Samráð við trúnaðarmann stéttarfélags
Áformi fyrirtæki hópuppsagnir skal svo fljótt sem auðið er og áður en kemur til uppsagna hafa samráð við trúnaðarmenn viðkomandi stéttarfélaga.
Hafi ekki verið kjörinn trúnaðarmaður kemur annar fulltrúi starfsmanna sem þeir hafa valið í hans stað.
Hvenær verður samráðsskyldan virk?
Samráðsskyldan verður virk hafi vinnuveitandi áform um hópuppsagnir. Er þá gert ráð fyrir að hann hefji samráðið tímanlega og áður en hann hefur tekið ákvörðun um uppsagnirnar.
Tilkynning til Vinnumálastofnunar
Hópuppsagnir skal einnig tilkynna til þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar, sbr. 7. gr. laga um hópuppsagnir.
Hvað er samráð og hvernig á að standa að því?
Í samráði felst skylda vinnuveitanda til að kynna og ræða við trúnaðarmann eða fulltrúa starfsmanna um áformin, rökstyðja þau og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin af vinnuveitanda.
Vinnuveitandi skal vegna samráðs aðila láta trúnaðarmanni eða fulltrúa starfsmanna í té allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar uppsagnir til að gera honum kleift að koma með raunhæfar tillögur og a.m.k. tilgreina skriflega;
a) ástæður fyrirhugaðra uppsagna,
b) fjölda starfsmanna sem til stendur að segja upp og hvaða störfum þeir gegna,
c) hve margir eru að jafnaði í vinnu og hvers konar störfum þeir gegna,
d) á hvaða tímabili fyrirhugaðar uppsagnir eiga að koma til framkvæmda,
e) viðmiðanir sem til stendur að nota við val á starfsmönnum sem segja á upp,
f) upplýsingar um sérstakar greiðslur til starfsmanna vegna uppsagna aðrar en þær sem kveðið er á um í lögum eða kjarasamningum og þá hvernig þær eru reiknaðar.
Þessar upplýsingar skulu vera skriflegar, sjá eyðublað fyrir upplýsingagjöf og ber að senda upplýsingar skv. liðum a - e til þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á viðkomandi svæði.
Hvert er markmið samráðs?
Markmið samráðs er að leita leiða til að forðast hópuppsagnir eða fækka þeim starfsmönnum sem fyrir þeim verða og draga úr afleiðingunum með hjálp félagslegra aðgerða sem hafa það meðal annars að markmiði að auðvelda flutning í önnur störf eða endurhæfingu starfsmanna sem áformað er að segja upp, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.
Í samráði felst ekki áskilnaður um samþykki
Krafa um samráð jafngildir ekki samþykki. Í samráði felst ekki áskilnaður um samþykki trúnaðarmanns eða fulltrúa starfsmanna fyrir þeim ákvörðunum sem vinnuveitandi tekur að höfðu samráði.