnutíma. Þessi hækkun dagvinnutímakaups hefur ekki áhrif á yfirvinnutímakaup.
  • Umsamin launabreyting skv. kjarasamningi gildir frá 1. apríl 2020. Almenn hækkun mánaðarlauna er kr. 18.000 (kr. 112,50 / klst. m.v. nýja deilitölu 160) en lágmarkskauptaxtar kjarasamninga hækka meira eða um kr. 24.000 (sjá uppfærða lágmarkskauptaxta í kaupgjaldaskránni hér á vinnumarkaðsvefnum en taxtahækkun er kr. 150 /klst.)

Hækkun tímakaups þann 1. apríl 2020 má einnig reikna með eftirfarandi hætti:

  • Reikna mánaðarlaun starfsmanns fyrir hækkun, þ.e. margfalda tímakaup með 173,33.
  • Leggja kr. 18.000 ofan á mánaðarlaunin.
  • Deila með 160 til að finna nýtt tímakaup
  • Gæta svo að því að greiða nýja tímakaupið í 37 klst. á viku í stað 40 klst.

Ef starfsmaður tekur laun skv. kauptaxta kjarasamnings hækka mánaðarlaun um kr. 24.000. Nýr tímakaupstaxti skv. kaupgjaldsskrá SA miðast við 160 stundir greiddar á mánuði.

 

Hvað með kaffitíma í yfirvinnu?

Neysluhlé í yfirvinnu verða áfram greidd.

Hvaða áhrif hefur „virkur vinnutími“ á yfirvinnukaup?

Upptaka virks vinnutíma hefur engin áhrif á yfirvinnutímakaup starfsmanna. Atvinnurekandi þarf hins vegar að gæta að því að hlutföll milli dagvinnutímakaups og yfirvinnutímakaups breytast. Gamla góða 80% hlutfallið er liðin tíð hjá iðnaðarmönnum, ekki einungis vegna upptöku virks vinnutíma heldur einnig vegna upptöku yfirvinnu 1 og 2 hjá iðnaðarmönnum. Sjá nánar um yfirvinnu 1 og 2 í spurt og svarað.

Hvaða áhrif hefur „virkur vinnutími“ í vaktavinnu?

Virkur vinnutími hefur einnig áhrif á greidda tíma í vaktavinnu auk þess sem vaktakaup hækkar.

Greiddar verða 37 klst. í vaktavinnu á viku í stað 40 klst. áður.

Fyrir 8 klst. vakt verða greiddar 7,4 stundir í stað 8 klst.

Fyrir 12 klst. vakt verða greiddar 11,14 klst. í stað 12 klst. Gæta þarf að því að hjá starfsmanni á „kokkavöktum“ þá er hluti þessara 11,14 klst. yfirvinna. Dagvinnuhlutinn er 10,57 klst. (37 klst. / 3,5 vaktir að meðaltali á viku).

Hvaða áhrif hefur „virkur vinnutími“ á bakvaktir?

Upptaka virks vinnutíma hefur þau áhrif að deilitala dagvinnutímakaups fer úr 173,33 í 160. Það þýðir að tímakaup á bakvöktum hækkar um 8,33% án þess þó að tímum fækki sjálfkrafa á móti. Laun fyrir bakvaktir hækka því að öllu óbreyttu um 8,33% þann 1. apríl 2020 til viðbótar við samningsbundna hækkun launa.

Hvernig tengist „virkur vinnutími“ vinnutímastyttingunni?

Gera verður skýran greinarmun á upptöku virks vinnutíma og möguleikanum á vinnutímastyttingu skv. 5. kafla kjarasamninga iðnaðarmanna.

Upptaka virks vinnutíma breytir í engu vinnudegi starfsmanna eða kaffitímum þeirra. Það felst því engin vinnutímastytting í upptöku virks vinnutíma.

Það er svo sjálfstætt mál ef atvinnurekandi og starfsmenn kjósa að semja um vinnutímastyttingu samhliða niðurfellingu kaffitíma. Um þann þátt er fjallað í almennu kynningarefni SA vegna nýrra kjarasamninga.

Hvað ef kaffitímar hafa þegar verið felldir niður hjá starfsmönnum?

Á mörgum vinnustöðum hefur þegar verið samið um niðurfellingu kaffitíma á dagvinnutímabili. Algeng er að síðdegiskaffitími sé ekki tekinn og hætta þá starfsmenn fyrr sem því nemur. Einnig eru dæmi um að báðir kaffitímar dagsins hafi verið felldir niður og unnið samfellt yfir daginn að frátöldu hádegishléi.

Í þessum tilvikum er almennt miðað við að greiddar séu samt sem áður 8 klst. í dagvinnu á dag og 40 klst. á viku. Þessi tímafjöldi breytist og verður 7,4 klst. á dag og 37 klst. á viku.

Ef einhver önnur útfærsla er í gangi í fyrirtæki, t.d. tímaskrift í samræmi við virkan vinnutíma, þá verða litlar eða engar breytingar. Við mat á því þarf að hafa í huga að upptaka virks vinnutíma felur ekki í sér launahækkun fyrir unninn tíma og því ættu einhver frávik frá tímaskrif skv. kjarasamningi að sama skapi ekki að leiða til launakostnaðarauka fyrir atvinnurekanda.

Úr kjarasamningi iðnaðarmanna:

Ef færri tímar eru greiddir á viku / mánuði m.v. fullt starf skal reikna hækkun þannig að dagvinnulaun fyrir 37 klst. á viku / 160 klst. á mánuði verði þau sömu og áður var greitt fyrir fleiri tíma. 

Hvað ef kaffitími í mínu fyrirtæki er lengri en skv. kjarasamningi?

Ekki er óalgengt að kaffitímar í fyrirtækjum séu eitthvað lengri en réttur er til skv. kjarasamningi. Kaffitími í dagvinnu er samtals 35 mín. á dag skv. kjarasamningi og það er greiðsla fyrir þessar 35 mín. sem fellur niður þann 1. apríl 2020 gegn 8,33% hækkun dagvinnutímakaups. Vinnuveitandi greiðir því 7,4 klst. á dag (7 klst. og 24 mín.) eftir breytingu þótt virkur vinnutími í raun sé eitthvað styttri vegna lengri kaffitíma.

Lengri kaffitímar en skv. kjarasamningi gefur hins vegar tilefni til að skoða skipulag vinnu og verkstjórn. Verulegir hagsmunir geta verið fyrir atvinnurekanda, ef hann telur forsendur til staðar, að taka upp viðræður við starfsmenn um niðurfellingu kaffitíma, sbr. ákvæði nýrra kjarasamninga um vinnutímastyttingu.

Hvaða áhrif hefur „virkur vinnutími“ á orlofsávinnslu og -úttekt?

Laga getur þurft orlofsávinnslu starfsmanns til að samræma við virkan vinnutíma. Það á fyrst og fremst við þar sem launakerfi reiknar orlofsávinnslu í klukkustundum.

Starfsmaður með 30 daga orlofsrétt á t.d. 240 (30 x 8) stundir í orlof m.v. fullt ársstarf á liðnu orlofsári. Ef launakerfið dregur hins vegar frá 7,4 stundir fyrir hvern orlofsdag á komandi orlofsári þá er enn 18 klst. óráðstafað þegar starfsmaður hefur tekið út full orlof (240 –(7,4 x 30)).

Það er hins vegar ljóst að upptaka virks vinnutíma felur ekki í sér lengingu orlofs. Því getur þurft að leiðrétta orlofsávinnsluna í launakerfinu.

Má sleppa því að taka upp virkan vinnutíma?

Það er ekki útilokað að semja við starfsmenn um að viðhalda eldra kerfi og greiða áfram 40 stundir á viku í stað 37 virkra stunda. Það getur helst átt við þar sem:

  • Ekki stendur til að fella niður kaffitíma,
  • Iðnaðarmenn eru lítill hluti starfsmanna og atvinnurekandi vill hafa samræmda tímaskráningu eða
  • Vandamál fylgja virkum vinnutíma vegna tímaskráningar í útseldri vinnu

Þar sem upptaka virks vinnutíma hefur ekki áhrif á vinnutíma eða launakjör starfsmanna þá er mögulegt fyrir atvinnurekanda að tilkynna einhliða um frestun. 

Sjá hér drög að tilkynningu um frestun virks vinnutíma.

Mælt er með því að frestun sé gerð í góðu samstarfi við starfsmenn og getur verið heppilegt að gera sérstakt samkomulag um frestunina.

Samkomulag gæti t.d. hljóðað svo:

„Samkomulag er milli (nafn fyrirtækis) og undirritaðra starfsmanna að fresta upptöku „virks vinnutíma“ sem tók gildi skv. kjarasamningi 1. apríl 2020.

  • Greiddar verða 40 klst. í dagvinnu á viku m.v. fullt starf í stað 37 klst.
  • Kaffihlé í dagvinnu verða áfram greidd eins og verið hefur.
  • Sérstök hækkun tímakaups vegna upptöku virks vinnutíma kemur því ekki til framkvæmda
  • Deilitala dagvinnutímakaups verður áfram 173,33
  • Yfirvinna verður greidd fyrir vinnu umfram 40 klst. á viku að jafnaði

Fyrirtækið mun tilkynna starfsmönnum með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara ef tekinn verður upp „virkur vinnutími“ í stað ofangreindar tímaskriftar.“

Gæta verður að nokkrum liðum:

  • Verkfæra- og fatapeningar skv. kjarasamningi miðast frá 1. apríl 2020 við 37 klst. á viku í stað 40 og hafa þ.a.l. verið hækkaðir um 8,33% eins og tímakaup.
  • Bakvaktir eru greiddar sem hlutfall af dagvinnulaunum og því hækkar greiðsla fyrir bakvaktir þegar deilitala dagvinnutímakaups fer úr 173,33 í 160. Hrinda ber þeirri hækkun í framkvæmd þótt virkur vinnutími sé að öðru leyti ekki tekinn upp.
  • Samhljóða ákvæði þurfa að vera í ráðningarsamningum starfsmanna sem síðar hefja störf.

Ef einnig á að fresta upptöku yfirvinnu 1 og 2 er rétt að gera samning sem byggir á 5. kafla kjarasamnings. Þá ber samningur heitið „fyrirtækjasamningur“ og fram kemur í inngangi að hann sé gerður á grundvelli 5. kafla kjarasamnings milli SA og hlutaðeigandi stéttarfélaga.

Sjá form að fyrirtækjasamningi um frestun á virkum vinnutíma og yfirvinnu 1 og 2.

Mælt er með því að  fyrirtæki leiti eftir aðstoð lögfræðinga vinnumarkaðssviðs SA ef það hyggst gera fyrirtækjasamning við starfsmenn.

Getum við einnig látið virkan vinnutíma gilda fyrir aðra hópa?

Það má vel semja við aðra hópa starfsmanna fyrirtækis um að taka upp virkan vinnutíma. Samningur þar um þarf að vera skýr og heppilegast að gera „fyrirtækjasamning“ sem byggir á 5. kafla kjarasamnings SA og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Samningur gæti t.d. hljóðað svo:

„(Nafn fyrirtækis) hefur tekið upp svokallaðan „virkan vinnutíma“ hjá starfsmönnum sem aðild eiga að stéttarfélögum iðnaðarmanna. Til að auðvelda framkvæmd tímaskriftar innan fyrirtækisins er samkomulag um milli (nafn fyrirtækis) starfsmanna sem undir þennan samning falla að taka upp „virkan vinnutíma“ frá og með xx (dagsetning) með sama hætti og samið hefur verið um í kjarasamningum iðnaðarmanna. Það felur í sér:

  • Greiddar verða 37 klst. í dagvinnu á viku m.v. fullt starf í stað 40 klst.
  • Greiðsla fyrir kaffihlé á dagvinnutímabili skv. kjarasamningi, 35 mín. á dag, fellur niður og verður hluti hærra tímakaups.
  • Tímakaup hækkar xxx (dagsetning) um 8,33% eða sem nemur greiðslu fyrir kaffitíma sem færist yfir í tímakaup fyrir virkan vinnutíma
  • Deilitala dagvinnutímakaups verður 160
  • Yfirvinna verður greidd fyrir vinnu umfram 37 klst. virkar vinnustundir á viku
  • Hækkun dagvinnutímakaups skv. ofangreindu hefur ekki áhrif á tímakaup í yfirvinnu.

Fyrirtækjasamningur þessi er gerður á grundvelli 5. kafla kjarasamnings SA og (heiti stéttarfélags / -félaga) og nær til allra starfsmanna sem undir þann kjarasamning falla.“

Gæta þarf að því að vísa til fyrirtækjasamningsins í ráðningarsamningum starfsmanna sem síðar hefja störf.

Mælt er með því að  fyrirtæki leiti eftir aðstoð lögfræðinga vinnumarkaðssviðs SA ef það hyggst gera fyrirtækjasamning við starfsmenn.

 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.