Jöfn laun

Samkvæmt 19. gr. laga nr. nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla („jafnréttislög“) skulu konum og körlum er starfa hjá sama vinnuveitanda greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Hvað eru jöfn laun?
Með jöfnum launum er í lögunum átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun mega því ekki fela í sér kynjamismunun.

Sama eða jafnverðmætt starf
Það ákvæði laganna sem helst kemur til skoðunar er það hvort um sama eða jafnverðmætt starf er að ræða.

Ef leiddar eru líkur á að koma og karl sem starfa hjá sama vinnuveitanda njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf hvílir sönnunarbyrði á vinnuveitanda að sýna fram á að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni, sbr. 2. mgr. 25. gr. jafnréttislaga. 

Vinnuveitanda tókst slík sönnun í máli:
- starfsmanna með sama starfsheiti á grundvelli muns á persónubundnum þáttum svo sem starfsreynslu (úrskurður kærunefndar jafnréttismála nr. 3/2016)(Þjóðskjalasafnið ), 
- tveggja viðskiptastjóra á þeim forsendum að annar starfsmaðurinn annaðist önnur og verðmætari verkefni og hafði yfir að ráða mun meiri starfsreynslu og menntun á því sviði sem þau störfuðu á (úrskurður kærunefndar jafnréttismála nr. 2/2009)(Kaupþing banki ),
- sölumanna þar sem vinnutími annars sölumannsins var meiri og hann gegndi einnig öðrum og mun víðtækari starfsskyldum (álit kærunefndar jafnréttismála nr. 7/2004)(Kjarnafæði ),
- þar sem vinnuframlag tveggja karlmanna á uppsagnarfresti var afþakkað en ekki konu á þeirri forsendu að konan hafði unnið skemur hjá félaginu og var ekki með eins sterka afstöðu gegn þeim skipulagsbreytingum sem voru tilefni uppsagnanna (úrskurður kærunefndar jafnréttismála nr. 10/2015)(DV ). 

Vinnuveitanda tókst á hinn bóginn ekki slík sönnun í máli:
- þar sem starfsmenn með sömu menntun og sambærilega starfsreynslu voru ráðnir til þess að gegna sama starfi og uppfylltu báðir öll þau skilyrði sem gerð voru í starfslýsingu (úrskurður kærunefndar jafnréttismála nr. 4/2015 og 5/2015)(Seðlabankinn ),
- þar sem varnir hans byggðu á því að þar sem starfsmennirnir ættu undir ólíka kjarasamninga væri málefnalegt að greiða þeim mishá laun (dómur Hæstaréttar nr. 258/2004)(STAK ),
- vegna þess að hann neitaði að afhenda kærunefnd jafnréttismála nauðsynleg gögn (úrskurður kærunefndar jafnréttismála nr. 3/2017)(Álverið ),
- þar sem hann bar fyrir sig að launamurinn skýrðist af því að karlmaðurinn væri í hlutastarfi en bannað er að mismuna hlutastarfsfólki (úrskurður kærunefndar jafnréttismála nr. 5/2017)(Hönnunarhúsið ).  

Var efnið hjálplegt?

Þakka þér fyrir þitt álit.
Það væri gagnlegt að vita meira um hvað þér finnst.

Hjálpaðu okkur að bæta vefinn með því að gefa þitt álit á efni hans.