Dómur Hæstaréttar 29. nóvember 2001 (153/2001) (Lykilhótel). Brotthlaup starfsmanns vegna meintra brota á ákvæðum ráðningarsamnings um endurskoðun launakjara, Hjúalög.
Ekki var talið að ákvæði í ráðningarsamningi starfsmannsins um endurskoðun launakjara yrði túlkað svo að það fæli í sér skilyrðislaust loforð um hækkun launa, heldur eingöngu loforð um endurskoðun sem hefði getað haft í för með sér hvort heldur hækkun eða lækkun eða þá óbreytt launakjör. Það að ekki varð af endurskoðun launakjara starfsmanns var ekki talin slík vanefnd samkvæmt reglum vinnuréttar, sbr. og 24. gr. hjúalaga nr. 22/1928, að réttlætti fyrirvaralausa riftun á vinnusamningi. Starfsmaðurinn var því talinn hafa fyrirgert rétti til þeirra launa í uppsagnarfresti sem hann krafðist.
Dómur Hæstaréttar 30. mars 2017 (494/2016) (Birtingur). Meint brotthlaup. Vinnuveitandinn ekki hreyft athugasemdum.
Krafa félagsins vegna ólögmæts brotthlaups byggðist á því að ekki hafi náðst samkomulag við starfsmanninn um starfslok heldur hafi hann einhliða ákveðið að hætta. Fyrir lá að engar athugasemdir voru gerðar við hann af því tilefni svo og tölvuskeyti frá félaginu til hans um að lokauppgjör færi fram um næstu mánaðamót. Þótti þetta benda ótvírætt til þess að félagið hafi fallist á að starfsmaðurinn ynni ekki út uppsagnarfrest sinn. Krafa starfsmannsins um vangoldinn laun og ógreitt orlof var því tekin til greina og hafnað var kröfu félagsins um bætur vegna ólögmæts brotthlaups.
Dómur Hæstaréttar 18. mars 2004 (368/2003) (Klif) Brotthlaup. Aðgerðarleysi.
Félag höfðaði mál á hendur fyrrum starfsmanni sínum, vegna brotthlaups úr starfi, sem það taldi hafa verið án fyrirvara og brot á ráðningarsamningi. Talið var að með aðgerðarleysi í næstum fjögur ár hefði hann sýnt slíkt tómlæti að hann hefði fyrirgert hugsanlegum rétti til endurgreiðslu launa og skaðabóta vegna ráðningarslitanna.
Dómur Hæstaréttar 11. október 2007 (61/2007) (Jakob ehf.). Brotthvarf úr skipsrúmi. Sjómannalög
Sjómaður hvarf úr skipsrúmi og krafðist greiðslu vangoldinna launa. Félag krafðist sýknu með vísan til 60. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og taldi sig eiga gagnkröfu á hendur starfsmanninum sem væri hærri en sýknukrafan vegna ólögmæts brotthlaups. Dómurinn taldi að með hliðsjón af forsögu ákvæðisins yrði að skýra það þannig að það tæki ekki til þeirra aðstæðna sem um ræddi en óumdeilt var að félagið skuldaði starfsmanninum laun og að uppgjörshættir þess voru ekki í samræmi við gildandi kjarasamning og ákvæði laga. Því var ekki fallist á að félaginu væri unnt að skerða greiðslur til starfsmannsins á grundvelli 60. gr. sjómannalaga vegna brotthvarfs hans úr skiprúmi.
Dómur Hæstaréttar 27. nóvember 2003 (233/2003). (Lónfell). Ólögmætt brotthlaup. Meðalhófsbætur skv. hjúalögum.
Deilt var um það hvort sjómanni sem var á uppsagnarfresti hefði verið heimilt að víkja úr starfi vegna vangreiddra launakrafna. Að mati Hæstaréttar var um ólögmætt brotthlaup að ræða þar sem:
(i) ósannað var að vinnuveitandinn hefði brotið af sér með refsiverðum hætti við launauppgjörið,
(ii) starfsmaðurinn gaf vinnuveitandanum ekki kost á að greiða vangoldin laun áður en hann rifti samningi aðila fyrirvaralaust og hvarf úr vinnu,
(iii) hin vangreiddu laun voru fyrir tiltekið tímabil vegna ákveðinna starfa og starfsmaðurinn hafði unnið hjá vinnuveitandanum í rúma 7 mánuði eftir það og fengið rétt uppgert.
Vanefnd útgerðarinnar á greiðslu launa þótti, eins og á stóð, ekki þess eðlis að hún hafi heimilað sjómanninum að slíta vinnusamningi þeirra fyrirvaralaust.
Samkvæmt kjarasamningi og dómaframkvæmd var sjómanninum gert að bæta útgerðinni það tjón sem hann olli með brotthlaupi. Var þá gert ráð fyrir meðalhófsbótum samkvæmt 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928 eða helmingi af kaupi fyrir þann tíma sem eftir var af uppsagnarfresti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2010 (E-5574/2010). (Grand Hótel) Ólögmætt brotthlaup. Meðalhófsbætur skv. hjúalögum.
Starfsmaður hótels hvarf brott úr starfi á þeim grundvelli að hann fengi ekki greitt samkvæmt kjarasamningi. Um heimild starfsmanns til þess að hverfa brot úr starfi vegna meintra vanefnda vinnuveitanda tók dómurinn fram að „í eðli sambands vinnuveitanda og starfsmanns felst sú grunnregla að starfsmaðurinn skuldbindur sig til að inna af hendi vinnu samkvæmt ráðningarsamningi, ýmist fastlaunasamningi eða samningi um tímakaup, og fær á móti greidd laun. Öll frávik frá slíkri reglu sem felast í heimild starfsmanns til að inna ekki vinnuskylduna af hendi við tilteknar aðstæður verður að skýra þröngt og ber viðkomandi starfsmaður um leið sönnunarbyrði fyrir tilvist slíkra frávika.“
Að mati dómsins var ekki leitt í ljós að vinnuveitandinn hefði vangreitt laun fyrir þau tímabil sem um var deilt. Þar sem ekki var samið um heimild starfsmanns til þess að vinna ekki út uppsagnarfrest sinn gerðist hann sekur um ólögmætt brotthlaup og var dæmdur til þess að greiða vinnuveitanda sínum meðalhófsbætur samkvæmt 25. gr. hjúalaga nr. 22/1928.