Vinnuveitanda er heimilt (ekki skylt) að veita undanþágur frá reykingabanni, í þeim tilvikum sem rakin verða hér á eftir, enda sé fullnægjandi loftræsting þar að mati eftirlitsaðila þannig að komið sé í veg fyrir að tóbaksreykur berist til reyklausra svæða og þess gætt að tóbaksreykur berist ekki inn í vistarverur fólks í nær liggjandi húsnæði vegna fyrirkomulags loftræstingar.
Þá er það og skilyrði fyrir undanþágu frá reykingarbanni að efni sem geta verið krabbameinsvaldandi, önnur en tóbaksreykur, geti ekki verið í andrúmslofti í vinnurými (sem gufa, reykur, ryk eða smásælir dropar).
Starfsmaður einn í herbergi eða einungis reykingamenn
Vinnuveitandi getur heimilað starfsmanni, sem vinnur einn í vinnurými með lokanlegum dyrum, að reykja í vinnurýminu enda sinni starfsmaðurinn ekki verkefnum sem krefjast þess að aðrir komi inn í vinnurými hans. Starfsmaður verður því að fá sérstakt leyfi atvinnurekenda síns vilji hann reykja í vinnuherbergi sínu.
Vinni tveir starfsmenn eða fleiri í sama rými má vinnuveitandi með sömu skilyrðum heimila þeim að reykja þar, séu þeir báðir/allir reykingamenn og samþykki hver og einn þeirra þá tilhögun. Starfsmaður getur ávallt afturkallað samþykki sitt og það fellur sjálfkrafa úr gildi hætti starfsmaður að reykja.
Öðrum starfsmönnum á vinnustað er óheimilt að nýta þetta vinnurými sem reykingaafdrep. Einungis starfsmönnum í viðkomandi rými er heimilt að reykja þar.
Reykingaafdrep
Vinnuveitanda er heimilt (ekki skylt) að koma upp sérstöku afdrepi fyrir reykingar á vinnustað. Reykingarafdrep er sérstakur hluti húsnæðis sem ætlaður er fyrir reykingar og almenningur hefur ekki aðgang að.
Staðir sem almenningur hefur aðgang að
Tóbaksreykingar eru öllum óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagastarfsemi fer fram. Til þjónusturými teljast öll húsakynni undir þaki, föstu eða hreyfanlegu, svo og samkomutjöld og sýningartjöld, sem almenningur hefur aðgang að vegna viðskipta og veittrar þjónustu og þátttöku í menningar- og félagastarfsemi, þ.m.t. biðstofur, gestamóttaka, forstofur, gangar og snyrtiherbergi.
Þó er heimilt að leyfa reykingar á tilteknum gistiherbergjum á hótelum og gistiheimilum og skulu slík gistiherbergi þá merkt sérstaklega og vera staðsett samliggjandi eftir því sem kostur er á. Öll önnur gistiherbergi skulu merkt þannig að skýrt sé að óheimilt sé að reykja í þeim.
Farartæki sem almenningur hefur aðgang að
Tóbaksreykingar eru óheimilaðar í farartækjum, svo sem bifreiðum, skipum og flugvélum, sem almenningur hefur aðgang að gegn gjaldi. Forráðamönnum farþegaskipa er þó heimilt að leyfa reykingar á opnu þilfari. Þá er forráðamönnum flugvéla heimilt að leyfa tóbaksreykingar í hluta farþegarýmis í atvinnuflugi milli landa án viðkomu á Íslandi enda skapist ekki óþægindi fyrir þá sem ekki reykja.