Með yfirborgun er hér átt við greiðslu umfram lágmarkstaxta kjarasamnings. Semja má um yfirborgun með ýmsum hætti:
Hærri mánaðarlaun
Algengast er að samið sé um hærri mánaðarlaun en kjarasamningur kveður á um. Mánaðarlaun eru þá ákveðin sem ein upphæð, t.d. kr. 350.000.
Yfirvinnukaup væri þá reiknað af mánaðarlaunum (kr. 350.000) nema sérstaklega hafi verið samið um annað í ráðningarsamningi. Ef yfirvinna eða aðrar greiðslur eiga að vera hluti mánaðarlauna skal það koma fram í ráðningarsamningi.
Greiðsla ofan á taxtalaun
Einnig er algengt að samið sé um tiltekna greiðslu til viðbótar taxtalaunum skv. kjarasamningi eða öðrum umsömdum taxta. Þessi greiðsla er þá nefnd yfirborgun, persónuuppbót, launauppbót eða annað á launaseðli.
Hafa verður í huga að kauptaxtar kjarasamninga taka stundum sérstökum hækkunum umfram almennar launahækkanir. Þá getur komið upp sú staða að taxti, sem ráðningarsamningur vísar til, hækkar mikið án þess að atvinnurekanda sé heimilt að lækka yfirborgun á móti nema að undangenginni uppsögn. Hann gæti þá setið uppi með mikla hækkun launa þótt heildarlaun (taxti + yfirborgun) séu mun hærri en sem nemur nýja taxtanum.
Yfirborgun felld inn í dagvinnulaun og samið sérstaklega um yfirvinnukaup
Í mörgum fyrirtækjum er dagvinnulaunum skipt upp í taxta og yfirborgun til að draga úr kostnaði vegna yfirvinnu.
Þar sem tilhneiging er til að færa taxta kjarasamninga nær greiddu kaupi hefur reynst betur að fella yfirborgunina inn í dagvinnulaun og semja jafnframt sérstaklega um yfirvinnukaupið í ráðningarsamningi. Í ráðningarsamningnum er þá tekið fram að mánaðalaun fyrir dagvinnu að meðtalinni yfirborgun séu t.d. kr. 350.000 og að yfirborgun myndi ekki stofn fyrir útreikning yfirvinnu og vaktaálags ef það á við. Yfirvinna greiðist með kr. xxx. Þetta hefur einnig þann kost að raunveruleg dagvinnulaun verða sýnilegri.
Varað er sérstaklega við því að ákveða yfirborgun sem ákveðna prósentu á taxtalaun. Slíkt fyrirkomulag veldur vandkvæðum þegar launataxtar hækka sérstaklega umfram almennar hækkanir þar sem yfirborgunin hækkar þá í samræmi við hækkun launataxtans.
Gera má ráð fyrir því að við gerð kjarasamninga verði áfram gerð krafa um það af hálfu stéttarfélaga að hækka taxta meira en greitt kaup. Æskilegra er því að yfirborgun sé ákveðin krónutala í stað prósentuhlutfalls.