Jafnlaunavottun

Með lögum um jafnlaunavottun nr. 56/2017 var gerð breyting á ákvæðum jafnréttislaga og eru því ákvæði um skyldu til innleiðingar jafnlaunastaðalsins og öðlast vottun að finna í jafnréttislögum.

Skilgreiningar hugtaka eru í 2. gr. og í 4 - 10. mgr. 19. gr. eru efnisleg ákvæði um að úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækja og stofnana þurfi að uppfylla ákvæði staðalsins. Þar er ákvæði um að fyrirtæki eða stofnun þar sem 25 eða fleiri starfa að jafnaði á ársgrundvelli skuli öðlast vottun, að undangenginni úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfu jafnlaunastaðalsins.

Með fyrirtæki í þessum skilningi er átt við þá starfsemi sem fellur undir kennitölu viðkomandi fyrirtækis. Ekki þarf því að jafnlaunavotta samstæður félaga. 

Jafnlaunavottun þarf að endurnýja á þriggja ára fresti. 

Heimilt er að beita þeim fyrirtækjum dagsektum sem verða ekki við fyrirmælum Jafnréttisstofu um úrbætur innan hæfilegs frests.

HLUTVERK VOTTUNARAÐILA

Vottunaraðili telst sá aðili sem hlotið hefur faggildingu hjá faggildingarsviði Einkaleyfastofu eða sambærilegum aðila á Evrópska efnahagssvæðinu. Vottunaraðili skal geta framvísað faggildingarskírteini til staðfestingar á faggildingu sinni.

Vottunaraðili stýrir og framkvæmir úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækis. Þegar hann hefur lokið við að sannreyna að launakerfi fyrirtækisins samræmist jafnlaunastaðlinum tekur hann ákvörðun um vottun og gefur út vottunarskírteini því til staðfestingar.   

Velferðaráðuneytið veitir fyrirtæki svo jafnlaunamerki á grundvelli vottunarskírteinis vottunaraðila. 

Þegar vottun liggur fyrir skal vottunaraðili skila Jafnréttisstofu afriti af vottunarskírteini ásamt skýrslu um niðurstöðu úttektar. 

HVENÆR ÞARF FYRIRTÆKI AÐ VERA ORÐIÐ JAFNLAUNAVOTTAÐ?

Það fer eftir stærð fyrirtækis hvenær það þarf að vera búið með jafnlaunavottun, sbr. lög um jafnlaunavottun.

Tímamörkin eru eftirfarandi, eins og þeim var breytt með reglugerð nr. 997/2018:

a)   31. desember 2019 fyrirtæki þar sem starfa 250 starfsmenn eða fleiri á ársgrundvelli,
b)   31. desember 2020 fyrirtæki þar sem starfa 150-249 starfsmenn á ársgrundvelli,
c)   31. desember 2021 fyrirtæki þar sem starfa 90-149 starfsmenn á ársgrundvelli,
d)   31. desember 2022 fyrirtæki þar sem starfa 25-89 starfsmenn á ársgrundvelli.

Fyrirtæki sem eru að hálfu eða meiri­hluta í eigu ríkisins og þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skulu hafa öðlast vottun skv. 4. mgr. 19. gr. eða staðfestingu skv. 5. mgr. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á jafnlaunakerfi og framkvæmd þess eigi síðar en 31. desember 2019. 

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.