Flutningur og fyrning orlofs

Orlofslög hafa að geyma ákvæði um flutning orlofs milli orlofsára og með hvaða hætti orlofskröfur fyrnast.

Flutningur orlofs milli orlofsára

Óheimilt að flytja orlof milli orlofsára
Orloftöku skal lokið fyrir lok orlofsársins, þ.e. fyrir 30. apríl ár hvert, sbr. 4. mgr. 4. gr. orlofslaga.

Þá er óheimilt að flytja orlof milli orlofsára, þ.e. geyma hluta orlofs til næsta orlofsárs, sbr. 13. gr. orlofslaga

Ef orlof er ekki tekið fyrir lok orlofsárs fellur því niður réttur starfsmanns til orlofsdaga og orlofslauna, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 376/2011

Í dóminum var talið að þótt fyrir lægi að annir hafi komið í veg fyrir töku orlofs væri ekki sýnt fram á að yfirmenn fyrirtækisins hafi meinað starfsmanninum að taka orlof á orlofsárinu, né að svo hafi samist um milli aðila að orlofsdagar hans yrðu gerðir upp með öðrum hætti. Orlof stafsmannsins vegna fyrri ára var því samkvæmt framangreindu, og vegna fyrirmæla 13. gr. orlofslaga fallið niður.

Önnur framkvæmd hjá vinnuveitanda
Nokkuð algengt er að vinnuveitendur gefi starfsmönnum sínum kost á að flytja ótekið orlof yfir á nýtt orlofsár. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við þá framkvæmd. 

Ef flutningur orlofs milli orlofsára hefur viðgengist hjá vinnuveitanda þá kann hann að glata rétti til að bera fyrir sig 13. gr. orlofslaga, sér í lagi ef hann hefur samþykkt flutning orlofs.

Mikilvægt er að vinnuveitendur stemmi stigu við flutningi orlofs milli orlofsára enda mikilvægt að starfsmenn taki sér árlegt hlé frá vinnu, a.m.k. fjórar vikur. Til að árétta regluna má tilgreina í ráðningarsamningum starfsmanna eða í reglum vinnuveitanda sem kynntar eru í tengslum við skipulagningu orlofs að orlof verði einungis flutt yfir á nýtt orlofsár með skriflegu samþykki framkvæmdastjóra.

Vinnuveitendur hafa þurft að bregðast við óhóflegri uppsöfnun orlofs einstaka starfsmanna. Er þeim þá gefinn tiltekinn frestur til að taka út sitt orlof, t.d. 1 - 2 orlofsár, en eftir það falli ótekið orlof niður eða flutningur aðeins heimill með samþykki framkvæmdastjóra.

Frestun orlofs vegna veikinda
Ef fresta þarf orlofstöku vegna veikinda starfsmanns skal orlof tekið eins fljótt er eftir að veikindum lýkur, sbr. 2. mgr. 6. gr. orlofslaga. Taka orlofs getur þannig vegna veikinda frestast fram á nýtt orlofsár. 

Fyrning orlofskrafna

Orlofskröfur á hendur vinnuveitanda fyrnast skv. 14. gr. orlofslaga eftir sömu reglum og kaupkröfur, þ.e. á 4 árum. Dómstólar hafa við fyrningu orlofskrafna miðað við að orlofslaun liðins orlofsárs gjaldfalli 1. maí, þ.e. við upphaf nýs orlofsárs, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 618/2006.

Dæmi: 
Starfsmaður telur sig eiga inni vangreidd orlofslaun vegna starfstíma frá 1. maí 2012 til 1. maí 2014. Hann höfðar mál til innheimtu í september 2017. Orlofslaun vegna orlofsársins 2012 - 2013 gjaldféllu 1. maí 2013 og er því krafa vegna þeirra fyrnd. Orlofslaun vegna orlofsársins 2013 - 2014 gjaldféllu hins vegar 1. maí 2014 og er krafan ekki fyrnd enda fyrning rofin með málshöfðun innan fjögurra ára. 

Frá þessu kunna að vera frávik ef kjarasamningur kveður sérstaklega á um annan gjalddaga orlofslauna. 

Tómlæti

Þótt orlofskrafa sé ekki fyrnd þá getur hún fallið niður sökum tómlætis / aðgerðarleysis starfsmanns við að hafa kröfuna uppi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 106/2013.

 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.