Í 8. gr. laga nr. 19/1979 segir að starfsmanni ber að sanna, óski atvinnurekandi þess, að hann hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss.
Skilgreining
Óvinnufærni hefur verið skilgreind á þann veg að sjúkdómur eða slys hafi það alvarleg áhrif á heilsu (starfsgetu) starfsmannsins að honum sé ókleift að vinna störf í þágu fyrirtækisins. Ástand starfsmannsins, andlegt eða líkamlegt, er þá þannig, að það hindrar hann í því að inna starf sitt af höndum.
Það er með öðrum orðum ekki nóg að staðfesta tilvist einhvers sjúkdóms eða slyss, sýna þarf fram á að starfsmaður sé með öllu óvinnufær vegna sjúkdómsins eða slyssins.
Aukinheldur telst starfsmaður ekki óvinnufær vegna þess eins, að hann hefur farið að ráðleggingum læknis t.d. um að minnka við sig starfshlutfall á síðasta hluta meðgöngu. Slíkar ráðleggingar, þótt skynsamlegar séu, breyta því ekki að starfsmaður telst vinnufær.
Þá getur eigin ákvörðun starfsmanns t.d. um að fara á heilsuhæli, gangast undir læknisaðgerð eða því um líkt, aldrei leitt til óvinnufærni og breytir þar engu, þótt augljóst sé að maður geti ekki vegna þessa sinnt starfi sínu á meðan.
Fyrirsjáanleg óvinnufærni - aðgerð til að fyrirbyggja óvinnufærni
Það er ekki alltaf gerð sú krafa að starfsmaður hafi verið óvinnufær við upphaf fjarvista. Í kjarasamningum verkafólks, iðnaðarmanna og verslunar- og skrifstofufólks er sérstaklega fjallað um aðkallandi læknisaðgerðir. Þar segir:
„Aðilar eru sammála um að auk veikinda og slysatilvika verði veikindaréttur samkvæmt samningi þessum virkur þurfi starfsmaður að gangast undir aðkallandi og nauðsynlega læknisaðgerð til að draga úr eða eyða afleiðingum sjúkdóms sem fyrirsjáanlegt er að leiði til óvinnufærni.
Ofangreind skilgreining felur ekki í sér breytingu á sjúkdómshugtaki vinnuréttar eins og það hefur verið túlkað af dómstólum. Þó eru aðilar sammála um að aðgerðir sem starfsmaður þarf að gangast undir, til að bæta úr afleiðingum slyss við vinnu, leiði einnig til þess að veikindaréttur skv. samningi þessum verði virkur.”
Veikindarétturinn verður með öðrum orðum virkur þegar um er að ræða:
- aðkallandi og nauðsynlega læknisaðgerð
- til að draga úr eða eyða afleiðingum sjúkdóms
- sem fyrirsjáanlegt er að leiði til óvinnufærni
Rétturinn verður einnig virkur þegar læknisaðgerð er ætlað að bæta úr afleiðingum vinnuslysa.
Læknisfræðilegt mat
Við mat á því hvort starfsmaður telst óvinnufær er fyrst og fremst byggt á læknisfræðilegu mati og oft getur verið erfitt fyrir vinnuveitanda að hnekkja því, sjá dóm Hæstaréttar 218/1995 (1996, bls. 2023) þar sem dómurinn taldi fyrirtækinu ekki hafa tekist að hnekkja áliti læknis. Til marks um vafann taldi Hæstiréttur rétt að starfsmaðurinn bæri sjálfur málskostnað sinn á báðum dómstigum.
Starfsmaður fær til léttari starfa
Hugsanlegt er að starfsmanni sé ókleift að vinna venjuleg störf sín, en hann geti á hinn bóginn unnið önnur léttari störf. Þá er starfsmaður einungis óvinnufær til ákveðinna starfa.
Í þessum tilvikum ber starfsmanni að mæta til vinnu og vinna þau störf sem hann getur framkvæmt, enda verða þau störf talin honum samboðin, sbr. dóm Hæstaréttar 131/1981 (1983, bls. 1707).
Sú heimild er einnig háð því að starfsmaður sé óvinnufær til þeirra starfa sem hann er ráðinn til, nýja starfið sé auðveldara miðað við heilsu hans og honum því kleift að sinna því meðan hann er að ná sér að fullu.
Vinnuveitanda er þá rétt að skora á starfsmanninn að mæta til vinnu og vinna þau störf sem hann getur sinnt. Neiti starfsmaður er vinnuveitanda rétt að senda honum formlegt bréf þar sem honum er boðið léttara starf og gerð grein fyrir afleiðingum neitunar.
Heimild til að flytja starfsmann milli starfa getur einungis verið tímabundin.