Dagvinna
Flestir launamenn eru ráðnir til að vinna dagvinnu, fulla dagvinnu eða að hluta. Ákvæði um dagvinnu má almennt finna í 2. kafla almennra kjarasamninga SA.
Full dagvinna
Dagvinna er almennt 8 klst. á dag, 40 klst. á viku eða 173,33 klst. á mánuði. Virkur vinnutími (dagvinna án greiddra kaffitíma) er 37 klst. og 5 mín. á viku.
Frávik - Full dagvinnuskil afgreiðslufólks skv. samningi SA og VR/LÍV eru 38,75 klst. á viku (virkar stundir 35 klst. og 50 mín.) og 167,94 klst. á mánuði. Hjá skrifstofufólki 36,75 klst. á viku (virkar stundir 35 klst. og 30 mín.) og 159,27 klst. á mánuði.
Frávik - Iðnaðarmenn geta kosið um vinnutímastyttingu í 39,25 klst. á viku (virkar stundir 36 klst. og 15 mín.) og 157,08 klst. á mánuði. Sjá nánar hér um vinnutímastyttingu iðnaðarmanna.
Frávik - Full vinnuskil vaktavinnufólks, sem starfar eftir veitingasamningi SA við SGS / Eflingu og er á vöktum fimm daga vikunnar innan tímamarkanna kl. 17:00 - 08:00, eru 38 klst. á viku.
Þegar fullri dagvinnu hefur verið skilað skal greiða yfirvinnukaup. Í samningum verkafólks er almennt miðað við að yfirvinna hefjist þegar 8 klst. vinnudegi hefur verið skilað en þó er heimilt að semja við starfsmann um að skila 40 klst. vinnuviku á færri dögum en fimm. Þannig má t.d. skipuleggja dagvinnu í 9 klst. fjóra daga vikunnar (þó innan dagvinnutímabils) og 4 klst. fimmta daginn. Hjá afgreiðslu- og skrifstofufólki er yfirvinna ekki greidd fyrr en fullri dagvinnu hefur verið skilað í hverjum mánuði en eftirvinnukaup er greitt fyrir vinnu utan dagvinnutímabils.
Dagvinnutímabil kjarasamninga
Dagvinnutímabil, þ.e. það tímabil dagsins sem heimilt er að greiða með dagvinnukaupi, er mismunandi milli kjarasamninga:
SGS / Efling: Kl. 7:00 – 17:00
VR / LÍV v. afgreiðslufólks: Kl. 9:00 - 18:00. Dagvinnutímabil getur hafist fyrr, þó ekki fyrr en kl. 7:00.
Samiðn, VM, RSÍ og Matvís: Kl. 7:00 - 18:00.
Grafía: 8:00 - 17:00.
Starfshlutfall
Ef starfsmaður í hlutastarfi fær greitt hlutfall af fullum mánaðarlaunum (er ekki á tímakaupi) skal tilgreina starfshlutfall í ráðningarsamningi / launaseðli. Starfshlutfall hlutavinnufólks er almennt reiknað út frá fullri dagvinnu enda eru dagvinnulaun viðkomandi starfsmanns reiknuð sem hlutfall af fullum mánaðarlaunum fyrir dagvinnu. Verkamaður sem vinnur t.d. frá kl. 07:30 - 12:00 er í 56,25% starfshlutfalli (22,5 / 40).
Dagvinnutímakaup
Tímakaup í dagvinnu fæst því með að deila með 173,33 í mánaðarkaupið.
Frávik - Tímakaup afgreiðslufólks fæst með því að deila með 167,94 í mánaðarkaup og tímakaup skrifstofufólks með því að deila með 159,27 í mánaðarkaup.
Frávik - Tímakaup skv. veitingasamningi SA við SGS / Eflingu fæst með því að deila með 172 í mánaðarkaup. Full vinnuskil eru hins vegar 40 klst. á viku eða 173,33 stundir á mánuði.
Sjá nánar viðkomandi kjarasamninga.
Síðast uppfært: Maí 2020