Hávaðavarnir og heyrnareftirlit

Um hávaðavarnir og heyrnareftirlit gilda reglur nr. 921/2006 um varnir gegn álagi vegna hávaða á vinnustöðum.

Skyldur vinnuveitanda

Draga verður úr skaðlegum áhrifum af völdum hávaða með fyrirbyggjandi aðgerðum og notkun persónuhlífa.

Á vinnustöðum skal fyrirkomulag, framkvæmd vinnu, vélar, tæki og annar búnaður vera þannig að hávaði sé svo lítill sem kostur er, að teknu tilliti til kostnaðar.

Heyrnarhlífar
Miðað er við að svokallaður jafngildishávaði sem starfsmenn verða fyrir á 8 stunda vinnudegi fari ekki yfir 85 dB (A). Þar sem hávaði er meiri skulu starfsmenn nota viðeigandi heyrnarhlífar sem vinnuveitandi sér þeim fyrir auk þess sem árlega skal mæla heyrn þeirra verði því við komið. Sama á við um þá starfsmenn sem verða fyrir augnablikshávaða sem er 140 Pa (2) eða meiri.

Fræðsla
Fræða skal starfsmenn um hættu á heyrnarskemmdum þegar unnið er við aðstæður sem þessar. Þá ber vinnuveitanda að gera allt sem í hans valdi stendur til að tryggja að starfsmenn noti heyrnarhlífar sem hann sér þeim fyrir vegna starfa þeirra.

Áhættumat
Vinnuveitandi skal láta framkvæma áhættumat á vinnustöðum þegar líkur eru á að starfsemi hafi í för með sér áhættu vegna hávaða auk þess sem öryggistrúnaðarmaður eða félagslegur trúnaðarmaður getur krafist að slíkt mat fari fram.

Áhættumat skal skipulagt og framkvæmt með hæfilegu millibili af þar til hæfum aðilum. Sjá frekari upplýsingar um gerð áhættumats á heimasíðu Vinnueftirlitsins.

Áætlun um heilsuvernd
Vinnuveitandi skal gera og fylgja eftir áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir þar sem tekið er tillit til tækniframfara og tiltækra ráðstafana sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir áhættu af álagi vegna hávaða við upptök hans. Sjá frekari upplýsingar um heilsuvernd á vinnustað á heimasíðu Vinnueftirlitsins. 

Heilsufarsskoðun
Þegar áhættumat gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin skal vinnuveitandi sjá til þess að umræddum starfsmönnum sé boðin heilsufarsskoðun. Heilsufarsskoðun skal vera í höndum heilbrigðisstarfsmanna og taka mið af áhættumati viðkomandi fyrirtækja og starfsgreina og þeim reglum sem í gildi eru um mismunandi starfshópa. Sjá frekari upplýsingar um heilsufarsskoðun á heimasíðu Vinnueftirlitsins.

Heyrnarmæling
Verði starfsmaður fyrir álagi vegna hávaða sem er 140 Pa (2) eða meiri, þrátt fyrir ráðstafanir sem vinnuveitandi gerir til að koma í veg fyrir slíkt álag, skal hann eiga rétt á heyrnarmælingu sem læknir eða annar aðili með tilskilin réttindi annast. Hið sama gildir ef álag vegna hávaða er 112 Pa (3) eða meiri og áhættumat gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin.

Leiði heilsufarsskoðun í ljós heyrnarskaða eða önnur skaðleg áhrif á heilsu starfsmanns skal læknir eða annar sérfræðingur, telji læknir það nauðsynlegt, meta hvort líkur eru á að rekja megi heyrnarskaðan eða hin skaðlegu áhrif til álags vegna hávaða við vinnu. Telji læknir orsakatengsl vera fyrir hendi ber viðkomandi vinnuveitanda að:
(i) endurskoða áhættumat sitt og áætlun um heilsuvernd,
(ii) taka til greina ráðleggingar viðurkenndra þjónustuaðila, og
(iii) sjá til þess að heilsufarsskoðanir fari áfram fram og að aðrir starfsmenn sem hafa starfað við sambærilegar ástæður gangist undir heilsufarsskoðun.

Dæmi úr réttarframkvæmd

Dómur Hæstaréttar 1996, bls. 4139 (nr. 245/1996)

Maðurinn vann við eftirlit með blásurum og mótorum hjá fyrirtækinu. Þessari starfsemi fylgdi mikill hávaði og hafði Vinnueftirlitið bent á að draga þyrfti úr hávaða og að starfsmenn notuðu heyrnarhlífar. 

Í dómi héraðsdóms var m.a. bent á:

  • að fyrirtækinu hefði mátt vera ljós sú hætta sem heyrn starfsmanna stafaði af hávaða á vinnustaðnum
  • að starfsmönnum hefði ekki verið séð fyrir viðhlítandi hlífðarbúnaði eða mönnum gert skyld að nota slíkan búnað að staðaldri
  • að fræðslu og leiðbeiningum hefði ekki verið sinnt
  • að hávaðamælingar á vinnustað og heyrnarmælingar starfsmanna hefðu ekki farið fram eins og eðli starfseminnar gaf þó fullt tilefni til.

Starfsmaðurinn hafði sjálfur látið mæla heyrn sína í nokkur skipti og kom í ljós að hann var að tapa heyrn. Hann greindi fyrirtækinu hins vegar ekki frá þessu eins og honum bar að gera og gerði sjálfur engar ráðstafanir til að vernda heyrn sína. Hann var því látinn bera tjón sitt sjálfur að 1/3 hluta. Í dómi Hæstaréttar er áréttað að vinnuveitandinn hafi ekki sýnt fram á að hann hafi gert viðeigandi ráðstafanir á vinnustaðnum til að koma í veg fyrir heyrnarskemmdir starfsmannsins skv. reglugerð um hávaðavarnir.

 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.