Eftirvinnukaup er greitt þegar starfsmenn skila ekki fullri dagvinnu en vinna að auki á kvöldin og um helgar. Þá greiðist eftirvinnukaup fyrir vinnu sem er skilað utan skilgreinds dagvinnutímabils svo og um helgar og á öllum frídögum nema stórhátíðardögum, upp að 167,94 klst. hvern mánuð.
Fyrir vinnu umfram 167,94 klst. á mánuði greiðist yfirvinna.
Samanlögð dagvinna + eftirvinna má því ekki fara umfram 167,94 klst. á mánuði hjá afgreiðslufólki. Greiddir en óunnir frídagar teljast til vinnutíma í þessu sambandi.
Viðmiðunin, 167,94 klst. á mánuði, miðast við full vinnuskil starfsfólks, eða 38,75 klst. hverja viku í 4,33 vikur (meðaltalsmánuður).
Dæmi:
Starfsmaður í afgreiðslu vinnur frá kl. 13:00 – 19:00 mánudaga til föstudaga og annan hvern laugardag frá 10:00 -16:00. Fyrir vinnu á virkum dögum milli 13:00 – 18:00 greiðist dagvinna, eða samtals 108 tímar fyrir mánuðinn eða 64,6% starfshlutfall (25/38,75=64,6%). Milli kl. 18:00-19:00 og á laugardögum greiðist eftirvinna, samtals 34 tíma fyrir mánuðinn. Samanlagður vinnutími starfsmannsins er því 108 + 34 = 142 tímar fyrir mánuðinn. Hann nær því ekki 167,94 klst. vinnu og fær því ekki greitt yfirvinnukaup.
Eftirvinna afgreiðslufólks utan dagvinnutíma
Eftirvinna afgreiðslufólks utan dagvinnutíma greiðist með tímakaupi sem nemur 0,8235% af mánaðalaunum fyrir dagvinnu upp að 167,94 klst. vinnu hvern mánuð, sem jafngildir um 40% álagi á dagvinnutímakaup.
Eftirvinna afgreiðslufólks að nóttu
Eftirvinna afgreiðslufólks frá kl. 00:00 - 07:00, er þó greidd með hærra álagi, 0,8824% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu upp að 167,94 klst. sem jafngildir um 50% álagi á dagvinnutímakaup, sbr. 1.7. í kjarasamningi SA og VR/LÍV.
Yfirvinna afgreiðslufólks
Vinna umfram 167,94 klst. er greidd með yfirvinnutímakaupi, en það nemur 1,0385% af mánaðalaunum fyrir dagvinnu.
Hlutastarfsfólk
Sama regla gildir um hlutastarfsfólk á skrifstofu, það fær greidda eftirvinnu fyrir kvöld- og helgarvinnu upp að 167,94 klst. vinnu á mánuði, en yfirvinnu fyrir vinnu umfram það.