Vinna við tölvu og sjónvernd

Um vinnu við tölvu og sjónvernd gilda reglur nr. 498/1994 um skjávinnu. Um skjávinnu er einnig fjallað í leiðbeiningariti Vinnueftirlits nr. 14 Vinna við tölvu.

Verkstöð

Allt nánasta vinnuumhverfi starfsmanns sem vinnur við skjá, s.s. tölvan sjálf, mús, prentari, stóll og borð, kallast verkstöð í reglum nr. 498/1994 um skjávinnu. Allar verkstöðvar skulu uppfylla þær lágmarkskröfur sem tilgreindar eru í reglunum og viðauka sem þeim fylgja.

Skyldur vinnuveitanda

Vinnuveitendur skulu sjá til þess að gerð sé úttekt á verkstöðvum í því skyni að meta hvaða áhrif þær hafa á starfsmenn með tilliti til öryggis, hollustu og hugsanlega áhættu fyrir sjón og gera viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á ástandinu, sé þess þörf.  

Allir starfsmenn skulu fá starfsþjálfun áður en þeir hefjast handa við skjávinnu og í hvert skipti sem skipulagi verkstöðvar er breytt verulega.

Sjónvernd

Starfsmenn skulu eiga rétt á að augu þeirra og sjón séu prófuð á viðeigandi hátt:

  • áður en skjávinna hefst
  • með jöfnu millibili eftir það
  • ef fram koma vandkvæði tengd sjón sem gætu átt rót að rekja til skjávinnu

Sjá verður starfsmanni fyrir sérstökum búnaði til úrbóta, sem hæfir því starfi sem um er að ræða, ef niðurstöður prófs eða skoðunar sýna að það sé nauðsynlegt og ekki er hægt að nota venjuleg gleraugu, snertilinsur eða því um líkt. 

Stjórn Vinnueftirlitsins hefur túlkað reglurnar svo:

  1. Þurfi starfsmaður nauðsynlega á búnaði til sjónleiðréttinga að halda vegna skjávinnu sérstaklega, að mati augnlæknis, skal vinnuveitandi leggja honum til slíkan búnað, þ.á.m. sérstök gleraugu. Búnaðurinn telst eign vinnuveitandans.
  2. Ef augnlæknir telur nauðsynlegt að starfsmaður noti gleraugu með tví- eða fleirskiptum brennivíddum, í stað sérstakra gleraugna fyrir skjávinnu, er eðlilegt að vinnuveitandi taki þátt í kostnaði við slík gleraugu.
  3. Starfsmanni ber að snúa sér til vinnuveitanda áður en ráðist er í kaup hjálpartækja, svo sem gleraugna, og hlíta fyrirsögn hans um það hvernig skuli að slíku staðið.

Skv. framangreindu ber vinnuveitanda fyrst og fremst að taka þátt í kostnaði þegar þau gleraugu, sem starfsmaður notar almennt við vinnu sína, eru ónothæf við skjávinnu og þegar starfsmaður, sem almennt notar ekki gleraugu við vinnu sína, þarf sérstök gleraugu við skjávinnu. Ef starfsmaður þarf samskonar gleraugu við aðra vinnu, á vinnustað eða heimili, ber vinnuveitanda ekki að leggja til sérstök gleraugu til skjávinnu. Starfsmaður skal nota þau gleraugu sem hann á.

 

 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.