Vinnuveitandi ber ábyrgð á því að gera áætlun um heilsuvernd og forvarnir þegar áhættumat liggur fyrir.
Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn eða eftir atvikum félaglegur trúnaðarmaður starfsmanna eiga að taka þátt í gerð áætlunar um heilsuvernd og forvarnir og fylgjast með því hvernig henni er framfylgt.
Markmið áætlunar um heilsuvernd og forvarnir er að gefa gott yfirlit yfir áhættu- og álagsþætti og forvarnir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á heilsutjóni og slysum vegna vinnuaðstæðna og til að stuðla að öryggi, heilbrigði og vellíðan starfsmanna.
Áætlunin skal fela í sér að gerðar séu nauðsynlegar úrbætur í samræmi við niðurstöður áhættumatsins. Jafnframt skal tilgreint til hvaða aðgerða er gripið af hálfu vinnuveitanda til að koma í veg fyrir eða draga úr þeirri áhættu sem kom í ljós við áhættumatið, svo sem úrbætur varðandi skipulag og framkvæmd vinnunar, leiðbeiningar, fræðslu, þjálfun, val á tækjum, efnum eða efnablöndum, notkun öryggis- eða hlíðfarbúnaðar, innréttingar á vinnustað eða aðrar forvarnir.
Forgangsraða skal úrbótum sem grípa þarf til vegna áhættu á vinnustað og tímasetja hvenær þeim verði lokið. Þegar í stað skal bregðast við bráðri áhættu og þeirri áhættu sem auðvelt er að koma í veg fyrir. Í viðauka I með reglugerð nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum er nánar fjallað um almenn viðmið um forvarnir.
Í áætlun um heilsuvernd og forvarnir skal vera áætlun um forvarnir. Þar skal koma fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundnu áreitni og ofbeldi á vinnustað. Í áætluninni skal vinnuveitandi gera grein fyrir þeim aðgerðum sem grípa skal til komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um framangreind tilvik á vinnustað, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 1009/2015. Sjá nánar hér umfjöllun um einelti, áreitni og ofbeldi.
Þegar áhættan hefur verið metin á þann hátt sem nauðsynlegt er skulu forvarnarráðstafanir felldar inn í alla starfsemi vinnustaðarins á öllum stigum þar sem þær eiga við. Vinnuveitanda ber að laga þessar ráðstafanir að breyttum kringumstæðum og hafa að markmiði að bæta ríkjandi aðstæður.