Hvíldartími

Milli SA og ASÍ og landssambanda þess er í gildi sérstakur samningur um tiltekna þætti er varða skipulag vinnutíma frá 30. desember 1996. Samningurinn byggir á tilskipun Evrópusambandsins um sama efni og er birtur í útgefnum kjarasamningum SA.

Í flest öllum kjarasamningum SA og landssambanda ASÍ er einnig að finna ákvæði um hvíldartíma og vikulegan frídag, sbr. gr. 2.4 í kjarasamningum SA við VR, SGS og Eflingar. Þessi ákvæði eru að mestu eins en í kjarasamningum iðnaðarmanna eru þó sérákvæði um hvíld vegna útkalla og þegar hvíld fer undir 8 klst., sbr. t.d. kjarasamning Samiðnar, gr. 2.8 og RSÍ, gr. 2.7.

Í IX. kafla laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er auk þess kveðið á um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma. Sérreglur gilda um vinnu- og hvíldartíma barna og ungmenna skv. X. kafla sömu laga.

Þá eru einnig sérreglur varðandi bifreiðastjóra. Sjá nánar kafla um aksturs- og hvíldartíma ökumanna.

TIL HVERRA NÁ REGLURNAR?

Kjarasamningar taka almennt til allra launamanna í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Þeir ákveða þannig lágmarkskjör þeirra sem starfa í hlutaðeigandi starfsgrein, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks.

Allir vinnuveitendur í viðkomandi starfsgrein eru bundnir af ákvæðum kjarasamninganna án tillits til þess hvort þeir eigi aðild að SA eða ekki. Ófélagsbundnir vinnuveitendur og launamenn eru því bundnir af hvíldarsamningi SA og ASÍ og öðrum ákvæðum kjarasamninga um lágmarkshvíld.

Nokkrir starfshópar og starfsstéttir falla þó ekki undir hvíldartímareglur kjarasamninga ASÍ og SA skv. gildissviðsákvæði samningsins frá 1996. Nánar tiltekið ná reglurnar ekki til:
1. Æðstu stjórnanda. Með æðstu stjórnendum er einkum átt við forstjóra og framkvæmdastjóra.
2. Starfsmanna sem ráða vinnutíma sínum sjálfir. Hér er átt við starfsmenn sem hafa vald til að taka sjálfstæðar ákvarðanir, þ.á m. um vinnutíma sinn.         
3. Farmanna á flutningaskipum og flugliða, þ.e. áhafnir um borð í flugvélum. Um þá gilda aðrar reglur.
4. Fiskimanna og aðra þá sem vinna um borð í fiskiskipum. Samningurinn tekur því hvorki til þeirra sem starfa við búnað í skipum sem notaður er til fermingar, affermingar eða viðgerða né heldur til þeirra sem lögskráðir eru, nema þeir vinni undir verkstjórn úr landi.
5. Bílstjóra sem falla undir reglugerð nr. 605/2010 um aksturs- og hvíldartíma ökumanna. Sjá nánar umfjöllun um aksturs- og hvíldartíma ökumanna.

HELSTU ÁKVÆÐI HVÍLDARTÍMAREGLNA KJARASAMNINGA

Daglegur hvíldartími          
Lágmarkshvíld er 11 klukkustundir á sólarhring.

Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími fari yfir 13 klst. á sólarhring.

Samið hefur verið um sérstakt álag, frítökurétt, ef ekki næst 11 klst. hvíld í kjölfar vinnulotu.

Vinnulota má almennt ekki vera lengri en 16 klst. á sólarhring.

Vikulegur frídagur  
Starfsmaður á rétt á vikulegum frídegi.

Frídegi má ekki fresta nema samkomulag sé um það við starfsmann.

Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vikulegum frídegi sé ávallt frestað til næstu viku.

Hámark vikulegs vinnutíma          
Hámarksvinnutími má að jafnaði ekki verða meiri en 48 virkar klst. á viku hjá sama vinnuveitanda, m.v. 6 mánaða viðmiðunartímabil.

MEGINREGLAN UM 11 KLST. LÁGMARKSHVÍLD

Vinnutíma skal haga þannig að á hverjum sólarhring, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmaður a.m.k. 11 klst. samfellda hvíld. Meginreglan er að veita skal starfsmanni 11 klst. samfellda hvíld strax í beinu framhaldi af vinnulotu. Vinna má þó aldrei standa lengur en í 16 klst. Sé starfsmaður sérstaklega beðinn um að mæta til vinnu áður en fullum hvíldartíma er náð skapast frítökuréttur, 1½ klst. í dagvinnu fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist.

Óheimilt er að skipuleggja vinnu þannig að vinnutími fari yfir 13 klst. Kjarasamningar banna því beinlínis að unnið sé lengur en 13 klst. nema það sé vegna ófyrirséðra aðstæðna.

Sólarhringurinn miðast við byrjun vinnudags    
Með byrjun vinnudags er átt við venjulegt upphaf vinnu viðkomandi starfsmanns eða starfshóps. Byrji vinnudagur reglulega t.d. kl. 8:00 skal miða við það tímamark. Hafi starfsmaður á hinn bóginn fastan vinnutíma sem hefst t.d. kl. 20:00 skal sólarhringurinn miðaður við það tímamark.

Dæmi:
Venjubundinn vinnutími hefst kl. 8:00. Starfsmaður vinnur fram til kl. 24:00. Hann skal taka 11 klst. hvíld í kjölfar vinnulotunnar og mætir því til vinnu kl. 11:00 nema hann sé sérstaklega beðinn um annað. Hann heldur dagvinnulaunum sínum milli 08:00 og 11:00 en öðlast ekki frítökurétt.

Dæmi:
Venjubundinn vinnutími hefst kl. 8:00. Starfsmaður er kallaður út af ófyrirséðum orsökum á miðnætti eftir frídag, t.d. á aðfaranóttu mánudags. Hann vinnur til morguns og áfram til kl. 16:00 næsta dag.

Vinna og hvíld er því sem hér segir:

Sunnudagur 08:00 – 24:00           Hvíld 16 klst.

                           00:00 – 08:00             Vinna

Mánudagur  08:00 – 16:00            Vinna

                           16:00 –  08:00            Hvíld 16 klst.

Starfsmaðurinn náði því meira en fullum hvíldartíma áður en vinna hófst á miðnætti á sunnudeginum og aftur eftir að vinnu lauk á mánudegi. Hann fékk því samningsbundna hvíld báða dagana, m.v. 24 klst. tímabil frá 08:00 til 08:00. Hann á því ekki rétt á frítökurétti.

Vinnulotan má þó ekki verða lengri en 16 klst. og því fer starfsmaður heim kl. 16:00 en heldur föstum launum sínum þann dag.

Vinnutíma starfsmanna á að skipuleggja með tilliti til hvíldartímaákvæða.

Útkall eða yfirvinna getur verið fyrirséð. Ef svo er getur þurft að senda starfsmenn heim í hvíld að deginum til þess að þeir fái a.m.k. tilskilda 8 klst. lágmarkshvíld.

Starfsmenn eiga ekki að mæta aftur til vinnu fyrr en að aflokinni 11 klst. hvíld nema þeir séu sérstaklega beðnir um það.

Dæmi: 
Ljóst er að morgni mánudags að vinna þarf tiltekið verk um kvöldið sem mun taka meginhluta næturinnar.

Þeir starfsmenn sem vinna eiga verkið eru því sendir heim á hádegi og sagt að koma aftur kl. 20:00 að aflokinni 8 klst. hvíld.

Þeir vinna til kl. 5:00 á þriðjudagsmorgni og mæta aftur kl. 8:00 og vinna til kl. 17:00. Vinna og hvíld er því sem hér segir:

Mánudagur 08:00 – 12:00                Vinna

                          12:00 – 20:00                 Hvíld 8 klst.

                          20:00 – 05:00                 Vinna

                          05:00 – 08:00                 Hvíld 3 klst.

Þriðjudagur 08:00 – 17:00               Vinna

                          16:00 – 08:00                 Hvíld 16 klst.

Starfsmennirnir halda föstum launum sínum þann tíma sem þeir voru í hvíld á mánudeginum. Yfirvinna er greidd fyrir þær stundir sem unnar voru þá um kvöldið og aðfaranótt þriðjudagsins. Þar sem 3 klst. vantaði upp á 11 klst. samfellda hvíld öðlast starfsmennirnir 4,5 klst. (3 klst. x 1,5) frítökurétt. Engin aukagreiðsla kemur hins vegar vegna þriðjudagsins. Starfsmennirnir fá fulla 11 klst. hvíld eftir að vinnu líkur þann dag.

STYTTING HVÍLDARTÍMA

Í undantekningartilvikum er heimilt að víkja frá meginreglunni um 11 klst. samfellda lágmarkshvíld á sólarhring við björgun verðmæta, vegna ófyrirséðra atburða og við skipuleg vaktaskipti.

Víkja má frá daglegum hvíldartíma ef það er óhjákvæmilegt til að bjarga verðmætum.   

Það á fyrst og fremst við ef truflun verður á starfsemi vegna ytri aðstæðna, svo sem vegna veðurs eða annarra náttúruafla, slysa, orkuskorts, bilana í vélum, tækjum eða öðrum búnaði eða annarra slíkra ófyrirséðra atburða, svo og við sérstakar aðstæður aðrar þegar bjarga þarf verðmætum.

Ef heimildin til fráviks frá 11 klst. samfelldri hvíld á sólarhring er nýtt skal samsvarandi hvíld koma í staðinn, sbr. einnig ákvæði samninga um frítökurétt.

Á skipulegum vaktaskiptum er heimilt að stytta hvíldartíma í allt að átta klst. Heimildin á einungis við þegar skipt er t.d. af dagvaktasyrpu yfir á næturvaktasyrpu og öfugt.

Óheimilt er að skipuleggja vaktir þannig að starfsmaður fái alltaf 8 klst. hvíld milli vakta. Starfsmenn eiga ekki rétt á frítökurétti þegar hvíld er stytt í allt að 8 klst. á skipulögðum vaktaskiptum.

FRÍTÖKURÉTTUR

Starfsmaður á ekki að þurfa að mæta til vinnu að nýju fyrr en 11 klst. hvíld er náð nema hann sé sérstaklega beðinn um að koma fyrr.

Í nær öllum kjarasamningum SA er kveðið á um sérstakan frítökurétt, þ.e. að starfsmaður fái samsvarandi frí og nemur skerðingu á 11 klst. hvíld með 50% álagi.

Óski vinnuveitandi þess sérstaklega að starfsmaður komi til vinnu áður en 11 klst. samfelldri hvíld er náð frestast hvíldin þar til síðar. Við það skapast frítökuréttur, 1½ klst. í dagvinnu fyrir hverja klst. sem hvíldin skerðist. Mæti starfsmaður óumbeðinn áður en hann hefur náð hvíldinni skapar hann sér engan rétt til frítökuréttar.

Ekki er miðað einvörðungu við heilar stundir heldur einnig hluta úr klukkustund.

Dæmi:
Vinna hefst kl 8:00. Starfsmaður vinnur til kl. 24:00 á mánudegi. Hann er beðinn um að mæta til vinnu á þriðjudegi á reglubundnu upphafi vinnutíma kl. 08:00. Starfsmaðurinn skal fá þann tíma sem vantar upp á 11 klst. hvíldina, þ.e. 3 klst., með hvíld síðar í reglubundnum vinnutíma. Frítökuréttur skal vera 1½ klst. fyrir hverja 1 klst. sem vantar upp á 11 klst. samfelldu hvíldina, í þessu dæmi 3 klst. x 1½ = 4,5 klst. Þó er heimilt, ef starfsmaður óskar þess, að greiða hvíldaruppbótina (3 x ½ klst.) út í peningum.

Dæmi:
Unnið er til klukkan 22:10. Vinna hefst að nýju kl. 8:00 samkvæmt sérstakri beiðni verkstjóra. Hvíldartíminn er því skertur um 1 klst. og 10 mínútur. Starfsmenn eiga því frítökurétt sem nemur 1 klst. og 45 mín. (70 mín. x 1,5 = 105 mín.). 

Reglan um frítökurétt á ekki við þegar hvíld er stytt í allt að 8 klst. á skipulögðum vaktaskiptum.

11 KLST. HVÍLD Á UNDAN FRÍDEGI

Vinna á undan frídögum eða hátíðisdögum getur veitt frítökurétt.

Í kjarasamningum er sérstaklega tekið fram að vinni starfsmaður það lengi á undan frídegi eða helgi að ekki náist 11 klst. hvíld, miðað við venjubundið upphaf dagvinnu, öðlist hann frítökurétt með sama hætti og aðra daga. Það þýðir að óskert 11 klst. samfelld hvíld skal einnig veitt á sólarhringnum á undan frídegi.

Ef sú hvíld næst ekki fyrir venjubundið upphaf dagvinnu myndast frítökuréttur sem nemur mismuninum á 11 klst. og þeim tíma sem á vantar að hvíldin sé fullar 11 klst. Sá stundafjöldi er margfaldaður með 1½ og fæst þá frítökurétturinn. 

Dæmi:
Starfsmaður vinnur frá kl. 08:00 til kl. 24:00 á föstudegi og á frí á laugardegi.

Miðað við venjubundið upphaf vinnudags hefði hann einungis fengið 8 klst. hvíld og öðlast því frítökurétt sem nemur 4,5 klst. (3 x 1,5).

Mæti hann til vinnu kl. 11:00 eftir 11 klst. hvíld fær hann samt sem áður frítökuréttin.

Ef um fasta vinnu á laugardegi er að ræða mætir hann kl. 11:00, heldur launum frá byrjun vinnudags til kl. 11:00 en fær ekki frítökurétt.

ÚTKÖLL OG AUKAVAKTIR

Í kjarasamningum eru nú tvær reglur um hvíld í tengslum við útköll. Annars vegar hjá verkamönnum og verslunarmönnum og hins vegar hjá félagsmönnum í Rafiðnaðarsambandinu, Samiðn, Matvís og verkstjórafélögum. Hvað aðra samninga varðar vísast til viðkomandi kjarasamnings.

Verkafólk og verslunarmenn         
Sé lágmarkshvíldin rofin með útkalli skapast frítökuréttur.

Frítökurétturinn reiknast sem mismunurinn á 11 klst. og lengsta hléi á tímabilinu frá upphafi vinnudags til upphafs næsta vinnudags, enda sé það að lágmarki átta klst. Ef ekki næst a.m.k. átta klst. samfelld hvíld verður að veita starfsmanni minnst átta klst. hvíld eftir síðasta útkall. Fái starfsmaður minna en 11 klst. samfellda hvíld á sólarhringnum, miðað við upphaf vinnudags, öðlast hann frítökurétt, 1½ klst. fyrir hverja stund sem vantar upp á 11 klst. hvíldina. Sama gildir sé starfsmaður kallaður út aðfaranótt frídags eða helgidags. 

Hafa ber í huga að kjarasamningarnir gera ekki ráð fyrir að heimilt sé að stytta samfelldan hvíldartíma á sólarhring niður fyrir átta stundir.

Dæmi:
Vinna hefst kl 8:00. Starfsmaður vinnur til kl. 17:00 á mánudegi. Hann er kallaður út kl. 21:00 um kvöldið og stendur útkallið til kl. 24:00.

Í þessu dæmi getur tvennt komið til:

  1. Starfsmaður skal að þeirri vinnu lokinni fá 11 klst. samfellda hvíld. Starfsmaður mætir aftur til vinnu á þriðjudegi kl. 11:00 en heldur óskertum daglaunum þann dag.
  2. Starfsmaður er beðinn um að mæta til vinnu á þriðjudegi á reglubundnum vinnutíma kl. 08:00. Vegna þessa fráviks frá 11 klst. samfelldu hvíldinni skal starfsmaðurinn fá þann tíma sem vantar upp á 11 klst. hvíldina, þ.e. 3 klst., með hvíld síðar í reglubundnum vinnutíma án skerðingar á föstum daglaunum.

Frítökuréttur skal vera 1½ klst. fyrir hverja 1 klst. sem vantar upp á 11 klst. samfelldu hvíldina, í þessu dæmi 3 x 1½ klst. = 4½ klst. Eins og í öðrum tilfellum er heimilt að greiða hvíldaruppbótina (3 x ½ klst.) út í peningum en þó aðeins ef starfsmaður óskar þess. 

Dæmi:
Vinna hefst kl 8:00. Starfsmaður vinnur til kl. 16:00 á mánudegi. Hann er kallaður út kl. 24:00 um kvöldið og útkallið stendur til kl. 08:00.

Þar sem starfsmaðurinn hefur þegar náð 8 klst. samfelldri hvíld á sólarhringnum frá upphafi vinnudags er heimilt að hann vinni áfram án sérstakrar hvíldar.

Í því tilfelli hefur starfsmaður öðlast frítökurétt sem er 3 x 1½ klst. = 4½ klst.

Að afloknum þeim vinnudegi hefur starfsmaðurinn unnið í 16 klst. samfleytt og má ekki vinna lengur.

Aukavaktir - vinnulota getur orðið allt að 16 klst.
Í vaktavinnukerfum getur komið upp sú staða að starfsmenn þurfa að vinna aukavaktir vegna forfalla eða af öðrum ófyrirséðum ástæðum. Kjarasamningarnir heimila slíkar aukavaktir þannig að vinnulota geti orðið allt að 16 klst. og skal þá veita 11 klst. hvíld strax eftir það. Sé starfsmaður kvaddur til vinnu áður en þeirri hvíld er náð, að fenginni 8 klst. samfelldri hvíld, myndast frítökuréttur fyrir þann tíma sem vantar upp á 11 klst. hvíldina samkvæmt reglunni um 1½ klst. á móti hverri frestaðri hvíldarstund. Í samræmi við meginregluna um 13 klst. hámarksvinnulotu og 11 klst. samfellda hvíld er þó eðlilegra að aukavöktum sé skipt í tvennt og reynt að manna þær með tveimur starfsmönnum í stað eins.

Dæmi: 
Starfsmaður vinnur á þrískiptum 8 stunda vöktum og er á morgunvakt. Í lok vaktar kemur skyndilega upp að starfsmaður á síðdegisvakt komi ekki til vinnu vegna veikinda og er morgunvaktarmaðurinn beðinn um að hlaupa í skarðið. Hann gerir það og er síðan beðinn um að koma á réttum tíma á morgunvaktina næsta dag. Hann fékk aðeins aðeins átta klst. hvíld og safnar því frítökurétti sem er 4½ klst. (3 x 1½ = 4½). Betri framkvæmd á samningnum væri þó að óska eftir því að ofangreindur starfsmaður stæði fyrri hluta síðdegisvaktarinnar og að næturvaktarstarfsmaðurinn kæmi fyrr og stæði síðari hluta síðdegisvaktarinnar.

Iðnaðarmenn og verkstjórar
Ljúki útkalli starfsmanns fyrir kl. 00:00 myndast ekki frítökuréttur ef starfsmaður nær samanlagt 11 klst. hvíld frá upphafi reglulegs vinnudags til upphafs þess næsta (vinnusólarhringur). Ef samfelld hvíld fer niður fyrir 8 klst. fær starfsmaður hins vegar yfirvinnu auk frítökutökuréttar vegna tíma sem vantar upp á 11 klst. hvíld.

Ljúki útkalli á tímabilinu kl. 00:00 – kl. 06:00 reiknast ekki frítökuréttur ef 11 klst. samfelld hvíld næst fyrir eða eftir útkallið. Að öðrum kosti skal frítökuréttur miðast við muninn á lengstu hvíld og 11 klst.

Dæmi: 
Starfsmaður vinnur frá kl. 08:00 til kl. 17:00. Hann er kallaður út og vinnur frá kl. 21:00 til kl. 23:00. Útkallinu lýkur fyrir miðnætti og því öðlast hann ekki frítökurétt þar sem samanlögð hvíld nær 11 klst.

Dæmi: 
Starfsmaður vinnur frá kl. 08:00 til kl. 17:00. Hann er kallaður út og vinnur frá kl. 01:00 til kl. 03:00. Hann kemur aftur til vinnu kl. 08:00. Lengsta hvíld er 8 klst. og því vantar 3 klst. upp á 11 klst. hvíldina. Frítökuréttur er því 4,5 klst. (3 klst. x 1,5).

Dæmi: 
Starfsmaður vinnur frá kl. 08:00 til kl. 19:00. Hann er kallaður út og vinnur frá kl. 01:00 til kl. 03:00. Hann er beðinn um að koma til vinnu kl. 08:00 næsta dag.

Þótt samanlögð hvíld nái 11 klst. þá gildir sú regla ekki því útkallinu lýkur eftir miðnætti. Lengsta hlé er 6 klst. og því vantar 5 klst. upp á 11 klst. hvíld. Frítökuréttur er 7,5 klst. (5 klst. x 1,5) en að auki skal greiða 2 klst. í yfirvinnu þar sem að 2 klst. vantaði upp á að 8 klst. samfelldri hvíld væri náð.

Sérreglur í kjarasamningum RSÍ, Samiðnar og annarra félaga byggingamanna, Matvís og verkstjóra
Í kjarasamningum ofangreindra stéttarfélaga hefur verið samið um auknar greiðslur náist ekki 8 klst. hvíld á vinnusólarhring. Kjarasamningsreglan er svo hljóðandi;

Hvíld undir 8 klst.:  
Komi upp sérstakar aðstæður vegna nauðsynlegs viðhalds eða verði truflun á starfsemi vegna ytri aðstæðna svo sem vegna veðurs eða annarra náttúruafla, slysa, orkuskorts, bilana í vélum, tækjum eða öðrum búnaði eða annarra ófyrirséðra atburða og koma verður í veg fyrir verulegt tjón, er heimilt að stytta hvíld niður fyrir 8 klst. 

Fái starfsmaður ekki 8 klst. hvíld á vinnusólarhringnum skal hann, auk frítökuréttar, fá greidda 1 klst. í yfirvinnu fyrir hverja klst. sem hvíldin fer niður fyrir 8 klst.

Eftirfarandi dæmi um útfærslu á hvíldartímaákvæðum og frítökurétti fylgja ofangreindum kjarasamningunum:

Dæmi: 
Starfsmaður vinnur til kl. 02:00. og byrjar aftur kl. 08:00. Hann fær einungis 6 klst. hvíld. Skv. kjarasamningi á hann inni frítökurétt 11 - 6 eða 5 x 1,5 klst. = 7,5. Skv. fyrrnefndri grein fær hann greitt til viðbótar unnum tíma 2 klst. í yfirv. (vegna 6 klst. hvíldar í stað 8 klst.). Sama gildir ef frídagur er daginn eftir.

Dæmi: 
Starfsmaður vinnur til kl. 02:00. og byrjar aftur kl. 13:00. Hann fær 11 klst. hvíld. Frítökuréttur er því enginn. Skv. greininni fær hann greitt til viðbótar unnum tíma 2 klst. í yfirv. (vegna 6 klst. hvíldar í stað 8 klst.)

Dæmi: 
Starfsmaður vinnur í einn sólarhring, eða frá kl. 08:00 til kl. 08:00 og fer þá heim að sofa. Skv. greininni fær hann greitt til viðbótar unnum tíma 8 klst. í yfirv. (vegna 0 klst. hvíldar í stað 8 klst.). Um ávinnslu frítökuréttar fer eftir því hvort hvíldardagur eða vinnudagur er daginn eftir.

  1. Ef það er hefðbundinn vinnudagur daginn eftir ávinnst enginn frítökuréttur. Starfsmaður heldur þá föstum launum þann dag. 
  2. Sé hins vegar frídagur daginn eftir öðlast starfsmaður frítökurétt. Kjarasamningar kveða þó á um hámark frítökuréttar og er það mismunandi eftir samningum. Í kjarasamningi RSÍ er miðað við föst laun í einn dag en í samningum annarra félaga er hámark frítökuréttar sem nemur 10 dagvinnustundum.
  3. Í samningum Samiðnar, Matvíss og verkstjóra er sérákvæði um tilvik þegar unnið er lengi á undan degi sem venjulega er aðeins unninn að hluta, t.d. frá kl. 08 – kl. 13. Þá öðlast starfsmaður frítökurétt sem nemur 10 dagvinnustundum eins og um frídag væri að ræða, að frádregnum þeim tímum sem hann fékk greidda í hvíld m.v. dagvinnutímaígildi.

Dæmi: 
Starfsmaður vinnur 32 klst. samfellt, eða frá kl. 08:00 til kl. 16:00 næsta dag. Til viðbótar unnum tímum fær hann 8 klst. í yfirvinnu (vegna 0 klst. hvíldar í stað 8 klst.) auk þess sem hann ávinnur sér frítökurétt sem nemur föstum launum í einn dag (RSÍ) / 10 dagvinnustundum (aðrir) (vantar 11 klst. upp á hvíldina en hámark er á frítökuréttinum, sbr. dæmið hér að framan).

UPPSÖFNUN OG ÚTTEKT Á FRÍTÖKURÉTTI

Upplýsingar skal prenta á launaseðil       
Í kjarasamningunum er kveðið á um að uppsafnaður frítökuréttur skuli koma fram á launaseðli og jafnframt að hann skuli veittur í hálfum eða heilum dögum utan annatíma í starfsemi fyrirtækis í samráði við starfsmenn. 

Samráð við launamann - vinnureglur um úttekt
Gert er ráð fyrir að fríið sé tekið út á þeim tíma sem minnst er að gera í fyrirtækinu. Áður en ákvörðun um frítöku er tekin á vinnuveitandinn að hafa um það samráð við hlutaðeigandi starfsmenn, þ.e. kynna þeim áform fyrirtækisins um veitingu frísins og gefa þeim jafnframt færi á að setja fram óskir sínar áður en ákvörðun er tekin. Á þeim vinnustöðum þar sem uppsöfnun frítökuréttar meðal starfsmanna á sér stað í einhverjum mæli er eðlilegt að mótaðar verði almennar vinnureglur um það hvernig staðið er að úttekt starfsmanna á frítökuréttinum. 

Uppgjör við starfslok
Þá kveða kjarasamningarnir á um að eigi starfsmaður uppsafnaðan ónýttan frítökurétt við starfslok skal hann gerður upp og greiddur um leið og lokauppgjör á launum hans fer fram. Reikna skal orlof af þeim hluta frítökuréttar sem greiddur er út eins og af öðrum launum. Þá telst slíkur uppsafnaður frítökuréttur til ráðningartíma skv. kjarasamningunum.

VIKULEGUR FRÍDAGUR

Meginreglan um einn frídag í viku, þ.e. 35 klst. samfellda hvíld          
Á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður fá a.m.k. einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma. Meginreglan er því að starfsmaðurinn á að fá a.m.k. 35 klst. samfellda hvíld einu sinni í viku. Miðað er við að vikan hefjist á mánudegi. 

Starfsmenn skulu, að svo miklu leyti sem því verður við komið, fá sinn vikulega frídag á sunnudegi, og þar sem því verður við komið skulu allir þeir sem starfa hjá sama fyrirtæki eða á sama fasta vinnustað fá frí á þeim degi.

Frídegi frestað og tekið síðar         
Skv. kjarasamningunum er heimilt í tveimur tilvikum að fresta vikulegum frídegi og taka hann síðar, annars vegar með samkomulagi milli vinnuveitanda og hlutaðeigandi starfsmanna og hins vegar ef um það hefur verið samið í kjarasamningi. 

Samkomulag um að fresta frídegi 
Ef samkomulag er um frestun frídags er það meginregla að frí sé veitt í staðinn innan 14 daga, þ.e. tveir frídagar í vikunni þar á eftir. Sjá þó sérákvæði í samningum iðnaðarmanna og verkstjóra hér neðar.

Dæmi: 
Samkomulag er um að unnið verði næstu tvær helgar. Tveir kostir eru í stöðunni. Annars vegar að hluti starfsmanna vinni næstu tvo laugardaga og hinn hlutinn sunnudagana eða hins vegar að hluti þeirra vinni fyrri helgina og hinn hlutinn þá síðari. Samkomulag þarf um síðari kostinn.

Vikulegur frídagur á reglubundnum vinnudegi   
Náist ekki samkomulag skv. ofangreindu um frestun á vikulegum frídegi eða hann næst ekki sökum ófyrirséðra orsaka á starfsmaðurinn rétt á frídegi á reglubundnum vinnudegi í vikunni þar á eftir. Falli frídagur þannig á reglubundinn vinnudag skerðir það ekki rétt starfsmanns til fastra launa og vaktaálags.

Heimild til frestunar í kjarasamningum RSÍ, Samiðnar, Matvís og verkstjóra     
Í þessum samningum er gert ráð fyrir að í sérstökum tilvikum megi fresta frídegi lengur en til næstu viku. Þar segir:

Heimilt er með samkomulagi við starfsmann að fresta vikulegum frídegi þannig að í stað vikulegs frídags komi tveir samfelldir frídagar á tveim vikum. Töku frídaga má haga þannig að þeir séu teknir aðra hverja helgi (laugardag og sunnudag). Í sérstökum tilvikum má fresta vikulegum frídegi lengur þannig að starfsmaður fái samsvarandi hvíld innan 14 daga.

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.