Í kjarasamningum eru nú tvær reglur um hvíld í tengslum við útköll. Annars vegar hjá verkamönnum og verslunarmönnum og hins vegar hjá félagsmönnum í Rafiðnaðarsambandinu, Samiðn, Matvís og verkstjórafélögum. Hvað aðra samninga varðar vísast til viðkomandi kjarasamnings.
Verkafólk og verslunarmenn
Sé lágmarkshvíldin rofin með útkalli skapast frítökuréttur.
Frítökurétturinn reiknast sem mismunurinn á 11 klst. og lengsta hléi á tímabilinu frá upphafi vinnudags til upphafs næsta vinnudags, enda sé það að lágmarki átta klst. Ef ekki næst a.m.k. átta klst. samfelld hvíld verður að veita starfsmanni minnst átta klst. hvíld eftir síðasta útkall. Fái starfsmaður minna en 11 klst. samfellda hvíld á sólarhringnum, miðað við upphaf vinnudags, öðlast hann frítökurétt, 1½ klst. fyrir hverja stund sem vantar upp á 11 klst. hvíldina. Sama gildir sé starfsmaður kallaður út aðfaranótt frídags eða helgidags.
Hafa ber í huga að kjarasamningarnir gera ekki ráð fyrir að heimilt sé að stytta samfelldan hvíldartíma á sólarhring niður fyrir átta stundir.
Dæmi:
Vinna hefst kl 8:00. Starfsmaður vinnur til kl. 17:00 á mánudegi. Hann er kallaður út kl. 21:00 um kvöldið og stendur útkallið til kl. 24:00.
Í þessu dæmi getur tvennt komið til:
- Starfsmaður skal að þeirri vinnu lokinni fá 11 klst. samfellda hvíld. Starfsmaður mætir aftur til vinnu á þriðjudegi kl. 11:00 en heldur óskertum daglaunum þann dag.
- Starfsmaður er beðinn um að mæta til vinnu á þriðjudegi á reglubundnum vinnutíma kl. 08:00. Vegna þessa fráviks frá 11 klst. samfelldu hvíldinni skal starfsmaðurinn fá þann tíma sem vantar upp á 11 klst. hvíldina, þ.e. 3 klst., með hvíld síðar í reglubundnum vinnutíma án skerðingar á föstum daglaunum.
Frítökuréttur skal vera 1½ klst. fyrir hverja 1 klst. sem vantar upp á 11 klst. samfelldu hvíldina, í þessu dæmi 3 x 1½ klst. = 4½ klst. Eins og í öðrum tilfellum er heimilt að greiða hvíldaruppbótina (3 x ½ klst.) út í peningum en þó aðeins ef starfsmaður óskar þess.
Dæmi:
Vinna hefst kl 8:00. Starfsmaður vinnur til kl. 16:00 á mánudegi. Hann er kallaður út kl. 24:00 um kvöldið og útkallið stendur til kl. 08:00.
Þar sem starfsmaðurinn hefur þegar náð 8 klst. samfelldri hvíld á sólarhringnum frá upphafi vinnudags er heimilt að hann vinni áfram án sérstakrar hvíldar.
Í því tilfelli hefur starfsmaður öðlast frítökurétt sem er 3 x 1½ klst. = 4½ klst.
Að afloknum þeim vinnudegi hefur starfsmaðurinn unnið í 16 klst. samfleytt og má ekki vinna lengur.
Aukavaktir - vinnulota getur orðið allt að 16 klst.
Í vaktavinnukerfum getur komið upp sú staða að starfsmenn þurfa að vinna aukavaktir vegna forfalla eða af öðrum ófyrirséðum ástæðum. Kjarasamningarnir heimila slíkar aukavaktir þannig að vinnulota geti orðið allt að 16 klst. og skal þá veita 11 klst. hvíld strax eftir það. Sé starfsmaður kvaddur til vinnu áður en þeirri hvíld er náð, að fenginni 8 klst. samfelldri hvíld, myndast frítökuréttur fyrir þann tíma sem vantar upp á 11 klst. hvíldina samkvæmt reglunni um 1½ klst. á móti hverri frestaðri hvíldarstund. Í samræmi við meginregluna um 13 klst. hámarksvinnulotu og 11 klst. samfellda hvíld er þó eðlilegra að aukavöktum sé skipt í tvennt og reynt að manna þær með tveimur starfsmönnum í stað eins.
Dæmi:
Starfsmaður vinnur á þrískiptum 8 stunda vöktum og er á morgunvakt. Í lok vaktar kemur skyndilega upp að starfsmaður á síðdegisvakt komi ekki til vinnu vegna veikinda og er morgunvaktarmaðurinn beðinn um að hlaupa í skarðið. Hann gerir það og er síðan beðinn um að koma á réttum tíma á morgunvaktina næsta dag. Hann fékk aðeins aðeins átta klst. hvíld og safnar því frítökurétti sem er 4½ klst. (3 x 1½ = 4½). Betri framkvæmd á samningnum væri þó að óska eftir því að ofangreindur starfsmaður stæði fyrri hluta síðdegisvaktarinnar og að næturvaktarstarfsmaðurinn kæmi fyrr og stæði síðari hluta síðdegisvaktarinnar.
Iðnaðarmenn og verkstjórar
Ljúki útkalli starfsmanns fyrir kl. 00:00 myndast ekki frítökuréttur ef starfsmaður nær samanlagt 11 klst. hvíld frá upphafi reglulegs vinnudags til upphafs þess næsta (vinnusólarhringur). Ef samfelld hvíld fer niður fyrir 8 klst. fær starfsmaður hins vegar yfirvinnu auk frítökutökuréttar vegna tíma sem vantar upp á 11 klst. hvíld.
Ljúki útkalli á tímabilinu kl. 00:00 – kl. 06:00 reiknast ekki frítökuréttur ef 11 klst. samfelld hvíld næst fyrir eða eftir útkallið. Að öðrum kosti skal frítökuréttur miðast við muninn á lengstu hvíld og 11 klst.
Dæmi:
Starfsmaður vinnur frá kl. 08:00 til kl. 17:00. Hann er kallaður út og vinnur frá kl. 21:00 til kl. 23:00. Útkallinu lýkur fyrir miðnætti og því öðlast hann ekki frítökurétt þar sem samanlögð hvíld nær 11 klst.
Dæmi:
Starfsmaður vinnur frá kl. 08:00 til kl. 17:00. Hann er kallaður út og vinnur frá kl. 01:00 til kl. 03:00. Hann kemur aftur til vinnu kl. 08:00. Lengsta hvíld er 8 klst. og því vantar 3 klst. upp á 11 klst. hvíldina. Frítökuréttur er því 4,5 klst. (3 klst. x 1,5).
Dæmi:
Starfsmaður vinnur frá kl. 08:00 til kl. 19:00. Hann er kallaður út og vinnur frá kl. 01:00 til kl. 03:00. Hann er beðinn um að koma til vinnu kl. 08:00 næsta dag.
Þótt samanlögð hvíld nái 11 klst. þá gildir sú regla ekki því útkallinu lýkur eftir miðnætti. Lengsta hlé er 6 klst. og því vantar 5 klst. upp á 11 klst. hvíld. Frítökuréttur er 7,5 klst. (5 klst. x 1,5) en að auki skal greiða 2 klst. í yfirvinnu þar sem að 2 klst. vantaði upp á að 8 klst. samfelldri hvíld væri náð.
Sérreglur í kjarasamningum RSÍ, Samiðnar og annarra félaga byggingamanna, Matvís og verkstjóra
Í kjarasamningum ofangreindra stéttarfélaga hefur verið samið um auknar greiðslur náist ekki 8 klst. hvíld á vinnusólarhring. Kjarasamningsreglan er svo hljóðandi;
Hvíld undir 8 klst.:
Komi upp sérstakar aðstæður vegna nauðsynlegs viðhalds eða verði truflun á starfsemi vegna ytri aðstæðna svo sem vegna veðurs eða annarra náttúruafla, slysa, orkuskorts, bilana í vélum, tækjum eða öðrum búnaði eða annarra ófyrirséðra atburða og koma verður í veg fyrir verulegt tjón, er heimilt að stytta hvíld niður fyrir 8 klst.
Fái starfsmaður ekki 8 klst. hvíld á vinnusólarhringnum skal hann, auk frítökuréttar, fá greidda 1 klst. í yfirvinnu fyrir hverja klst. sem hvíldin fer niður fyrir 8 klst.
Eftirfarandi dæmi um útfærslu á hvíldartímaákvæðum og frítökurétti fylgja ofangreindum kjarasamningunum:
Dæmi:
Starfsmaður vinnur til kl. 02:00. og byrjar aftur kl. 08:00. Hann fær einungis 6 klst. hvíld. Skv. kjarasamningi á hann inni frítökurétt 11 - 6 eða 5 x 1,5 klst. = 7,5. Skv. fyrrnefndri grein fær hann greitt til viðbótar unnum tíma 2 klst. í yfirv. (vegna 6 klst. hvíldar í stað 8 klst.). Sama gildir ef frídagur er daginn eftir.
Dæmi:
Starfsmaður vinnur til kl. 02:00. og byrjar aftur kl. 13:00. Hann fær 11 klst. hvíld. Frítökuréttur er því enginn. Skv. greininni fær hann greitt til viðbótar unnum tíma 2 klst. í yfirv. (vegna 6 klst. hvíldar í stað 8 klst.)
Dæmi:
Starfsmaður vinnur í einn sólarhring, eða frá kl. 08:00 til kl. 08:00 og fer þá heim að sofa. Skv. greininni fær hann greitt til viðbótar unnum tíma 8 klst. í yfirv. (vegna 0 klst. hvíldar í stað 8 klst.). Um ávinnslu frítökuréttar fer eftir því hvort hvíldardagur eða vinnudagur er daginn eftir.
- Ef það er hefðbundinn vinnudagur daginn eftir ávinnst enginn frítökuréttur. Starfsmaður heldur þá föstum launum þann dag.
- Sé hins vegar frídagur daginn eftir öðlast starfsmaður frítökurétt. Kjarasamningar kveða þó á um hámark frítökuréttar og er það mismunandi eftir samningum. Í kjarasamningi RSÍ er miðað við föst laun í einn dag en í samningum annarra félaga er hámark frítökuréttar sem nemur 10 dagvinnustundum.
- Í samningum Samiðnar, Matvíss og verkstjóra er sérákvæði um tilvik þegar unnið er lengi á undan degi sem venjulega er aðeins unninn að hluta, t.d. frá kl. 08 – kl. 13. Þá öðlast starfsmaður frítökurétt sem nemur 10 dagvinnustundum eins og um frídag væri að ræða, að frádregnum þeim tímum sem hann fékk greidda í hvíld m.v. dagvinnutímaígildi.
Dæmi:
Starfsmaður vinnur 32 klst. samfellt, eða frá kl. 08:00 til kl. 16:00 næsta dag. Til viðbótar unnum tímum fær hann 8 klst. í yfirvinnu (vegna 0 klst. hvíldar í stað 8 klst.) auk þess sem hann ávinnur sér frítökurétt sem nemur föstum launum í einn dag (RSÍ) / 10 dagvinnustundum (aðrir) (vantar 11 klst. upp á hvíldina en hámark er á frítökuréttinum, sbr. dæmið hér að framan).