Samkvæmt 50. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er óheimilt að segja starfsmanni, sem nýtur verndar laganna, upp störfum „nema gildar ástæður séu fyrir hendi.“
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 318/2008 er eftirfarandi umfjöllun um ákvæðið:
„Við skýringu þessa lagaákvæðis verður að líta svo á að úr því að vinnuveitanda er við þessar aðstæður því aðeins heimilt að segja upp starfsmanni að gildar ástæður séu til þeirrar ráðstöfunar, þá verði að leggja til grundvallar að í öllum öðrum tilvikum sé uppsögn óheimil þótt ekki sé sýnt fram á að hún sé gagngert komin til vegna þess að starfsmaður hafi annað tveggja tilkynnt um fyrirhugaða töku orlofs eða sé að taka það út. Þessu til samræmis verður að fella á vinnuveitanda sönnunarbyrði fyrir því að gildar ástæður hafi í raun ráðið gerðum hans.“
Vinnuveitandi verður að sýna fram á gildar ástæður
Því nægir ekki vinnuveitanda að halda því fram að uppsögn hafi ekkert með þungun konu eða fæðingarorlof starfsmanns að gera. Uppsögn er einfaldlega óheimil nema vinnuveitandi sýni fram á gildar ástæður.
Samkvæmt dómaframkvæmd geta gildar ástæður m.a. verið til staðar þegar starfsmaður hefur brotið af sér í starfi, þegar starfsmaður uppfyllir ekki kröfur sem starfið gerir, þegar almennar skipulagsbreytingar eru innan fyrirtækis og þegar fjárhagsaðstæður kalla á fækkun starfsmanna.
Vinnuveitandi ber sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi haft gildar ástæður fyrir uppsögn. Þótt ástæður séu ríkar að mati vinnuveitanda þá getur sönnunarbyrði verið örðug. Ef ástæður má t.d. rekja til vanrækslu í starfi er mikilvægt að geta sýnt fram á að starfsmaður hafi verið áminntur.
Dæmi úr réttarframkvæmd
Dómur Hæstaréttar 18. júní 2004 (61/2004) (Verkfæralagerinn).
Konu sem ráðin var til afgreiðslustarfa var sagt upp störfum fyrir lok þriggja mánaða reynslutíma og voru tungumálaerfiðleikar tilgreindir sem ástæða. Þremur vikum áður hafði hún tilkynnt að hún væri þunguð. Hæstiréttur taldi uppsögn ólögmæta. Konan hefði verið ráðin að undangenginni auglýsingu og án þess að gerðar væru athugasemdir við kunnáttu hennar í íslensku. Ekki hefði verið sýnt fram á að íslenskukunnátta hennar væri það slök að það hafi valdið sérstökum erfiðleikum í starfi eða að starfsmaðurinn hefði að öðru leyti verið ófær um að gegna starfi sínu.
Dómur Hæstaréttar 24. nóvember 2011 (257/2011) (Greiningarstöðin).
Lækninum A var sagt upp störfum þegar fyrir lá að hægt var að ráða sérfræðilækni. Fyrirhuguð ráðning og starfslok A lá fyrir áður en A tilkynnti um þungun. Formleg uppsögn fór fram eftir tilkynningu um þungun. Ástæður fyrir uppsögn voru taldar gildar og hún því lögmæt.
Dómur Hæstaréttar 5. febrúar 2009 (318/2008) (Þrotabú Tækja, tóla og byggingavara (Mest).
Starfsmanninum A var sagt upp störfum eftir að hafa tilkynnt um töku fæðingarorlofs en ekki hafið það. Þær röksemdir voru gefnar fyrir uppsögninni að um skipulagsbreytingar væri að ræða sem fælust í því að staða A yrði lögð niður og þjónustunni útvistað til auglýsingastofu. Hæstiréttur taldi félagið ekki hafa axlað sönnunarbyrði sína og taldi uppsögnina því ólögmæta. Dómurinn byggði niðurstöðu sína m.a. á því að auglýsingastofan ætti samkvæmt samningnum einungis að verja tíma sem svaraði til um fjórðungs af fullum mánaðarlegum starfstíma A auk þess að hún hafði áður sinnt verkefnum fyrir félagið. Engar upplýsingar um sparnað af uppsögninni höfðu verið lagðar fram eða sýnt fram á annað hagræði í rekstri sökum uppsagnarinnar.
Dómur Hæstaréttar í máli nr. 229/1995 (28. mars 1996) (Dagsprent).
S var eini starfsmaðurinn á útibúi dagblaðsins Dags á Sauðárkróki. Í maí 1993 ræddi S við ritstjóra blaðsins um fæðingarorlof, en hún var þá þunguð og komin tvo mánuði á leið. Með bréfi framkvæmdastjóra Dagsprents hf. í ágúst 1993 var S sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara. Fyrir uppsögninni voru færð þau rök að loka ætti skrifstofu blaðsins á Sauðárkróki vegna rekstrarörðugleika þess. Hæstiréttur fjallaði ítarlega um rekstrarafkomu fyrirtækisins. Ekki var dregið í efa að nærtæk og eðlileg ráðstöfun hafi verið að leggja niður útibú áfrýjanda á Sauðárkróki sem leiddi til þess að konunni var sagt upp starfi. Ástæður uppsagnar voru því taldar gildar og D sýknað. Skipti ekki máli þótt þessi ráðstöfun hafi engan veginn skipt sköpum um rekstrarafkomu fyrirtækisins í heild.
Dómur Hæstaréttar 10. febrúar 2010 (11/2010) (Straumur-Burðarás).
Fallist var á með fyrirtæki að vegna mikils taps af rekstri þess á árinu 2008 og hruns bankakerfisins þá um haustið, svo og nauðsynjar endurskipulagningar í rekstri, hafi fyrirtækinu verið heimilt að segja starfsmanni upp störfum.