Reykingar á vinnustöðum

Í gildi eru sérstök lög um tóbaksvarnir nr. 6/2002. Markmið laganna er að vernda fólk fyrir áhrifum tóbaksreyks. Virða skal rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað tóbaksreyk af völdum annarra. Með tóbaki er í lögunum átt við tóbaksjurtir (nicotiana) og allan varning unninn að öllu eða einhverju leyti úr þeim til neyslu. Frekari ákvæði um tóbaksreykingar eru í reglugerð um takmarkanir á tóbaksreykingum nr. 326/2007. Markmið hennar er að tryggja að þeir sem ekki reykja verði ekki fyrir skaða og óþægindum af völdum tóbaksreyks.

Reykingabann á vinnustöðum

Tóbaksreykingar eru óheimilar í húsnæði þar sem atvinnustarfsemi fer fram og skiptir ekki máli hvort almenningur leitar þar afgreiðslu og þjónustu. Skilyrðislaust reykingarbann er þannig í vinnslusölum, skrifstofum, fundarherbergjum, geymslum, lyftum, bílageymslum, kaffi- og matstofum, búnings-, fata- og snyrtiherbergjum svo dæmi sé tekið.

Almennt reykingarbann nær jafnframt til svefnskála, svefnherbergja og svefnklefa sem tilheyra vinnustað enda noti hann tveir eða fleiri saman. Þetta gildir þó ekki ef allir þeir sem nota svefnaðstöðuna reykja og eru sammála um að leyfa reykingar. Starfsmaður getur ávallt afturkallað slíkt samþykki sitt og fellur það sjálfkrafa úr gildi hætti starfsmaður að reykja. Vinnuveitanda er heimilt að banna reykingar alfarið á þessum stöðum.

Tóbaksreykingar eru að sama skapi óheimilar í skipum, flugvélum, bifreiðum og vinnuvélum sem notuð eru í atvinnuskyni. Reykingar eru þó heimilaðar á opnu þilfari skipa.

Reykingar eru bannaðar á útisvæðum fyrirtækja nema vinnuveitandi veiti heimild til hins gagnstæða. Sé útisvæði undir þaki, föstu eða hreyfanlegu, má aðeins leyfa þar reykingar ef svæðið er að hámarki lokað með veggjum eða öðru að ¾ hlutum og nægjanlegt loftstreymi sé tryggt upp í gegnum þak eða meðfram þakskeggi. Þar sem leyfðar eru reykingar utanhúss skal þess gætt að tóbaksreykur berist ekki inn í húsnæði þeirrar starfsemi sem svæðið tilheyrir eða húnsæði annarra, hvort heldur um dyr, glugga eða loftinntök.

Frávik frá reykingabanni

Vinnuveitanda er heimilt (ekki skylt) að veita undanþágur frá reykingabanni, í þeim tilvikum sem rakin verða hér á eftir, enda sé fullnægjandi loftræsting þar að mati eftirlitsaðila þannig að komið sé í veg fyrir að tóbaksreykur berist til reyklausra svæða og þess gætt að tóbaksreykur berist ekki inn í vistarverur fólks í nær liggjandi húsnæði vegna fyrirkomulags loftræstingar.

Þá er það og skilyrði fyrir undanþágu frá reykingarbanni að efni sem geta verið krabbameinsvaldandi, önnur en tóbaksreykur, geti ekki verið í andrúmslofti í vinnurými (sem gufa, reykur, ryk eða smásælir dropar).

Starfsmaður einn í herbergi eða einungis reykingamenn
Vinnuveitandi getur heimilað starfsmanni, sem vinnur einn í vinnurými með lokanlegum dyrum, að reykja í vinnurýminu enda sinni starfsmaðurinn ekki verkefnum sem krefjast þess að aðrir komi inn í vinnurými hans. Starfsmaður verður því að fá sérstakt leyfi atvinnurekenda síns vilji hann reykja í vinnuherbergi sínu.

Vinni tveir starfsmenn eða fleiri í sama rými má vinnuveitandi með sömu skilyrðum heimila þeim að reykja þar, séu þeir báðir/allir reykingamenn og samþykki hver og einn þeirra þá tilhögun. Starfsmaður getur ávallt afturkallað samþykki sitt og það fellur sjálfkrafa úr gildi hætti starfsmaður að reykja.

Öðrum starfsmönnum á vinnustað er óheimilt að nýta þetta vinnurými sem reykingaafdrep. Einungis starfsmönnum í viðkomandi rými er heimilt að reykja þar.

Reykingaafdrep
Vinnuveitanda er heimilt (ekki skylt) að koma upp sérstöku afdrepi fyrir reykingar á vinnustað. Reykingarafdrep er sérstakur hluti húsnæðis sem ætlaður er fyrir reykingar og almenningur hefur ekki aðgang að.

Staðir sem almenningur hefur aðgang að
Tóbaksreykingar eru öllum óheimilar í þjónusturými stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka svo sem á veitinga- og skemmtistöðum og þar sem menningar- og félagastarfsemi fer fram. Til þjónusturými teljast öll húsakynni undir þaki, föstu eða hreyfanlegu, svo og samkomutjöld og sýningartjöld, sem almenningur hefur aðgang að vegna viðskipta og veittrar þjónustu og þátttöku í menningar- og félagastarfsemi, þ.m.t. biðstofur, gestamóttaka, forstofur, gangar og snyrtiherbergi.

Þó er heimilt að leyfa reykingar á tilteknum gistiherbergjum á hótelum og gistiheimilum og skulu slík gistiherbergi þá merkt sérstaklega og vera staðsett samliggjandi eftir því sem kostur er á. Öll önnur gistiherbergi skulu merkt þannig að skýrt sé að óheimilt sé að reykja í þeim.

Farartæki sem almenningur hefur aðgang að
Tóbaksreykingar eru óheimilaðar í farartækjum, svo sem bifreiðum, skipum og flugvélum, sem almenningur hefur aðgang að gegn gjaldi. Forráðamönnum farþegaskipa er þó heimilt að leyfa reykingar á opnu þilfari. Þá er forráðamönnum flugvéla heimilt að leyfa tóbaksreykingar í hluta farþegarýmis í atvinnuflugi milli landa án viðkomu á Íslandi enda skapist ekki óþægindi fyrir þá sem ekki reykja.

Brot á reglum

Ítrekað brot launamanns á reykingabanni skv. lögum, reglum eða ákvörðun vinnuveitanda getur varðað brottrekstri að undangenginni áminningu. Sjá nánar um riftun (fyrirvaralausa uppsögn).  

Brot á reykingabanni getur einnig leitt til refsingar (sektar) skv. lögum um tóbaksvarnir og lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum enda hafi umráðamaður húsakynna eða stjórnandi farartækis eða fulltrúi þeirra veitt viðkomandi áminningu.

Umráðamaður húsakynna eða stjórnandi farartækis eða fulltrúi þeirra geta vísað hinum brotlega úr farartækinu eða húsakynnum láti hann ekki segjast.

Heilbrigðisnefndir, Vinnueftirlit ríkisins og Samgöngustofa fylgjast með framkvæmd reglnanna í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins.

Rafrettur

Ekki er enn sem komið er í gildi sérstakar reglur um notkun rafrettna / rafsígarettna á vinnustað. Vegna óþæginda sem notkun getur haft fyrir aðra starfsmenn getur vinnuveitandi bannað notkun þeirra á vinnustað.

Þann 1. mars 2019 taka gildi lög um rafrettur. Við gildistöku laganna verður notkun rafrettna gerð óheimil í þjónusturýmum opinberra stofnana og félagasamtaka, í mennta, heilbrigðis- og félagsstofnunum þar sem slík starfsemi fer fram ásamt almenningsfarartækjum. 

Það verður áfram undir forsvörsmönnum annarra starfsemi komið hvort þeir taki ákvörðun um að banna notkun rafrettna eða takmarka hana með ákveðnum hætti, t.d. leyfa hana í reykingaafdrepum. 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.