Fæðingarorlofsrétturinn er sjálfstæður réttur hvors foreldris í allt að sex mánuði. Foreldri er heimilt að framselja sex vikur af sjálfstæðum rétti sínum til hins foreldrisins.
Fjölburar
Foreldrar eiga sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði fyrir hvert barn umfram eitt sem fæðist á lífi. Sama gildir um ættleiðingu og töku barna í varanlegt fóstur.
Foreldri sem fætt hefur barn á vera í orlofi a.m.k. tvær vikur
Foreldri sem fætt hefur barn á skv. fæðingarorlofslögum að vera í fæðingarorlofi a.m.k. fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns. Í úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála 29. janúar 2015 (23/2014) var fæðingarorlof móður sem hafði ekki skráð sig í fæðingarorlof fyrstu tvær vikurnar eftir barnsburð skert sem því nam.
Veikindi eða fötlun barns
Heimilt er að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði ef um er að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefst nánari umönnunar foreldris. Fæðingarorlofssjóður metur hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg, sbr. 19. gr. fæðingarorlofslaga.
Til þess að foreldri öðlist rétt samkvæmt ákvæðinu þarf að vera um að ræða alvarlegan sjúkleika barns í þeim skilningi að annað hvort sé um meðfæddan sjúkdóm að ræða eða alvarlegar afleiðingar fæðingar fyrir tímann, á þann hátt að hinn meðfæddi sjúkdómur eða afleiðingar fæðingar fyrir tímann, valdi því að barnið krefjist nánari umönnunar foreldris, sbr. úrskurður úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála 14. desember 2013 (80/2012).
Veikindi foreldris í tengslum við fæðingu barns
Ef foreldri er ófær um að annast barn sitt vegna veikinda í tengslum við fæðingu að mati sérfræðilæknis er heimilt að framlengja fæðingarorlof foreldris um allt að tvo mánuði, sbr. 1. mgr. 17. gr. fæðingarorlofslaga.
Veikindi á meðgöngu
Ef barnshafandi foreldri er nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að mati sérfræðilæknis að leggja niður launuð störf eða hætta þátttöku á vinnumarkaði meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skal hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns fellur heimild til lengingar niður frá þeim tíma, sbr. 1. mgr. 17. gr. fæðingarorlofslaga.
Sjá nánar 9. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði en þar er tiltekið að með heilsufarsástæðum sé átt við sjúkdóma sem:
a) koma upp vegna meðgöngu og valda óvinnufærni,
b) tímabundna eða langvarandi sjúkdóma sem versna á meðgöngu og valda óvinnufærni,
c) fyrirbyggjandi meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda valdi meðferðin óvinnufærni.
Rökstyðja þarf þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis.
Auk þess skal umsækjandi um lengingu á fæðingarorlofi leggja fram vottorð vinnuveitanda um leyfið ásamt rökstuðningi vinnuveitanda fyrir ástæðum þess.
Andvanafæðing og fósturlát
Fæðist barn andvana eftir 22 vikna meðgöngu eiga foreldrar sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað. Sé um að ræða fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu eiga foreldrar sameiginlega rétt á fæðingarorlofi í allt að tvo mánuði frá þeim degi er fósturlátið á sér stað, sbr. 1. mgr. 21. gr. fæðingarorlofslaga.
Um önnur tilvik vísast til fæðingarorlofslaga og heimasíðu Fæðingarorlofssjóðs.