Læknisvottorð

Vinnuveitandi getur ávallt krafist þess að starfsmaður sanni veikindi sín með læknisvottorði, sbr. 8. gr. laga nr. 19/1979.

Læknisvottorð hafa takmarkað gildi nema læknir hafi skoðað sjúkling og sannreynt að hann sé og hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms.

Ákvörðun vinnuveitanda

Læknisvottorð er ekki nauðsynlegt. Það er vinnuveitandinn sem ákveður hvort þess er krafist hverju sinni. Það getur farið eftir atvikum. Annars vegar lengd fjarvista og hins vegar hvort sérstök ástæða þyki til að óska læknisvottorðs.

Starfsmaður verður að vita hvort ætlast er til að hann sanni veikindi sín með læknisvottorði eða ekki.

Sönnun hvílir á starfsmanni

Starfsmaður hefur sönnunarbyrðina fyrir sjúkdómi sínum og óvinnufærni og fullnægir henni almennt með því að afhenda vinnuveitanda óaðfinnanlegt læknisvottorð.

Afhendi starfsmaður ekki vinnuveitanda læknisvottorð þegar eftir því er leitað, eða í því er ekki tekin ótvíræð afstaða til óvinnufærni starfsmanns missir hann rétt til veikindagreiðslna nema úr því sé bætt með nýju vottorði.

Áherslur sem henta starfsemi fyrirtækis

Vinnuveitendur geta sett sér vinnureglur sem henta þeirra starfsemi.

Almennt misnota starfsmenn ekki reglur um veikindarétt. Reglur fyrirtækja taka almennt mið af þeirri staðreynd. Er þá haft í huga að kostnaður og óþægindi fylgja því að afla læknisvottorða og áreiðanleiki vottorða er lítill þegar um skammtímaveikindi er að ræða.

Mikið um veikindafjarvistir
Þegar rekstur fyrirtækis byggist hins vegar að stórum hluta á ungum og óreyndum starfsmönnum getur þurft að taka veikindamál föstum tökum. Vel þekkist að starfsmenn standi í þeirri trú að þeir geti „tekið tvo veikindadaga“ í hverjum mánuði. Ef vinnuveitandi verður var við slíkt mynstur er rétt að ræða við starfsmann um eðli veikindaréttar og gera honum að leggja ávallt fram læknisvottorð í veikindafjarvistum.

Þjónustuaðili á sviði heilsuverndar
Nokkuð algengt er að vinnuveitendur semji við þjónustuaðila á sviði heilsuverndar um að sinna fjarvistarskráningu. Kemur hún þá í stað hefðbundinna læknisvottorða.

Efni læknisvottorða

Læknisvottorð þurfa að vera nákvæm
Á læknisvottorði þarf að koma fram að starfsmaður sé haldinn sjúkdómi og að hann sé óvinnufær vegna þess sjúkdóms. Einnig skal koma fram hvenær skoðun fór fram, frá hvaða tíma læknir telur sjúkling vera óvinnufæran og mat hans á hversu lengi óvinnufærni muni standa.

Ef starfsmaður er vinnufær til annarra léttra starfa skal koma fram að hann sé einungis óvinnufær að hluta.

Læknar bera mikla ábyrgð
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 ber læknum að „gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna og votta það eitt er þeir vita sönnur á og er nauðsynlegt í hverju tilviki.“

Við útgáfu læknisvottorðs þarf læknir að vera meðvitaður um framangreindar starfsskyldur sínar og gæta þess að ómálefnaleg sjónarmið ráði því ekki hvort gefið sé út læknisvottorð.

Getur vinnuveitandi véfengt læknisvottorð?

Oft kemur upp vafi um gildi vottorða, t.d. þegar læknir gefur út vottorð um sjúkleika starfsmanns löngu eftir að veikindi eru yfirstaðin.

Það er hægt að véfengja læknisvottorð
Læknisvottorð eru mikilvæg sönnunargögn um veikindi starfsmanns. Þau eru ekki óvéfengjanleg þó erfitt sé yfirleitt að hnekkja þeim.

Hvernig getur vinnuveitandi véfengt læknisvottorð?
Annars vegar getur vinnuveitandinn sýnt fram á aðstæður eða atvik því til sönnunar að starfsmaður hafi ekki verið veikur og óvinnufær á umræddu tímabili. Það gæti vinnuveitandi t.d. gert með vætti vitna, sem séð hafa til „sjúklingsins“ við leik eða störf eða með öðrum gögnum t.d. umsögn frá trúnaðarlækni.

Hins vegar getur vinnuveitandi véfengt vottorð ef það er ófullnægjandi, t.d. ekki útfyllt eins og reglur segja til um. Hann getur þá hafnað vottorði og gert starfsmanni að koma með nýtt vottorð.

Sjá dæmi um dómaframkvæmd hér neðar.

Réttur vinnuveitanda til að fá upplýsingar um eðli veikinda

Skylt að sýna fram á óvinnufærni
Starfsmanni er ekki skylt að upplýsa vinnuveitanda um eðli sjúkdóms, enda oft á tíðum um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða. Honum er einungis skylt að sýna fram á að hann hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms.

Læknir á ekki að gefa aðrar upplýsingar en koma eiga fram á læknisvottorði
Vinnuveitandi getur heldur ekki óskað þess að læknir starfsmanns eða trúnaðarlæknir fyrirtækis upplýsi um tegund sjúkdóms. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 ber lækni að gæta fyllstu þagmælsku um veikindi starfsmanns. Hann gefur því ekki aðrar upplýsingar en þær sem koma þurfa fram á læknisvottorði. Starfsmaður getur þó leyst lækni undan þagnarskyldu, sbr. 2. mgr. 17. gr. sömu laga.

Trúnaðarlæknir vinnuveitanda - fyrirtæki á sviði heilsuverndar

Hvert er hlutverk trúnaðarlæknis?
Nokkuð er um að fyrirtæki hafi samning við trúnaðarlækni eða fyrirtæki á sviði heilsuverndar. Hlutverk þeirra er að kanna áreiðanleika læknisvottorða og staðfesta efni þeirra. Þeim er hins vegar ekki ætlað að gefa vinnuveitanda frekari upplýsingar um eðli sjúkdóms enda bundnir trúnaði með sama hætti og læknir starfsmanns, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.

Samningurinn við trúnaðarlækni eða fyrirtæki á sviði heilsuverndar felur oft í sér að starfsmaður skuli tilkynna veikindi til þeirra jafnframt því að tilkynna til fyrirtækis. Trúnaðarlæknir skráir fjarvistir, veitir ráðgjöf og metur hvort skoðun þurfi að fara fram.

Starfsmaður þarf að samþykkja
Ef gera á starfsmanni skylt að tilkynna veikindi til trúnaðarlæknis fyrirtækis er rétt að tiltaka það sérstaklega í skriflegum ráðningarsamningi eða vísa í samningi til reglna fyrirtækisins um tilkynningu veikinda sem starfsmaður hefur kynnt sér og samþykkt.

Sérákvæði í kjarasamningi verslunarmanna
Samkvæmt kjarasamningi verslunarmanna, gr. 8.3, getur vinnuveitandi óskað þess að starfsmaður afli sér læknisvottorðs hjá trúnaðarlækni vinnuveitanda.

Kostnaður vegna vottorða

Meginreglan = vinnuveitandi greiðir ef hann óskar eftir vottorði
Meginreglan er sú að vinnuveitanda ber að greiða þau læknisvottorð sem hann óskar eftir enda hafi veikindin verið tilkynnt á fyrsta degi veikinda.

Sérreglur í kjarasamningum
Í gr. 8.4.3. kjarasamninga SA og SGS / Eflingar segir að vinnuveitandi greiði læknisvottorð að því tilskildu að veikindi verði þegar tilkynnt til vinnuveitanda á fyrsta veikindadegi og að starfsmönnum sé ávallt skylt að leggja fram læknisvottorð.

Í kjarasamningum Samiðnar og RSÍ segir að vinnuveitandi greiði læknisvottorð að því tilskildu að veikindi hafi verið tilkynnt til vinnuveitanda á fyrsta veikindadegi / þegar við upphaf veikinda.

Samkvæmt kjarasamningi verslunarmanna getur vinnuveitandi óskað þess að vottorð sé frá trúnaðarlækni.  Fyrirtækið verður að þá ráða slíkan lækni og ber allan kostnað af störfum hans.

Staðfesting læknisvottorða fyrir dómi

Í dómsmálum er lækni skylt að skýra frá öllu, sem hann veit og hugsanlega getur haft áhrif á málið, ef úrslit málsins velta á vitnisburði hans eða málið er mikilvægt fyrir málsaðila eða þjóðfélagið, hvort tveggja að mati dómara, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.

Neiti læknir að gefa upplýsingar um heilsufar sjúklings eða að staðfesta læknisvottorð fyrir dómi yrði vottorð hans metið þýðingarlaust.

Dómaframkvæmd

Dómur Hæstaréttar 10. desember 2015 (297/2015)
Vinnuveitanda tókst ekki að hnekkja læknisfræðilegum vottorðum en hann hafði byggt á því að vottorðin væru ekki gild þar sem þau byggðust einungis á upplýsingum frá starfsmanninum sjálfum. Til rökstuðnings niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur til þess að: 

  • læknirinn sem gaf út vottorðið, hafði haft starfsmanninn til meðferðar nokkru áður og þekkti því heilsufar hans,
  • læknirinn hafði rætt við starfsmanninn í síma og haft upplýsingar frá starfsbróðir sínum,
  • ítrekað voru gefin út læknisvottorð þar sem starfsmaðurinn var metinn óvinnufær. 

Dómur Hæstaréttar 2. desember 2010 (66/2010)
Talið var að þrjú læknisvottorð sem starfsmaður lagði fram teldust ekki fullnægjandi til þess að sýna fram á rétt hans til veikindalauna þar sem þau sýndu ekki nægjanlega fram á tildrög þess að hann hlaut þá áverka sem réttur hans til veikinda var bundinn við.

Dómur Hæstaréttar 6. júní 1996 (218/1995)
Vinnuveitanda tókst ekki að hnekkja læknisfræðilegu vottorði og öðrum læknisfræðilegum gögnum sem studdu það að starfsmaður væri óvinnufær sökum ofþyngdar, spennu og streitu. 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.